Málið teygir anga sína út fyrir skólann

Skólakerfið í vanda | 14. mars 2025

Málið teygir anga sína út fyrir skólann

Fólskuleg árás á dreng í Breiðholtsskóla á miðvikudagskvöld er litin mjög alvarlegum augum. Starfsfólk skólans aðstoðaði lögreglu við rannsókn málsins í gær sem teygir anga sína út fyrir skólann. 

Málið teygir anga sína út fyrir skólann

Skólakerfið í vanda | 14. mars 2025

Borgin hefur gefið út yfirlýsingu þar sem brugðist er við …
Borgin hefur gefið út yfirlýsingu þar sem brugðist er við umfjöllun um vandamál Breiðholtsskóla. mbl.is/Karítas

Fólskuleg árás á dreng í Breiðholtsskóla á miðvikudagskvöld er litin mjög alvarlegum augum. Starfsfólk skólans aðstoðaði lögreglu við rannsókn málsins í gær sem teygir anga sína út fyrir skólann. 

Fólskuleg árás á dreng í Breiðholtsskóla á miðvikudagskvöld er litin mjög alvarlegum augum. Starfsfólk skólans aðstoðaði lögreglu við rannsókn málsins í gær sem teygir anga sína út fyrir skólann. 

Starfsfólkið mun áfram leggja lögreglu lið eftir þörfum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar þar sem skólayfirvöld bregðast við umfjöllun um ofbeldisvanda í Breiðholtsskóla sem Morgunblaðið og mbl.is greindu frá í febrúar. 

Vísa ummælum á bug

Eins og fram hefur komið í umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is hefur eineltis- og ofbeldisvandi þrifist í Breiðholtsskóla í nokkur ár. Er vandinn sagður hvað mestur í 7. bekk.

Foreldrar hafa lýst mikilli óánægju með viðbrögð skólans og skólayfirvalda, sem þau telja ekki hafa tekið vandamálið nógu föstum tökum. Viðbrögð skólayfirvalda hafi einfaldlega ekki verið nógu róttæk.

Í yfirlýsingu sem borgin sendir á fjölmiðla segir að skóla- og frístundasvið vísi ummælum á bug „sem ítrekað hafa komið fram um að ekkert hafi verið aðhafst af hálfu skólans eða sviðsins“ vegna vandans sem hefur verið til umfjöllunar.

Þá eru útlistaðar ýmsar aðgerðir sem borgin kveðst hafa gripið til með það að markmiði að bæta skólastarf og líðan nemenda.

Þær eru eftirfarandi, að sögn borgaryfirvalda:

  • Í skólanum hefur stuðningur og sérkennsla verið aukin, auk þess sem sérfræðingar hafa komið að málum.
  • Hópaskipting var endurskoðuð og henni breytt til að skapa meiri ró og vinnufrið í 7. bekk.
  • Velferðarsvið og barnavernd eru með aðkomu í málefnum einstakra barna og gerðar hafa verið ráðstafanir til að dreifa álagi og bæta líðan allra.
  • Unnið hefur verið á grundvelli farsældarlaga og komið á samþættingu og stuðningsteymum til að samræma vinnubrögð skóla, velferðarsviðs og barnaverndar og eftir atvikum þriðja stigs úrræða á vegum ríkisins eins og barna og unglingageðdeildar, og stendur sú vinna yfir.
  • Brúarskóli og Farteymi Suðurmiðstöðvar eru mikilvæg úrræði sem hafa nú verið nýtt.
  • Hópefli er í árganginum í samvinnu við frístundamiðstöðina í hverfinu og Suðurmiðstöð.
  • Komið hefur verið inn með forvarnarfræðslu bæði fyrir börn og foreldra.
  • Jafnréttisskólinn hefur komið inn með fræðslu um samskipti, virðingu og ofbeldi.
  • Landsteymi Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu (MMS) hefur komið inn auk þess sem stofnunin kemur að námsmati í bekknum.

Aðgerðirnar séu farnar að skila árangri

Í tilkynningunni segir að skólastjórnendur telji að aðgerðirnar og úrræðin bæði innan og utan skólans séu farin að skila árangri.

„Vinnufriður er mun betri í skólanum en áður og nemendum líður betur. Áfram verður unnið að auknum stuðningi og sérkennslu.“

Þeir foreldrar sem mbl.is hefur rætt við vita til þess að búið sé að gera einhverjar ráðstafanir. Aftur á móti segja foreldrarnir árangurinn ekki vera farinn að skila sér út í samfélagið. Þar á meðal er Esther Einarsdóttir, móðir drengsins sem varð fyrir árásinni á miðvikudagskvöld.

„Ég hef ekki fundið fyr­ir nein­um breyt­ing­um en ég hef heyrt frá fólki að það séu breyt­ing­ar í gangi,“ sagði hún í samtali við mbl.is í gær.

Uppbyggilegt frístundastarf

Í yfirlýsingu borgarinnar segir að aðkoma skóla- og frístundasviðs að börnum á þessum aldri utan skólatíma sé helst í gegnum félagsmiðstöðvarnar í hverfinu og Flotann.

Flotinn er flakkandi félagsmiðstöð sem starfar í borginni við að greina hvar von sé á hópamyndunum og hættu á slæmri unglingamenningu og bregst hann við eftir megni.

„Það er gert í samvinnu við samfélagslögregluna auk þess sem nágrannasveitarfélögin hafa komið inn með starfsfólk um helgar þar sem unglingar hafa verið að safnast saman þvert á sveitarfélög,“ segir í yfirlýsingunni.

Utan skólatíma fer svo almennt starf fyrir unglinga í borginni fram í 25 félagsmiðstöðvum sem skóla- og frístundasvið rekur.

„Þar er boðið upp á uppbyggilegt frístundastarf fyrir 10–16 ára börn og unglinga. Sérstök áhersla er lögð á að ná til þeirra unglinga sem þarfnast félagslegs stuðnings og að bjóða upp á fjölbreytileg viðfangsefni.“

mbl.is