Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir vinnumarkaðinn þurfa að sýna af sér aga, í kjölfar niðurstöðu í kjarasamningum kennara.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir vinnumarkaðinn þurfa að sýna af sér aga, í kjölfar niðurstöðu í kjarasamningum kennara.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir vinnumarkaðinn þurfa að sýna af sér aga, í kjölfar niðurstöðu í kjarasamningum kennara.
Ríkið hafi almenna aðkomu að menntamálum í landinu og menntamálaráðherra muni berjast fyrir úrræðum sem gagnast muni leik- og grunnskólastiginu með almennum hætti.
„En sveitarfélögin eru auðvitað þau sem að gerðu þessa samninga og þurfa að standa við það,“ segir hún í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í Keflavík í dag, um fjármagn til sveitarfélaganna til að standa undir samningunum við kennara.
Eins og greint hefur verið frá var í kjaraviðræðum kennara samið umfram það sem stöðugleikasamningarnir höfðu markað á síðasta ári.
Spurð hvort hún hafi áhyggjur af áhrifum þessa samninga á verðbólgu segir Kristrún skipta mestu máli að „fólk heyri þau skilaboð að ríkið – og hið opinbera allt – muni halda sig við merki markaðarins, það er að segja þá launastefnu sem var mörkuð í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum í fyrra“. Í tilviki kennara hafi þó stefnt í virðismatsvegferð og því verið ákveðið að fara þá leið að það kæmi innspýting inn í það virðismat, sem að ríkið ætlar núna að flýta og reyna að skila niðurstöðum sem allra fyrst.
„Að því leytinu til er þessi hópur tekinn út fyrir sviga, en því mun fylgja síðan endanleg niðurstaða í virðismati.“
Þú óttast þá ekki að fari af stað þetta þekkta höfrungahlaup í kjölfarið?
„Það skiptir auðvitað bara gríðarlega miklu máli að fólk virði áfram merkið og í þessu tilviki sé horft til þess að þessi hópur sé sérstaklega tekinn út fyrir sviga. Við erum meðvituð um stöðuna í leik og grunnskólum, við erum meðvituð um það að það stefndi í þetta virðismat, þetta er innspýting inn í það virðismat, og í því tilviki þá er um aðra stöðu að ræða.“
Þannig að þú myndir ekki telja stöðugleikasamningana í hættu, svona eftir þessa niðurstöðu?
„Lykilatriðið verður auðvitað núna í framhaldinu að fólk virði merkið, og eins og ég segi það sem er grundvallaratriði er að þær umframhækkanir sem hér um ræðir eru í formi virðismats, þær eru bundnar við virðismatsvegferðina og eru innspýting inn í það og þess vegna, að því leytinu til, er merkið virt vegna þess að innspýtingin er tengd þessu virðismati.“
Efling sagði upp einum kjarasamningi í gær og hefur Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagt að það sé ný stefna í kjarasamningum og talað eins og horft verði til þess þegar það samið verði á ný.
„Já ég hef heyrt þessi skilaboð en ég vek bara athygli á því að merkið er meðaltal – meðaltalshækkun í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum – og í tilviki ákveðinna hópa þá voru meiri hækkanir en sem nam merkinu,“ segir Kristrún, spurð álits um hvort ummæli Sólveigar Önnu séu til merkis um að samningar kennara séu að hafa áhrif á aðra kjarasamninga.
„Í þessu tilviki er um að ræða hóp sem er að fá viðbótarhækkanir í formi og nafni virðismats, og það skiptir gríðarlega miklu máli að það er ákveðið akkeri þarna í virðismatinu. Það stendur ekki til að fara í að útvíkka merkið að öðru leyti og ríkið sendir þau skýru skilaboð til vinnumarkaðarins að merkið þarf að standa.“
Spurð hvort hún sjálf óttist áhrif á verðbólgu, í ljósi þess að hagfræðingar hafa varað við þeim áhrifum samningsins, segir Kristrún kennara ekki stóran hóp vinnumarkaðarins. Innspýtingarnar séu hluti af þeirri virðismatsvegferð sem stefnt hafi verið að í dágóðan tíma.
„Nú skiptir bara máli að við höldum okkur við merkið og að vinnumarkaðurinn sýni ákveðinn aga. Það eru auðvitað jákvæð merki til staðar, við erum að sjá verðbólgu lækkandi, vonandi vexti lækkandi og þar skapast aukið svigrúm líka hjá launafólki.
Í því samhengi skiptir innrömmunin öllu máli, það er verið að taka ákveðinn hóp út fyrir sviga, það hafa verið vandamál þegar það kemur að ráðningum og mönnun á þessum sviðum, það stefndi alltaf í þessa virðismatsvegferð, ríkið ætlar að flýta þeirri virðismatsvegferð til þess að staðfesta þessar hækkanir. Þannig að formið skiptir bara öllu máli eins og það gerir auðvitað alltaf í kjarasamningum.“
Spurð hvernig ríkið ætli að koma til móts við sveitarfélögin varðandi samningana, í ljósi þess að fjármögnun liggi ekki ljóst fyrir, svarar Kristrún að ríkið hafi ekki aðkomu að samningum við leik og grunnskólakennara.
„Nú var KÍ í samfloti þvert yfir sín félög, sem gerði það að verkum að í einhverjum tilvikum sat fólk saman á fundum af því að það var verið að semja með þeim hætti, þannig að ríkið hefur ekki beina aðkomu að þessu.
Við hins vegar erum fyllilega meðvituð um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og höfum verið með það til skoðunar að það þurfi að endurskoða, til að mynda fjármögnun sem að snýr að velferð barna og sérstaklega fölþættan vanda, þegar það snýr að öryggisvistun og líka hjúkrunarheimilum.“
Hún vænti þess að ef hægt er að finna einhverja leið þar muni skapast aukið svigrúm hjá sveitarfélögunum, „en sveitarfélögin eru auðvitað þau sem að gerðu þessa samninga og þurfa að standa við það.“
Ríkið hefur þó almenna aðkomu að menntamálum í landinu og eru, að sögn Kristrúnar, með metnaðarfullan menntamálaráðherra sem muni berjast fyrir úrræðum sem gagnast muni leik- og grunnskólastiginu með almennum hætti.
„Við auðvitað berum ábyrgð á því að menntastofnanir í landinu geti staðið undir sér heilt yfir og þess vegna erum við meðvituð um fjárhagsstöðu sveitarfélaga, en í lok dags er þetta almenn aðgerð og verður skoðuð sem slík.“
Sameiningar sveitarfélaga á Reykjanesskaga hafa verið til umræðu nýlega en aðspurð segir Kristrún þær ekki hafa verið ræddar sérstaklega á fundinum í dag, í lok dags sé þetta ákvörðun viðkomandi sveitarfélaga.
Hún segir þó nýtt frumvarp væntanlegt um jöfnunarsjóð hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þar sem litið verði til þess að hvetja mögulega til ákveðinna sameininga á svæðinu.
„En þetta verður ákvörðun sveitarfélaganna í lok dags.“