„Það sem við vonum að verði sparkað áfram“

„Það sem við vonum að verði sparkað áfram“

Framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu segir að meðferðarheimili eins og til hefur staðið að reisa í Garðabæ, en nú ríkir óvissa með hvar og hvenær muni rísa, myndi gjörbreyta stöðunni í málaflokknum.

„Það sem við vonum að verði sparkað áfram“

Neyðarástand í málefnum barna | 4. mars 2025

Funi segir að það myndi gjörbreyta öllu í málaflokki barna …
Funi segir að það myndi gjörbreyta öllu í málaflokki barna með fjölþættan vanda að fá meðferðarheimili reist frá grunni. Samsett mynd

Framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu segir að meðferðarheimili eins og til hefur staðið að reisa í Garðabæ, en nú ríkir óvissa með hvar og hvenær muni rísa, myndi gjörbreyta stöðunni í málaflokknum.

Framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu segir að meðferðarheimili eins og til hefur staðið að reisa í Garðabæ, en nú ríkir óvissa með hvar og hvenær muni rísa, myndi gjörbreyta stöðunni í málaflokknum.

„Það er bara þannig að það myndi leysa okkur úr alls konar bráðabirgðalausnum og slíku og fara yfir í eitthvað sem væri sérhannað undir starfsemina. Þá værum við með húsnæði sem myndi uppfylla allar kröfur og hannað með því tilliti að það yrði meðferðarheimili þar. Þá er ekki verið að breyta einhverju húsnæði hjá Land og skógum eða sambýli í Mosfellsbæ í meðferðarheimili,“ segir Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, í samtali við mbl.is.

Líkt og mbl.is hefur fjallað um eru tíu ár síðan ákvörðun var tekin um byggingu nýs meðferðarheimilis fyrir börn með fjölþættan vanda.

Viljayfirlýsing um byggingu þess í Garðabæ var undirrituð í desember 2018. Þá sagði Ásmundur Einar Daðason, þáverandi mennta- og barnamálaráðherra, vonir bundnar við að heimilið yrði opnað árið 2020. Árið 2025 hefur þó enn ekkert meðferðarheimili risið og eins og staðan er í dag er óljóst hvar það mun rísa.

Garðabær fær ekki svör frá ráðuneytinu

Í svari mennta- og barnamálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is kom fram að ekki hefði náðst samkomulag um byggingu meðferðarheimilis í Garðabæ eða staðsetningu þess.

Kom það svar Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra í Garðabæ, spánskt fyrir sjónir, enda hefði staðsetning heimilisins við Rjúpnahæð í Garðabæ, legið fyrir áður en viljayfirlýsingin var undirrituð.

Aðeins hafi átt eft­ir að greiða úr fyr­ir­komu­lagi varðandi kostnað við gatna­gerðar­gjöld í samtali við fjármálaráðuneytið. Málið hafi hins vegar verið í biðstöðu síðustu tvö ár þar sem ráðuneytið hafi ekki svarað fyrirspurnum sveitarfélagsins.

Þurfa að fá lóð til að halda áfram

Funi segir að mikilli undirbúningsvinnu sé lokið í tengslum við byggingu og skipulag meðferðarheimilisins.

„Þetta er það sem við vonum að verði sparkað áfram. Við höfum farið oftar en einu sinni af stað í alla vinnuna þannig það það er fullt af vinnu sem búið er að fara í, en svo stoppar þetta út af einhverri legu.“

Hann segir starfsfólk frá Barna- og fjölskyldustofu hafa legið yfir hönnun hússins ásamt framkvæmdasýslu ríkisins. Meðal annars farið yfir rýmisþörf og öryggisþætti. 

„Það liggur alveg heljarinnar vinna tilbúin, en þetta með staðsetninguna, þar stoppum við. Næsta sem þurfti að gera, ef þetta hefði átt að vera í Garðabæ, þá hefðum við þurft að fá afhenta lóðina til að geta búið til útboðsgögnin. En vinnan varðandi útboðsgögnin, það var heilmikið búið að gerast þar. Það er bara næstum tilbúið.“

Þannig þetta strandar í rauninni á því að það vantar staðsetningu?

„Já, þannig það sé hægt að klára útboðsögnin og fara að bjóða verkið út.“

Á hverju stoppar það?

„Ég ég bara ekki alveg viss, en ég veit að þegar þetta stoppaði síðast, þá stoppaði þetta á viðræðum fjármálaráðuneytisins og Garðabæjar.“

Leit út fyrir að heimilið yrði opnað 2025

Funi sat í stýrihóp um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda, sem skipaður var árið 2022 og skilaði af sér skýrslu árið 2023. Þar er vísað til þess að fyrirhugað sé að starfsemi hefjist á nýju meðferðarheimili í Garðabæ í lok árs 2025.

Funi segir að á þeim tíma hafi það litið þannig út að það yrði raunin.

„Þá voru það upplýsingarnar sem við höfðum. Þá stóð það til að þetta myndi gerast og þá átti það að leysa ákveðið. Þess vegna kemur það fram í þessari skýrslu,“ útskýrir Funi.

Frá því neyðarvistunarálma Stuðla gjöreyðilagðist í bruna í október á síðasta ári hefur ekki verið hægt að bjóða þar upp á hefðbundna meðferð og greiningu líkt og tíðkaðist þar áður fyrr. Nú er meðferðardeildin nýtt undir börn og unglinga í gæsluvarðhaldi ásamt því að vera langtímaúrræði fyrir mjög þung tilfelli. Neyðarvistun hefur svo verið stúkuð af í hluta rýmisins. 

Ekkert hefðbundið meðferðarúrræði fyrir börn og unglinga var til staðar frá því í október og þangað til núna í febrúar, þegar opnað var tímabundið meðferðarheimili á Vogi. Þeirri starfsemi hafði reyndar verið fundinn staðsetning í Blönduhlíð í Mosfellsbæ, en í ljós kom að húsnæðið stóðst ekki brunaúttekt. Barna- og fjölskyldustofa greiðir nú leigu fyrir húsnæði á báðum stöðum.

Á nýja meðferðarheimilinu er gert ráð fyrir 6 - 8 plássum í þremur aðskildum hlutum og er það ætlað unglingum sem þurfa sér­hæfða meðferð á meðferðar­heim­ili vegna al­var­legs hegðunar- og/​eða vímu­efna­vanda. Þar munu börn á aldr­in­um 15-17 ára einnig geta afplánað óskil­orðsbundna fang­els­is­dóma á for­send­um meðferðarþarfar í stað fang­elsis­vist­ar og eft­ir at­vik­um setið í gæslu­v­arðhaldi í lausa­gæslu.

mbl.is