Ekkert sem bendir til að samningurinn gildi ekki

Varnarmál Íslands | 7. mars 2025

Ekkert sem bendir til að samningurinn gildi ekki

Bandarísk stjórnvöld hafa í gegnum tíðina sýnt því skilning að Íslendingar uppfylli ekki markmið ríkja Atlantshafsbandalagsins um útgjöld til varnarmála, segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.

Ekkert sem bendir til að samningurinn gildi ekki

Varnarmál Íslands | 7. mars 2025

Þorgerður Katrín ræddi við mbl.is um varnarmál Íslands og áform …
Þorgerður Katrín ræddi við mbl.is um varnarmál Íslands og áform sem liggja á borði Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Samsett mynd

Banda­rísk stjórn­völd hafa í gegn­um tíðina sýnt því skiln­ing að Íslend­ing­ar upp­fylli ekki mark­mið ríkja Atlants­hafs­banda­lags­ins um út­gjöld til varn­ar­mála, seg­ir Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra.

Banda­rísk stjórn­völd hafa í gegn­um tíðina sýnt því skiln­ing að Íslend­ing­ar upp­fylli ekki mark­mið ríkja Atlants­hafs­banda­lags­ins um út­gjöld til varn­ar­mála, seg­ir Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra.

Hún seg­ir ekk­ert benda til þess að varn­ar­samn­ing­ur ríkj­anna sé ekki enn í gildi.

Í sam­tali við mbl.is seg­ir Þor­gerður að full­trú­ar ís­lenskra stjórn­valda hafi rætt við Mark Rutte, fram­kvæmda­stjóra Atlants­hafs­banda­lags­ins, og óskað eft­ir að hann eins og for­veri hans í starfi, Jens Stolten­berg, út­skýri sér­stöðu Íslands fyr­ir Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta og hvers vegna við höf­um ekki varið eins miklu til varn­ar­mála og aðrar þjóðir.

Þurf­um að leggja meira af mörk­um

Fjallað var um á mbl.is fyrr í dag hvernig Trump íhug­ar nú stefnu­breyt­ingu í varn­ar­mál­um sem varðar varn­ar­sam­starf við önn­ur ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins. 

Banda­rík­in kæmu þá mögu­lega ekki til varn­ar öðru ríki, verji það ekki þegar 2% af lands­fram­leiðslu til varn­ar­mála. Ísland er langt frá því að ná því marki.

„Það er ekk­ert sem bend­ir til þess að varn­ar­samn­ing­ur á milli ríkj­anna sé ekki í gildi. Hann hef­ur verið í gildi síðan 1951, þegar hann var und­ir­ritaður. Það hafa verið upp­færsl­ur síðan en það eru eng­ar vís­bend­ing­ar um það af hálfu Banda­ríkja­manna að þeir ætli ekki að standa við varn­ar­samn­ing­inn,“ seg­ir Þor­gerður og held­ur áfram:

„Hitt er síðan að við þurf­um að leggja meira af mörk­um til varna. Við þurf­um að hraða þess­ari vinnu við varn­ar- og ör­ygg­is­mál sem ég er búin að boða og verður í þver­póli­tísku sam­tali allra flokka auk sér­fræðinga. Við þurf­um að gefa út merki um að við erum að taka þessa hluti al­var­lega, og það er meðal ann­ars það sem ég hef verið að leggja áherslu á, að efla okk­ar tæki.“

Hún seg­ir nauðsyn­legt að efla innviði til að gæta að ör­yggi Íslend­inga og vörn­um.

„Hvort sem það er inn­an lög­regl­unn­ar. Með því að byggja enn frek­ar upp hjá land­helg­is­gæsl­unni. Við höf­um verið að fá CERT­IS-netör­ygg­is­sveit­ina hingað í hús. Allt er þetta gert með það að mark­miði að við erum að reyna að vinna þetta enn bet­ur sam­an.“

Útgjöld­in langt und­ir viðmiðum

Árið 2014 settu ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins sér mark­mið um að verja 2% af vergri lands­fram­leiðslu í varn­ar­mál.

Útgjöld ís­lenska rík­is­ins til varn­ar­mála hafa auk­ist jafnt og þétt síðustu ár, eins og sjá má í síðustu skýrslu ut­an­rík­is­ráðherra um ut­an­rík­is- og alþjóðamál. Íslend­ing­ar eru þó langt frá því að upp­fylla þetta mark­mið.

Árið 2023 vörðu ís­lensk stjórn­völdu aðeins 0,14% af vergri lands­fram­leiðslu í varn­ar­mál.

Erum við ör­ugg um að banda­rísk stjórn­völd líti á það þannig að það sé í lagi að við upp­fyll­um ekki þetta mark­mið um tvö pró­sent­in?

„Það var það síðast og til að mynda, þáver­andi fram­kvæmda­stjóri NATO, Jens Stolten­berg, út­skýrði mjög vel fyr­ir Trump þá af hverju stæði á því að við vær­um svona miklu lægri í okk­ar fram­lög­um og að á móti vær­um við að gera ým­is­legt annað sem aðrar þjóðir væru kannski ekki eins mikið að gera, ekki síst út frá legu lands­ins,“ seg­ir Þor­gerður.

Hún ít­rek­ar að ekki megi gleyma því að Ísland sé á áhrifa­svæði Banda­ríkja­manna, sem þeir telja að þurfi að passa sér­stak­lega upp á. 

„Við höf­um líka talað við Rutte, nýj­an fram­kvæmda­stjóra, og beðið hann um að halda þess­um sjón­ar­miðum á lofti eins og for­veri hans í starfi gerði. Við erum auðvitað meðvituð um það að margt geti breyst, en áður hef­ur verið skiln­ing­ur á þess­ari aðstöðu okk­ar. En það þýðir ekki að þó skiln­ing­ur­inn sé til staðar að við ger­um ekki neitt. Við þurf­um, ein­fald­lega í ljósi okk­ar eig­in hags­muna­mats og okk­ar eig­in grein­ing­ar – þá þurf­um við líka að gera meira.“

Verðugir banda­menn

Stefn­um við nú að því að verja 2% í varn­ar­mál eða erum við með annað mark­mið?

„Það er meðal ann­ars hluti af því að við þurf­um að hraða vinn­unni á ör­ygg­is- og varn­ar­stefn­unni og fá þessa aðila, allra flokka á Alþingi auk sér­fræðinga, til þess að bæði meta það hvað þarf að leggja til viðbót­ar í ör­ygg­is- og varn­ar­fram­lög, hvað við þurf­um að gera til þess að ýta und­ir okk­ar varn­ir, fæl­ing­ar­mátt og svo fram­veg­is – hvað það er sem að við get­um byggt enn frek­ar upp,“ seg­ir Þor­gerður.

„Við vilj­um verða álitn­ir sem verðugir banda­menn, við erum með mikla þjón­ustu – við erum að auka hana. Við erum öfl­ugt gesta­ríki. Við erum að fá bæði Banda­ríkja­menn og Evr­ópu­menn sem sinna loft­rým­is­gæslu og kaf­báta­leit, sem er líka í þeirra þágu. Við höf­um sagt það á síðustu árum að kaf­bát­ar eru vel­komn­ir í okk­ar lög­sögu.“

Hún seg­ir það ekki munu standa á þess­ari rík­is­stjórn að auka við slíka þjón­ustu.

„Allt svona skipt­ir máli,“ seg­ir hún og nefn­ir í því sam­hengi að það spari banda­rísk­um kaf­bát­um mik­inn kostnað að geta fengið þjón­ustu hér þegar þeir eru í eft­ir­liti, í stað þess að þurfa að leita til annarra ríkja.

Hún seg­ir nauðsyn­legt að sækja fram eins og aðrar Evr­ópuþjóðir. Ekki sé hægt að dvelja við nú­ver­andi stöðu í varn­ar­mál­um.

„En Banda­rík­in vita það al­veg eins og aðrar Evr­ópuþjóðir inn­an NATO að við erum ekki með her, en við upp­fyll­um okk­ar skuld­bind­ing­ar með öðrum hætti.“

Vill ræða við Ru­bio

Þor­gerður hef­ur þegar átt óform­leg sam­töl við Pete Heg­seth, varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna, og hef­ur óskað eft­ir sam­tali við ut­an­rík­is­ráðherr­ann Marco Ru­bio.

„Það hef­ur verið vin­semd að mínu mati. Ég tel að menn átti sig á að sam­skipti ríkj­anna hafi verið góð í gegn­um tíðina. Ekki síst meðal ann­ars á fyrra kjör­tíma­bili Trumps, þá styrkt­ust bönd­in á milli þjóðanna enn frek­ar. Ég vona að það verði áfram.“

Eft­ir spennuþrung­inn fund í Hvíta hús­inu í síðustu viku þar sem Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti og J.D Vance vara­for­seti létu Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seta heyra það, birti fjöld­inn all­ur af evr­ópsk­um leiðtog­um stuðnings­yf­ir­lýs­ing­ar við Úkraínu á sam­fé­lags­miðlum, þar á meðal Þor­gerður og Kristrún Frosta­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra.

Þurf­um að tala var­lega en styðja Úkraínu skýrt

Spurð hvort hún telji að ís­lensk­ir stjórn­mála­menn þurfi að gæta var­færn­is, þegar kem­ur að yf­ir­lýs­ing­um í garð Banda­ríkj­anna í ljósi varn­ar­samn­ings okk­ar, svar­ar Þor­gerður:

„Jú, ég held að við þurf­um vissu­lega að tala var­lega en við þurf­um líka að vera al­veg skýr með stuðningi okk­ar við Úkraínu. Það er al­veg ljóst.“

Hún seg­ir það al­veg ljóst að það sé Rúss­land sem hafi ráðist inn í Úkraínu.

„Við stönd­um með Úkraínu, við Íslend­ing­ar.“

Áhersla á að rækta tengsl í Washingt­on

Hún seg­ir Íslend­inga eiga allt und­ir því að alþjóðalög séu virt.

„En um leið, þegar kem­ur að Banda­ríkj­un­um, þá vil ég und­ir­strika að hags­muna­gæsla gagn­vart Banda­ríkj­un­um er meg­in­verk­efni sendi­ráðs Íslands í Washingt­on. Þar eru auðvitað ör­ygg­is- og varn­ar­mál, viðskipta- og efna­hags­mál – það eru burðarliðirn­ir í starfi sendi­ráðsins.

Það er mik­il áhersla hjá sendi­herr­an­um og fólk­inu okk­ar úti á að rækta sam­skipti og tengsl­in við banda­ríska þing­menn, sama hvort þeir séu full­trúa- eða öld­unga­deild­arþing­menn, eða full­trú­ar stjórn­valda – stjórn­sýsl­an, áhrifa­fólk eða hug­veit­ur.“

mbl.is