Dregið hefur úr skjálftahrinunni sem hófst við Reykjanestá, suðvestast á Reykjanesskaga, eftir hádegi í dag.
Dregið hefur úr skjálftahrinunni sem hófst við Reykjanestá, suðvestast á Reykjanesskaga, eftir hádegi í dag.
Dregið hefur úr skjálftahrinunni sem hófst við Reykjanestá, suðvestast á Reykjanesskaga, eftir hádegi í dag.
„Það tínist inn svona einn og einn skjálfti, en það hefur dregið verulega úr henni frá því sem var í dag,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofunni.
„Það getur tekið sig upp aftur en það getur líka fjarað bara út, það er of snemmt að segja til um það núna.“
Aðspurð segir hún skjálftahrinuna ekki segja til um gosvirkni á svæðinu. Líklegra sé að spennubreytingar vegna landriss í Svartengi séu að hafa þar áhrif.
„Við höfum alveg séð þetta fimm sinnum áður frá 2020 eða 2021. Við fengum svipaða hrinu um helgina í Krýsuvík, sem er akkúrat hinum megin, sem sagt austar á skaganum.
Þetta eru þessir svokölluðu gikkskjálftar sem verða vegna spennubreytinga. Kvikan er að troða sér inn í skorpuna og það veldur spennubreytingum í skorpunni,“ segir Sigríður.
Í tilkynningu frá Rannsóknareiningu í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands segir að 111 dagar séu liðnir síðan síðasta gos á Sundhnúkagosreininni hófst. Það sé lengri tími en hefur liðið á milli gosa hingað til.
Samkvæmt gögnum frá Veðurstofunni sé magnið sem safnast hafi í grunnstæðu kvikugeymslunni undir Svartsengi orðið svipað og það var fyrir síðustu gos. Innflæðið inn í kvikugeymsluna undir Svartsengi sé nú um 2,3 rúmmetrar á sekúndu. Segir í tilkynningunni að það sé talsvert lægra en það var í aðdraganda síðustu gosa.
Þá sé uppsafnað rúmmál nú um 22 milljón rúmmetrar og þá vanti eina milljón rúmmetra upp á til að ná sama magni og safnaðist fyrir síðasta gos.
Að öllu óbreyttu verði því marki náð eftir um það bil fjóra daga.
Þannig sé líklegast að gos verði á næstu fjórum dögum, þó möguleikinn á að það dragist sé alltaf fyrir hendi.