„Mesta mögulega fórn sem brotið samfélag getur goldið“

„Mesta mögulega fórn sem brotið samfélag getur goldið“

Samfélagið ber óumdeilanlega ábyrgð á því að tryggja úrræði fyrir börn í viðkvæmri stöðu. Tími nauðsynlegra aðgerða er hins vegar liðinn hjá með skelfilegum afleiðingum. 

„Mesta mögulega fórn sem brotið samfélag getur goldið“

Hnífstunguárás á Menningarnótt | 6. mars 2025

Bryndís Klara Birgisdóttir lést eftir árás drengs á Menningarnótt.
Bryndís Klara Birgisdóttir lést eftir árás drengs á Menningarnótt. Ljósmynd/Aðsend

Samfélagið ber óumdeilanlega ábyrgð á því að tryggja úrræði fyrir börn í viðkvæmri stöðu. Tími nauðsynlegra aðgerða er hins vegar liðinn hjá með skelfilegum afleiðingum. 

Samfélagið ber óumdeilanlega ábyrgð á því að tryggja úrræði fyrir börn í viðkvæmri stöðu. Tími nauðsynlegra aðgerða er hins vegar liðinn hjá með skelfilegum afleiðingum. 

„Morð barns á öðru barni er mesta mögulega fórn sem brotið samfélag getur goldið.“

Svo hljóðar grein sem ömmur og afar Bryndísar Klöru rituðu á Vísi.

Þau segja engar félagslegar aðstæður réttlæta ákvörðun sakhæfs einstaklings, þó á barnsaldri sé, að ráðast gegn lífi og heilsu annarra. Gerandi verði að gangast við eigin gjörðum.

„Hugmyndin um að tilteknar aðstæður geri ofbeldi að líklegri afleiðingu, er ekki aðeins röng heldur einnig lítilsvirðing gagnvart þeim sem glímdu við brotna bernsku án þess að hafa beitt aðra ofbeldi,“ segir í greininni sem er svar við grein Dagnýjar Hængsdóttur Köhler, sem er amma drengsins sem varð Bryndísi Klöru að bana. 

Margar hliðar að baki hverrar sögu

Þau Ragnheiður Magnúsdóttir, Halldóra Jónsdóttir, Óskar Þór Karlsson og Eiríkur Böðvarsson, ömmur og afar Bryndísar, þakka Dagnýju fyrir samúðarkveðjurnar og segja hana hafa sýnt hugrekki fyrir að stíga fram.

„Þessi frásögn á rétt á því að heyrast og að baki hverri sögu eru margar hliðar. Umfram allt berum við sem samfélag ábyrgð á að tryggja að umræða leiði til raunverulegra breytinga og bættrar velferðar fyrir öll börn. Dagný á sannarlega skilið lof fyrir sitt framlag til umræðunnar, sem byggt er bæði á persónulegri reynslu hennar og faglegri starfsþekkingu,“ segir í grein þeirra.

Þau benda þó á að í umræðunni um þetta mál megi það ekki gleymast að ekkert í aðstæðum gerandans breyti því að Bryndís Klara hafi verið myrt á ofbeldisfullan hátt. Blásaklaus stúlka.

Röskun á friðhelgi Bryndísar

„Aðstæður í lífi gerandans eru óviðkomandi arfleifð Bryndísar Klöru og glímunni sem foreldrar hennar þurfa að etja við sökum sársaukans, sorgar og söknuðar sem fylgir því að missa barn og framtíðina með barni sínu.“

Þau segja mikilvægt að greina kerfislæga veikleika í slíkum málum, en það megi þó ekki vera á kostnað þeirra sem þjást í kjölfar glæps.

„Það er röskun á friðhelgi Bryndísar og okkar sem syrgjum hana, að sakhæfur einstaklingur sem tók líf hennar á hrottafenginn hátt og bíður þess að mál hans hljóti meðferð fyrir dómi, fái notið opinberrar rökræðu meðal almennings um hvaða ytri þættir kunni að hafa stuðlað að glæp hans. Þó að mikilvægt sé að fyrirbyggja framtíðarglæpi með umbótum, má slík opinber umræða aldrei verða til þess að draga úr ásýnd ábyrgðar eða réttlátrar meðferðar og útkomu máls.“

Þau segja það skyldu sína að hrópa eftir réttlæti til handa Bryndísi Klöru.

„[Þ]ví barnabarn okkar var svipt þeirri rödd sinni.“

Þau segja að samfélaginu beri skyldu til að hlusta og tryggja að saga hennar gleymist ekki heldur verði vendipunkturinn í baráttunni gegn ofbeldi.

Þau gefa foreldrum Bryndísar lokaorðin:

„Nú þarf að hafa hátt og tryggja með skipulegum og úthugsuðum hætti, að þessi martröð, missir okkar og líf Bryndísar muni leiða til betri veruleika fyrir íslenskt samfélag! Þessi dýra og óbærilega fórn hennar, skal og verður að bjarga mannslífum.“

mbl.is