Íhugar að verja ekki NATO-ríki undir viðmiðinu

Varnarmál Íslands | 7. mars 2025

Íhugar að verja ekki NATO-ríki undir viðmiðinu

Forseti Bandaríkjanna skoðar nú algjöra stefnubreytingu í varnarsamstarfi við önnur ríki Atlantshafsbandalagsins.

Íhugar að verja ekki NATO-ríki undir viðmiðinu

Varnarmál Íslands | 7. mars 2025

Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður íhuga stefnubreytingu sem gæti haft …
Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður íhuga stefnubreytingu sem gæti haft áhrif á túlkun Bandaríkjanna á 5. grein varnarsáttmálans. AFP/Jim Watson

Forseti Bandaríkjanna skoðar nú algjöra stefnubreytingu í varnarsamstarfi við önnur ríki Atlantshafsbandalagsins.

Forseti Bandaríkjanna skoðar nú algjöra stefnubreytingu í varnarsamstarfi við önnur ríki Atlantshafsbandalagsins.

Bandaríkin kæmu þá mögulega ekki til varnar öðru ríki, verji það ekki þegar 2% af landsframleiðslu til varnarmála. Ísland ver 0,14% til varnarmála.

Ísland er eitt níu ríkja sem náðu ekki þessu marki á síðasta ári, samkvæmt úttekt BBC sem birt var í febrúar.

Landið ver þó minnst allra bandalagsríkja til varnarmála.

Til þessa hefur Ísland enda notið undanþágu frá þessu viðmiði, sem ákveðið var á fundi leiðtoga ríkja bandalagsins árið 2014, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu það ár.

Til marks um þessa undanþágu er landið það eina sem ekki er getið þegar farið er yfir útgjöld bandalagsríkja til varnarmála í skýrslu Atlantshafsbandalagsins frá síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu nema útgjöld Íslands 0,14% af landsframleiðslu, eins og áður sagði.

Fánar ríkja NATO blakta fyrir utan höfuðstöðvar bandalagsins í Brussel.
Fánar ríkja NATO blakta fyrir utan höfuðstöðvar bandalagsins í Brussel. AFP

Aðeins Bandaríkin hafa virkjað greinina

Sú breyting sem er til skoðunar varðar túlkun á 5. grein Atlantshafssáttmálans sem kveður á um að vopnuð árás á eitt eða fleiri ríki bandalagsins jafngildi árás á öll ríkin.

Ríki sem verður fyrir árás á þá rétt á aðstoð annarra ríkja til þess að koma aftur á og varðveita öryggi Norður-Atlantshafssvæðisins.

Aðeins eitt ríki bandalagsins hefur til þessa virkjað 5. grein sáttmálans. Það voru Bandaríkin eftir hryðjuverkin 11. september 2001.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar NBC hefur forsetinn rætt við ráðgjafa sína um möguleikann á því að Bandaríkin verji ekki þau ríki Atlantshafsbandalagsins sem verja minna en 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála.

Vill hækka markið

Tvö prósentaviðmiðið er ekki gripið úr lausu lofti en NATO-ríki ákváðu 2014 að hafa það að markmiði að verja minnst 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála.

Trump hefur ítrekað gagnrýnt þau ríki sem uppfylla ekki það markmið. Hann hefur sagt það ósanngjarnt og að þau ríki auki byrðar Bandaríkjanna.

Þá hefur hann hvatt til þess að markið verði sett enn hærra. Nefndi hann nýlega að ríki ættu að horfa til þess að verja minnst 5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála. Þess má geta að Bandaríkin ná ekki fimm prósenta markinu.

Forsetinn er einnig sagður íhuga stefnubreytingu sem fælist í því að Bandaríkin stunduðu frekar hernaðaræfingar með þeim ríkjum sem uppfylltu sama markmið upp á 2%.

Skuldbundinn 5. grein sáttmálans

Ríkisstjórn Trumps hefur þegar gefið það í ljós að Bandaríkin muni draga verulega úr stuðningi við Evrópu í varnarmálum.

Heimildarmaður í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna, sem NBC ræddi við, segir Trump þó „skuldbundinn Atlantshafsbandalaginu og 5. greininni“.

Þá hefur öldungadeildarþingmaðurinn og demókratinn Chris Coons, sem á sæti í utanríkismálanefnd og nefnd öldungadeildarinnar um fjárveitingar til varnarmála, sagt að Matthew Whitaker, sem Trump tilnefndi sem sendifulltrúa Bandaríkjanna til NATO, hafi gefið „fullvissandi svör“ um afstöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart NATO og 5. grein varnarsáttmálans.

mbl.is