„Það er alrangt að það sé geymsla þarna“

„Það er alrangt að það sé geymsla þarna“

Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, segir það alrangt að meðferðarheimilið Stuðlar séu bara geymslustaður fyrir erfiðustu skjólstæðinga stofnunarinnar. Þar fari fram meðferð, meðal annars atferlismeðferð, og að börn nái árangri, að forstjórinn telur.

„Það er alrangt að það sé geymsla þarna“

Neyðarástand í málefnum barna | 10. mars 2025

Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, segir meðferð fara …
Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, segir meðferð fara fram á Stuðlum og að börn nái árangri. Samsett mynd

Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, segir það alrangt að meðferðarheimilið Stuðlar séu bara geymslustaður fyrir erfiðustu skjólstæðinga stofnunarinnar. Þar fari fram meðferð, meðal annars atferlismeðferð, og að börn nái árangri, að forstjórinn telur.

Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, segir það alrangt að meðferðarheimilið Stuðlar séu bara geymslustaður fyrir erfiðustu skjólstæðinga stofnunarinnar. Þar fari fram meðferð, meðal annars atferlismeðferð, og að börn nái árangri, að forstjórinn telur.

Sé það hins vegar raunverulega svo að meðferðin sé ekki að virka, þurfi að eiga samtöl um það og skoða betur í framhaldinu. Fjármagn sé ekki vandamál.

Það sé þó eina raunhæfa lausnin að hafa drengina áfram á Stuðlum í því langtímaúrræði sem þar sé hægt að bjóða upp á.

„Einhvers staðar þurfa erfiðustu skjólstæðingarnir að vera og sem stendur eru Stuðlar öruggasta húsnæðið, með allan þann mannafla sem starfa og alla þá reynslu og þekkingu sem þar er,“ segir Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, í samtali við mbl.is.

Telur að Háholt sé eina lausnin

Í samtali við mbl.is í síðustu viku sagði innanbúðamaður á Stuðlum frá ástandinu sem hann sagði óboðlegt. Vegna úrræðaleysis væri meðferðarheimilið orðið að geymslustað fyrir erfiðustu drengina og sagði hann einu lausnina að flytja þá í úrræði fjarri höfuðborgarsvæðinu.

Nefndi hann Háholt Skagafirði í því samhengi, meðferðarheimili sem var lokað árið 2017, en húsnæðið stendur nú autt. 

Sagði hann nálægðina við höfuðborgarsvæðið auðvelda aðgengi að fíkniefnum og að í útivist væri hætt við því að drengirnir gætu rekist á félaga eða einhverja sem þeim væri í nöp við. Slíkt væri ávísun á uppþot og vandræði.

Fíkniefni kæmust ítrekað í umferð inni á Stuðlum og að hnífar hefðu fundist inni á herbergjum drengjanna. Þá sagði hann blöndun skjólstæðinga með ólíkan vanda hafa neikvæð áhrif á alla.

Hálft hús er ekki jafn öruggt

Ólöfu hugnast ekki opna Háholt aftur sem meðferðarheimili.

„Háholt er staður sem er gamalt úrræði og var lokað fyrir löngu. Ástæður þess eru skortur á fagfólki, skortur á þekkingu og skortur á starfsmönnum í heild. Það uppfyllir ekki þá stöðluðu kröfur sem við þurfum að uppfylla í dag út frá öryggissjónarmiðum.“

Hún bendir á að á Stuðlum séu nú aðeins fjögur börn í stað sex áður, en eftir brunann í október, þar sem álma fyrir neyðarvistun gjöreyðilagðist, varð að taka hluta af meðferðardeildinni undir neyðarvistun. 

„Það er það sem er erfitt í dag. Eftir brunann erum við í erfiðri stöðu en meðferðardeildin sem slík er alveg eins, nema bara með færri börnum og færri herbergjum. Þetta eru bara skjólstæðingarnir sem við erum með og ekkert öðruvísi skjólstæðingahópur en oft áður, en það er kannski húsið sem vinnur á móti okkur frekar en hitt,“ segir Ólöf.

„Þegar maður er bara með hálft hús þá segir það sig sjálft að það er ekki jafn öruggt og það var. Það er vandamálið,“ bætir hún við.

Þarf að skoða ef meðferð er ekki að virka

„En varðandi meðferð þá er meðferð í gangi á meðferðardeild Stuðla. Það eru tveir sálfræðingar starfandi inni á Stuðlum.“ Nýlega hafi svo verið innleidd þriggja fasa áfallamiðuð nálgun sem sálfræðingur hafi kynnt fyrir starfsfólki.

Þá fái starfsfólk þjálfun í „aggression replacement training“ og „motivational interviewing“.  

„Það er alrangt að það sé geymsla þarna en engin meðferð. Atferlismeðferð skiptir miklu máli, að fá börn í virkni það er líka meðferð. Að fá þau út að kynnast einhverju. Það er líka vert að segja það að börn eru alveg að ná árangri,“ segir Ólöf.

„En ég þarf þá að eiga samtöl og skoða það ef þetta er ekki að virka eins og það á að virka þá þurfum við að skoða það.“

Hafa kynnt breytingartillögur fyrir ráðherra

En er ekki erfiðara að sinna meðferð þegar húsnæðið uppfyllir ekki þau skilyrði sem þarf?

„Jú það er aðallega þegar það koma upp erfiðleikar, að geta þá ekki splittað hópnum, þá er mjög erfitt.“ 

En það er orðið algengara, og þá kannski í lengri tíma, að börn séu í gæsluvarðhaldi og jafnvel afplánun?

„Já það er breytingin sem við þurfum að bregðast við í meðferðarkerfinu og við erum búin að kynna breytingartillögur til ráðherra sem fer þá væntanlega með það fyrir ríkisstjórn. Þær framtíðartillögur sem við erum með í málefnum barna sem þurfa á meðferð að halda. Það eru breytingar, eins og hefur verið í fjölmiðlum, varðandi börn með fjölþættan vanda.

Það hefur verið mikil þörf í langan tíma og við höfum bara ákveðið fjármagn úr að spila hverju sinni sem við getum nýtt.“

Þannig þetta snýst að einhverju leyti um fjármagn líka, ekki bara vandræði með húsnæði?

„Ekki eins og staðan er í dag. Við fengum viðbótarfjármagn til að bregðast við þessum vanda og ætluðum þar af leiðandi að opna Blönduhlíð og gerðum síðan, bara í öðru húsnæði,“ segir Ólöf og vísar þar til meðferðarheimilis sem stóð til að opna í Mosfellsbæ í desember, en úr því varð ekki því húsnæðið stóðst ekki kröfur um brunavarnir, þrátt fyrir endurbætur. Starfseminni var fundin tímabundin staðsetning á Vogi og var farið að taka á móti skjólstæðingum í febrúar.

„Nú er verið að tala um enn meiri innspýtingu í kerfið, þannig það er eitthvað sem er verið að undirbúa. Ég hef fulla trú á að þessi ríkisstjórn bregðist við með réttum hætti.“

Börnin þurfi að fá að aðlagast

Ólöf snýr sér svo aftur að hugmyndinni um að opna á ný meðferðarheimili í Háholti, sem Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar, hefur einnig talað fyrir.

„Við þurfum að hafa meðferð og úrræðin okkar þar sem er auðvelt aðgengi að sérfræðingum, því þegar maður rekur meðferð þá þarf maður að hafa sérfræðimenntað fólk sem hefur þekkingu til þess að vinna í þessum málum. Við getum ekki bara sett einhvern inn og það tekur eitt ár að þjálfa fólk upp þannig það sé vel þjálfað í þessum málum. Við erum alltaf að tala um þyngsta hluta hópsins í samfélaginu.“

Spurð hvort meiri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu geti ekki verið kostur, meðal annars með tilliti til aðgengis að fíkniefnum, segir Ólöf það vissulega geta reynst vel að taka sum börn úr sínu nærumhverfi. En ætli einhverjir að flytja inn fíkniefni þá sé það hægt hvar sem er. 

„Það er frekar að vinna með börnunum þannig þau átti sig á því og hafi vilja til að breyta sínum lífsstíl, sem ég held að skipti máli, og svo auðvitað reyna eins og hægt er að sporna við að börn beri inn fíkniefni.“

Ólöf segir að ekki sé hægt að einangra börnin þar sem þau séu alltaf á leiðinni aftur úr í sitt samfélag.

„Til þess að þau nái bata og árangri þá þurfa þau að fá að aðlagast; fara í helgarleyfi og annað slíkt, til þess að geta séð hvar skóinn kreppir. Svo höldum við áfram. Við erum alltaf með það að markmiði að börnin fari heim aftur.“



mbl.is