„Við erum á rosalega hættulegri vegferð“

Neyðarástand í málefnum barna | 28. febrúar 2025

„Við erum á rosalega hættulegri vegferð“

Tíu árum eftir að ákvörðun var tekin um stofnun nýs meðferðarheimilis fyrir börn með fjölþættan vanda, rúmum sex árum eftir viljayfirlýsingu um byggingu þess í Garðabæ, og fimm árum eftir að vonir stóðu til að meðferðarheimilið yrði tilbúið, bólar enn ekkert á því.

„Við erum á rosalega hættulegri vegferð“

Neyðarástand í málefnum barna | 28. febrúar 2025

Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, segir kerfið alls staðar komið að …
Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, segir kerfið alls staðar komið að þolmörkum og skilur ekki eftir hverju er verið að bíða. Samsett mynd

Tíu árum eftir að ákvörðun var tekin um stofnun nýs meðferðarheimilis fyrir börn með fjölþættan vanda, rúmum sex árum eftir viljayfirlýsingu um byggingu þess í Garðabæ, og fimm árum eftir að vonir stóðu til að meðferðarheimilið yrði tilbúið, bólar enn ekkert á því.

Tíu árum eftir að ákvörðun var tekin um stofnun nýs meðferðarheimilis fyrir börn með fjölþættan vanda, rúmum sex árum eftir viljayfirlýsingu um byggingu þess í Garðabæ, og fimm árum eftir að vonir stóðu til að meðferðarheimilið yrði tilbúið, bólar enn ekkert á því.

Það er varla hægt að segja að það sé á teikniborðinu, því samkvæmt svörum frá mennta- og barnamálaráðuneytinu hefur aldrei náðst samkomulag um fyrirhugað meðferðarheimili í Garðabæ eða staðsetningu þess.

Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, hefur talað fyrir því meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði verði opnað aftur til að bregðast við úrræðaleysi í málefnum barna með fjölþættan vanda. Um er að ræða húsnæði sem byggt var sérstaklega undir starfsemi meðferðarheimilis, en því var lokað árið 2017.

„Við höfum núna beðið í tíu ár eftir einhvers konar meðferðarmusteri sem átti að rísa á hér höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur ekki risið ennþá og ég sé þetta ekki vera að fara að rísa neitt í þessu árferði sem við búum við,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Engin staðsetning en samt vísað til þess

Í raun liggur ekki fyrir hvar umrætt meðferðarheimili á að rísa, þó gjarnan sé vísað til þess í Garðabæ þegar rætt er um úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda. Til að mynda í skýrslu stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda frá árinu 2023. Þar kemur fram að fyrirhugað sé að starfsemi á þessu nýja meðferðarheimili í Garðabæ hefjist í lok árs 2025. 

Sá möguleiki er vissulega enn fyrir hendi að heimilið rísi á endanum í Garðabæ, en áform um byggingu þess eru nú hluti af heildarendurskoðun þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Meðferðarheimilið er semsagt ennþá bara hugmynd.

Haldið hefur verið sérstaklega utan um það fjármagn sem ætlað var í framkvæmdina á sínum tíma og hefur því ekki verið ráðstafað í annað, að fram kemur í svörum ráðuneytisins. Meira fjármagn þarf hins vegar í framkvæmdina.

Sagt að næg úrræði væru til staðar

Þegar viljayfirlýsing var undirrituð í desember árið 2018 um byggingu nýs meðferðarheimilis fyrir börn með fjölþættan vanda við Vífilstaðavatn í Garðabæ, var gert ráð fyrir að framkvæmdir hæfust árið 2020. Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félagsmálaráðherra, síðar mennta- og barnamálráðherra, sagði jafnframt í viðtali á RÚV á þeim tíma að vonir stæðu til að framkvæmdum myndi ljúka það sama ár. Það gerðist hins vegar ekki, eins og ítrekað hefur komið fram. 

Rekja má málið aftur til ársins 2015 en það var þá sem félags- og húsnæðismálaráðherra tók ákvörðun um stofnun nýs meðferðarheimilis á höfuðborgarsvæðinu fyrir börn á aldrinum 16 til 18 ára. Var þá verið að bregðast við ábendingu ríkisendurskoðunar sem gerði úttekt á stöðu barnaverndarmála á Íslandi. Talað var um að þar til nýtt meðferðarheimili yrði sett á laggirnar yrði þessum hópi barna sinnt á meðferðarheimilinu Háholti í Skagafirði. 

Háholti var hins vegar lokað árið 2017, en um var að ræða einkarekstur með þjónustusamning við Barnaverndarstofu, nú Barna- og fjölskyldustofu. Ástæða lokunarinnar var lítil eftirspurn og var vísað til þess að meiri áhersla hefði verið lögð á svokallaða fjölkerfameðferð (MST) í starfi Barnaverndarstofu, og samhliða hefði dregið úr þörf á stofnanameðferð. En MST meðferð fer fram á heimili fjölskyldunnar og gerð er krafa um að barnið búi á heimilinu.

Þor­steinn Víglunds­son, þáverandi félags­mála- og jafn­rétt­is­ráð­herra, sagði þá í samtali við Kjarnann að Barna­vernd­ar­stofa hefði næg úrræði til að sinna því starfi sem með­ferð­ar­heim­ilið Háholt sinnti áður þó ekki væri búið að byggja upp nýtt meðferðarúrræði á höfuðborgarsvæðinu. Fagleg rök hefðu legið fyrir lokun Háholts.

Síðustu árin sem starfsemi var í Háholti var þar öryggisvistun fyrir börn sem afplánuðu óskilorðbundna dóma.

„Myndum við missa eitthvað alveg einstakt“

„Þetta er mjög sértækt hús sem var sérstaklega búið til frá alveg grunni með það í huga að vista börn og unglinga með fjölþættan vanda. 2014 var ráðist í umfangsmiklar endurbætur á húsinu, til að uppfylla Barnsáttmála sameinuðu þjóðanna og alþjóðlega sáttmála um neyðarvistun barna,“ segir Jón.

Hann heimsótti Háholt í vikunni og telur húsnæðið vera nákvæmlega það sem vantar núna, enda uppfylli það öll skilyrði um meðferðarheimili og stendur autt.

„Ég hef kallað eftir því að það verði skoðað af alvöru kostir og gallar þess að opna þetta aftur. Það yrði synd ef þessu yrði breytt í sveitahótel, þá myndum við missa eitthvað alveg einstakt.“

„Það er allt komið að þolmörkum“

Barna- og fjölskyldustofa virðist hins vegar ekki vera á sama máli og telur framkvæmdastjóri meðferðarsviðs staðsetninguna ekki henta.

„Barna- og fjölskyldustofa virðist ekki hafa áhuga á þessu og líta á þetta sem úrelt úrræði,“ segir Jón og vísar meðal annars til viðtals við Funa Sigurðsson, framkvæmdastjóra meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, á RÚV í vikunni.  Þar sagði hann lausnina ekki vera að opna starfsemi í Háholti, enda væri fjarlægðin hindrun. Til dæmis í ljósi þess að almennt væri reynt að tryggja að fangar væru ekki of fjarri fjölskyldum sínum.

„Erum við ekki að fylgja einhverri byggðastefnu hérna á Íslandi? Hafandi búið í Reykjavík og unnið á Akureyri og á báðum stöðum, fjarlægð er ekki hindrun. Það tekur einhverja þrjá til fjóra klukkutíma að keyra á milli Skagafjarðar og Reykjavíkur, það er engin hindrun í því,“ segir Jón.

Neyðarástand ríki í málaflokknum og ekki sé hægt að bíða, börnin eigi betra skilið.

„Ég heyri það alls staðar, ég fer mikið um og heyri það í framlínunni hjá fólki sem er að vinna í málefnum barna, í fíknimeðferð, og það er sama alls staðar. Það er allt komið að þolmörkum og ég skil ekki eftir hverju er verið að bíða.“

Meðferðarkerfið ófært um að sinna þjónustuþörf 

Líkt og mbl.is hefur fjallað um og Jón kemur inn á ríkir neyðarástand í málefnum barna með fjölþættan vanda, vegna úrræðaleysis og skorts á viðeigandi þjónustu. Vandamál hefur komið upp með hvert meðferðarheimilið á fætur öðru, sem hefur aukið á vandann, og í samtali við mbl.is fyrr í mánuðunum sagði forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, stöðuna aldrei hafa verið verri.

Umboðsmaður barna hefur bent á að aukið fjármagn í málaflokkinn hafi ekki skilað þeim árangri að bæta úr vandanum. Úrræðum hafi fækkað og þjónusta verið skert.

Í bréfi umboðsmanns sem sent var ráðherra í byrjun febrúar kemur fram að þau meðferðarúrræði sem ríkið beri ábyrgð á standi ekki undir hlutverki sínu.

„Meðferðar­kerfið sé því ófært um að sinna þeirri þjón­ustuþörf sem því er ætlað að sinna í þágu þessa viðkvæma hóps,“ segir þar meðal annars.

Hvert úrræðið á fætur öðru dottið út

Síðasta vor var Lækjarbakka, eina langtímameðferðarheimilinu sem gat tekið á móti drengjum, lokað vegna myglu. Hefur heimilinu verið fundin önnur staðsetning í Gunnarsholti á Rangárvöllum, en framkvæmdir standa enn yfir við húsnæðið og ekki liggur fyrir hvenær heimilið verður opnað. 

Í október síðastliðnum gjöreyðilagðist svo álma fyrir neyðarvistun á Stuðlum í bruna, þar sem 17 ára drengur lést. Í kjölfarið þurfti að stúka af rými á meðferðardeildinni undir neyðarvistun og var deildin minnkuð sem því nemur, en neyðarvistun fer einnig fram á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði. Á Stuðlum er nú eingöngu tekið á móti börnum og unglingum í gæsluvarðhald og afplánun og úrræðið hugsað sem langtímameðferð fyrir erfiðustu tilfellin, ásamt neyðarvistun. 

Til að mæta brýnni þörf á meðferðarúrræðum stóð til að opna meðferðarheimili í Blönduhlíð í Farsældartúni í Mosfellsbæ í desember, en í ljós kom að húsnæðið stenst ekki kröfur um brunavarnir og starfsleyfi hefur því ekki verið veitt. Starfsemi heimilisins hefur verið fundin tímabundin staðsetning á Vogi og er byrjað að taka á móti skjólstæðingum þar. Sá leigusamningur gildir hins vegar aðeins til áramóta.

Óvíst er hvert starfsemin flyst eftir það, en ólíklegt er að meðferðarheimili verði nokkurn tíma í Blönduhlíð, þar sem gera þarf miklar breytingar á húsnæðinu til að það standist kröfur um brunavarnir.

Ekki var í boði hefðbundin meðferð og greining, líkt og áður gerði á Stuðlum, frá því í lok október og þangað til í byrjun febrúar þegar úrræðið var opnað á Vogi. Í tæpt ár hefur ekki verið í boði langtímaúrræði fyrir drengi, en á Bjargey í Eyjafirði er tekið á móti stúlkum í langtímameðferð.

Meðferðarúrræðið sem nú er tímabundið á Vogi á ekki að koma í staðinn fyrir meðferðarheimilið sem stóð til að byggja í Garðabæ, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.

Börnum í varðhaldi og afplánun fjölgað 

Þegar viljayfirlýsing var undirrituð vegna heimilisins í Garðabæ kom fram að gert yrði ráð fyrir 6 til 8 plássum í þremur aðskildum hlutum heimilisins og það yrði ætlað unglingum sem þyrftu sérhæfða meðferð á meðferðarheimili vegna alvarlegs hegðunar- og/eða vímuefnavanda.

„Þar munu börn á aldrinum 15-17 ára einnig geta afplánað óskilorðsbundna fangelsisdóma á forsendum meðferðarþarfar í stað fangelsisvistar og eftir atvikum setið í gæsluvarðhaldi í lausagæslu. Áhersla verður lögð á meðferð áhættuþátta með þátttöku fjölskyldunnar, aðlögun að nærumhverfi, skóla eða vinnu og jákvæðum tómstundum,“ sagði í yfirlýsingunni.

Börnum og unglingum í gæsluvarðhaldi og afplánun hefur fjölgað síðustu misseri en sá hópur er nú vistaður á Stuðlum, þrátt fyrir að það teljist ekki hentugt húsnæði fyrir slíka starfsemi. 

Gatan kölluð úrræði

„Mér finnst það blasa við, við erum komin með uppsafnaðan og alveg gjörsamlega óásættanlegan vanda. Kostnaður vegna barnaverndarmála er að sliga mörg sveitarfélög þetta er orðið svo flókið og óyfirstíganlegt. Þetta heyri ég alls staðar af landinu. Það er kannski einn einstaklingur sem er að kosta sveitarfélagið um 200 milljónir á ári, í að finna út eitthvað úrræði í úrræðaleysi,“ segir Jón.

„Það ætti að vera þjóðarátak í úrbótum á þessum málaflokki. Þetta er eitthvað sem snertir okkur öll, mál sem spyr ekki hvorki um stétt né stöðu, menntun eða neitt slíkt. Eða hvar þú býrð.“

Börn eru jafnvel á götunni vegna úrræðaleysis og hefur Jón heyrt af þannig tilfellum.

„Það er meira að segja jafnvel kallað úrræði. Það er jafnvel sagt að barninu hafi verið fundið annað úrræði, en þá er það bara sett á götuna. Við erum á rosalega hættulegri vegferð, finnst mér,“ segir Jón.

„Ég er að reyna að rétta upp hönd og þegar við erum að tala um verðmætasóun, þetta er alvöru sóun. Mér finnst krakkarnir okkar eiga miklu betra skilið en þetta.“

mbl.is