Gagnrýna illa ígrunduð vinnubrögð meirihlutans

Gagnrýna illa ígrunduð vinnubrögð meirihlutans

Fráfarandi íbúaráð Grafarvogs hittist í vikunni og fór yfir stöðuna í ljósi ákvörðunar nýs borgarmeirihluta að leggja niður íbúaráðin í Reykjavík.

Gagnrýna illa ígrunduð vinnubrögð meirihlutans

Meirihlutinn í borginni sprengdur | 7. mars 2025

Oddvitar nýs borgarmeirihluta.
Oddvitar nýs borgarmeirihluta. mbl.is/Eyþór

Fráfarandi íbúaráð Grafarvogs hittist í vikunni og fór yfir stöðuna í ljósi ákvörðunar nýs borgarmeirihluta að leggja niður íbúaráðin í Reykjavík.

Fráfarandi íbúaráð Grafarvogs hittist í vikunni og fór yfir stöðuna í ljósi ákvörðunar nýs borgarmeirihluta að leggja niður íbúaráðin í Reykjavík.

Fulltrúar íbúaráðsins geta ekki orða bundist og lýsa yfir undrun sinni með ákvörðunina, að því er segir í tilkynningu frá ráðinu.

„Flestir fulltrúar í íbúaráði Grafarvogs heyrðu fyrst af þessari ákvörðun í fjölmiðlum, sem sýnir hvað vinnubrögðin voru hroðvirknisleg og illa ígrunduð,“ segir í tilkynningunni.

Er þar tekið fram að íbúaráðin hafi verið hluti af auknu íbúalýðræði og mikilvægur tengiliður á milli borgarstjórnar og embættismanna borgarinnar.

„En með því að leggja íbúaráð niður er búið að slíta á þessi formlegu og óformlegu tengsl og ákveðin óvissa skapast því enginn veit hvað tekur við eða hvenær nýtt fyrirkomulag verður kynnt til sögunnar.“

Telur íbúaráðið það vera veruleg mistök að leggja ráðið niður án alls samráðs eða samtals. Enn fremur telur ráðið að ekkert sambærilegt fyrirkomulag verði komið í gagnið á núverandi kjörtímabili.

Tala fyrir íbúalýðræði en leggja niður íbúaráð

„Það skýtur skökku við að í núverandi meirihluta eru flokkar sem hafa á liðnum árum talað mikið um aukið íbúalýðræði og að stytta boðleiðir. Að bera á borð sparnað og nefna laun ráðsmanna því til stuðnings er hálf hjákátlegt og gleymum því ekki að lýðræði kostar.

Láta það svo vera sitt fyrsta verk að leggja niður íbúaráðin, leggja þau niður án þess svo mikið sem að ræða það við formenn eða aðra meðlimi ráðanna,“ segir í tilkynningunni.

Kemur þar fram að það sé grundvallaratriði í stjórnsýslu að tillögur um stjórnkerfisbreytingar hljóti vandaða málsmeðferð og segir að borgarmeirihlutinn hafi ekki farið eftir því.

Kveðið sé á um ríka samráðsskyldu gagnvart þeim sem breytingar varða áður en ákvarðanir á borð við að leggja íbúaráðin séu teknar.

Einnig eigi ákvarðanir sem þessar að vera kynntar með nægilegum fyrirvara.

Lítt og illa rökstuddar breytingar

„Breytingarnar voru kynntar með sólarhringsfyrirvara og knúnar í gegn á borgarstjórnarfundi og án þess að íbúaráðin fengju nokkurt tækifæri til athugasemda. Breytingarnar voru lítt og illa rökstuddar og ekkert hefur komið fram um hvað eigi að koma í stað íbúaráðanna,“ segir í tilkynningunni.

Fullkomin óvissa ríki um það hvað verður um þau verkefni sem voru á borði íbúaráðs Grafarvogs þegar það var lagt niður.

„Íbúaráð Grafarvogs harmar svona vinnubrögð og óskar eftir því að þessi ákvörðun verði endurskoðuð sem allra fyrst svo ekki myndist rof á milli borgarinnar og íbúa.“

mbl.is