„Á eftir að koma fólki skemmtilega á óvart“

Veður | 7. mars 2025

„Á eftir að koma fólki skemmtilega á óvart“

Landsmenn eiga von á góðu veðri langt fram í næstu viku að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings á Bliku.

„Á eftir að koma fólki skemmtilega á óvart“

Veður | 7. mars 2025

Hitaspá Veðurstofu kl. 15 á þriðjudag.
Hitaspá Veðurstofu kl. 15 á þriðjudag. Kort/Veðurstofa Íslands

Landsmenn eiga von á góðu veðri langt fram í næstu viku að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings á Bliku.

Landsmenn eiga von á góðu veðri langt fram í næstu viku að sögn Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings á Bliku.

„Þetta lítur bara mjög vel út næstu daga. Það er háþrýstisvæði suðvestur undan sem ætlar að taka yfir sviðið frá og með morgundeginum og það mun ráða ríkjum langt fram í næstu viku,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

Hann segir að með hæðinni fylgi hæglætisveður um allt land. Það verði frost að næturlægi og talsvert inn til landsins en hitinn fari yfir frostmarkið við sjávarsíðuna og á láglendi.

„Það verður afskaplega ljúft og gott veður á miðri góu sem á eftir að koma fólki skemmtilega á óvart. Það verður fínt veður til ferðalaga á milli landshluta og ég tala nú ekki um til útivistar. Það verður frábært útivistarveður,“ segir Einar.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mun beina svölu lofti til Bretlandseyja

Einar segir að hæðin sem er að koma sér fyrir yfir landið verði þannig staðsett að hún muni beina svölu lofti í áttina að Bretlandseyjum næstu dagana.

„Það verður ekkert sérlega kalt og enginn vetrarkuldi en þetta er svalt loft sem mun leika um Bretana. Þegar það er hæð yfir Íslandi þá standa veðurkerfin dálítið á hvolfi,“ segir hann.

Hann bætir því við að hæðin muni hafa meiri áhrif á kuldann í Skandinavíu og það muni sérstaklega kólna í norðurhlutanum þar sem verði kaldir dagar og vetrarástand.

Þá segir hann að hæðin geri það að verkum að það geti rignt talsvert á Spáni, Portúgal og við Miðjarðarhafið þegar svona aðstæður myndast.

mbl.is