Spyr hvort verkalýðshreyfingin hafi neitunarvald

Alþingi | 11. mars 2025

Spyr hvort verkalýðshreyfingin hafi neitunarvald

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra telur mikilvægt að breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni, þá m.a. ákvarðanir um áminningar opinberra starfsmanna, verði gerðar í sátt við þá sem frumvarpið nær til.

Spyr hvort verkalýðshreyfingin hafi neitunarvald

Alþingi | 11. mars 2025

Sonja Ýr hefur sagt tillöguna jafngilda stríðsyfirlýsingu.
Sonja Ýr hefur sagt tillöguna jafngilda stríðsyfirlýsingu. Samsett mynd

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra telur mikilvægt að breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni, þá m.a. ákvarðanir um áminningar opinberra starfsmanna, verði gerðar í sátt við þá sem frumvarpið nær til.

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra telur mikilvægt að breytingar á vinnumarkaðslöggjöfinni, þá m.a. ákvarðanir um áminningar opinberra starfsmanna, verði gerðar í sátt við þá sem frumvarpið nær til.

Þetta kom fram í svari ráðherrans er Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir afstöðu hans gagnvart tillögu hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar um að fella á brott ákvæði um áminningarskyldu opinberra starfsmanna.

Skref sem Hildur lýsti sem „stóru og mikilvægu sanngirnismáli gagnvart almenna vinnumarkaðnum“.

Daði Már gaf ekki upp afstöðu sína gagnvart þeirri tillögu en sagði vinnu ráðuneytisins vegna hagræðingartillagnanna verða kynnta síðar í mánuðinum.

Lögin þola endurskoðun en aðeins í sátt

Hildur spurði ráðherra annars vegar hvort hann teldi tillöguna skynsamlega og hvort hann hygðist beita sér fyrir því að frumvarp þess efnis yrði lagt fram.

Ef svo væri, hvort ekki væri einfaldara að samþykkja frumvarp Diljár Mistar Einarsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, um áminningarskylduna, sem hefur áður verið lagt fram.

Daði sagði vinnu í gangi í ráðuneytinu er varðar tillögur hagræðingarhópsins. Verða niðurstöðurnar kynntar síðar í mánuðinum.

Hann sagði lög um réttindi og skyldu starfsmanna ríkisins þola endurskoðun en benti á að það hefði verið reynt nokkrum sinnum, meðal annars í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, án þess þó að það hefði skilað árangri.

Telur hann nauðsynlegt að vinna endurskoðunina í samráði við þá sem vinna eftir lögunum. Annað muni ekki skila árangri.

„Fjármálaráðuneytið mun hefja þá vinnu og kynna hana þegar hún liggur fyrir.“

Afstaða verkalýðshreyfingarinnar ljós

Hildur sagði afstöðu verkalýðshreyfingarinnar gagnvart tillögunni liggja fyrir og vísaði í orð Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, formanns BSRB, sem sagði tillöguna jafngilda stríðsyfirlýsingu.

„Það er því alveg ljóst að áminningarskyldan verður ekki afnumin með samþykki þeirra aðila.“

Hildur spurði því ráðherra aftur hvort einhver möguleiki væri á því að hann myndi leggja fram frumvarp um afnám áminningarskyldunnar án samþykkis verkalýðshreyfingarinnar.

„[E]ða hafa ákveðnir hagsmunaaðilar neitunarvald innan ríkisstjórnarinnar?“

Nauðsynlegt að vinna löggjöfina í sátt

„Nú væri auðvitað hægt að velta fyrir sér hvernig stóð á því að á ellefu ára tímabili Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu tókst ekki að gera breytingar á þessum lögum en það er aðra að spyrja en mig um það,“ sagði Daði án þess þó að svara hvort hann myndi leggja fram frumvarpið í óþökk verkalýðshreyfingarinnar.

Hann ítrekaði að nauðsynlegt væri að vinna vinnumarkaðslöggjöfina í sátt.

„Þó að hér sé um að ræða mikilvægt atriði sem að ég skil alveg að eru skiptar skoðanir á þá er þetta ekki eina atriðið í þessari löggjöf sem skiptir máli. Það verður að byggja á einhvers konar heildarmati og niðurstöðu úr samráði nákvæmlega hvaða skref við tökum. Ríkisstjórnin mun vinna tillögu og koma með hingað í þingið,“ sagði Daði.

mbl.is