Skiptar skoðanir á saltmagninu

Sprengidagur | 4. mars 2025

Skiptar skoðanir á saltmagninu

Það má með sanni segja að það hafi verið mikið að gera hjá kjötmönnunum síðustu daga og nái hámarki í dag, sprengidag. Sérvaldir bitar njóta mikilla vinsælda og skiptar skoðanir eru á saltmagninu.

Skiptar skoðanir á saltmagninu

Sprengidagur | 4. mars 2025

Jóhann Ingi Jóhannsson kaupmaður í Kjöthöllinni hefur undirbúið sprengidaginn vel …
Jóhann Ingi Jóhannsson kaupmaður í Kjöthöllinni hefur undirbúið sprengidaginn vel og býður upp á þrjá verðflokka af saltkjöti. mbl.is/Árni Sæberg

Það má með sanni segja að það hafi verið mikið að gera hjá kjötmönnunum síðustu daga og nái hámarki í dag, sprengidag. Sérvaldir bitar njóta mikilla vinsælda og skiptar skoðanir eru á saltmagninu.

Það má með sanni segja að það hafi verið mikið að gera hjá kjötmönnunum síðustu daga og nái hámarki í dag, sprengidag. Sérvaldir bitar njóta mikilla vinsælda og skiptar skoðanir eru á saltmagninu.

„Það er með þennan mat eins og margt annað, þetta er gott í hófi. En þetta er herramannsmatur,“ segir Jóhann Ingi Jóhannsson, kaupmaður í Kjöthöllinni í Skipholti.

Sprengidagurinn er annasamur hjá kjötkaupmönnum en Jóhann og hans fólk kemur vel undirbúið til leiks í dag.

„Ég fór að undirbúa þetta fyrir svona mánuði með innkaupum og slíku. Svo var byrjað að salta fyrir rúmri viku. Þetta er léttsaltað hjá okkur. Þannig erum við að einhverju leyti að svara kalli markaðarins enda vilja sumir minna salt en áður var. Svo koma reyndar alltaf einhverjir og segjast vilja meira salt. Þetta er vandmeðfarið enda er smekkur manna misjafn,“ segir Jóhann.

Kaupmaðurinn segir að saltkjötið sé selt í þremur flokkum í Kjöthöllinni. „Við erum með sérvalið, það er það allra besta og hingað til hefur mesta salan verið í því. Hún byrjaði raunar fyrir viku. Í þeim flokki erum við búin að salta kótelettur og lærissneiðar og svo er líka framhryggur með því.

Annar flokkurinn er valið kjöt. Þar erum við með framhryggjarsneiðar og betri sneiðar af frampartinum. Að síðustu er það ódýri flokkurinn. Þar er bringan, rifin og hálsinn. Þar eru meiri bein og kjötið er fitumeira. Sumum finnst betra að kroppa í kringum beinin en það eru alltaf skiptar skoðanir á því hvað er best.“

Hjá mörgum kjötsölum og í matvöruverslunum er farið að selja tilbúna baunasúpu með saltkjötinu en Jóhann segir að það sé ekki í boði hjá sér, hvað svo sem síðar verði. „Við höldum í hefðina og viljum að fólk nostri aðeins við þetta.“

mbl.is