Aðgerðarsinninn og hvalavinurinn Paul Watson segist vera með áætlanir um að trufla hvalveiðar á Íslandi í júní. Ekki er langt síðan hann olli seinast usla hér á landi.
Aðgerðarsinninn og hvalavinurinn Paul Watson segist vera með áætlanir um að trufla hvalveiðar á Íslandi í júní. Ekki er langt síðan hann olli seinast usla hér á landi.
Aðgerðarsinninn og hvalavinurinn Paul Watson segist vera með áætlanir um að trufla hvalveiðar á Íslandi í júní. Ekki er langt síðan hann olli seinast usla hér á landi.
„Okkar áframhaldandi herferð snýr að því að stöðva ólöglegar hvalveiðar í sumar. Við munum trufla íslenskar hvalveiðar. Það hefst í júní,“ sagði Watson í samtali við fréttaveituna Kyodo news á mánudag, að því er Japan Times greinir frá.
Watson, sem er 74 ára, var handtekinn á Grænlandi í haust vegna handtökuskipunar í Japan frá árinu 2012. Þar var hann sakaður um skemmdarverk á hvalveiðiskipi á Suðurskautinu árið 2010 og fyrir að slasa hvalveiðimann.
Danir höfnuðu þó framsalsbeiðni Japana og aðgerðarsinninn gengur nú laus eftir fimm mánaða gæsluvarðhald á dönsku yfirráðasvæði og virðist nú stefna á Íslandsmið á ný. Hann býr nú í Frakklandi sem heiðursborgari í París. Kveðst Watson hafa fengið fjölda bréfa meðan hann var í varðhaldi.
Íslendingar þekkja Watson vel enda hefur hann áður skipulagt aðgerðir gegn hvalveiðum á Íslandi ásamt sjálfboðaliðum á vegum umhverfisverndarsamtakanna Sea Shepherd.
Árið 1986 sökktu útsendarar á vegum samtakanna til að mynda tveimur hvalveiðibátum í Reykjavíkurhöfn með því að opna botnlokur þeirra. Einnig brutust þeir inn í Hvalstöðina í Hvalfirði og unnu skemmdir á tækjum og búnaði þar. Sea Shepherd lýsti ábyrgðinni á hendur sér.
Árið 2019 kom Watson síðan aftur til landsins í þeim tilgangi að stöðva hrefnuveiðar. Ekki stóð hins vegar til að fara á hrefnuveiðar það árið og hafði hann því ekki erindi sem erfiði.
Árið 2022 stofnaði hann ný hvalverndarsamtök sem hann nefndi í höfuð á sjálfum sér, The Captain Paul Watson Foundation, og hafa þau einnig truflað hvalveiðar hér á landi.
Watson-samtökin vöktu mikla athygli í byrjun september 2023, þegar tvær konur á þeirra vegum læstu sig í möstrum hvalveiðiskipanna Hvals 8 og Hvals 9.
Konurnar tvær, Anahita Babaei og Elissa Biou, voru í möstrunum í um tvo daga.
Aðeins þrjár þjóðir stunda hvalveiðar til viðskipta: Íslendingar, Norðmenn og Japanir. Watson segir samtökin fylgjast grannt með hvalveiðum í Japan.
„Ef Japanir snúa aftur á Suður-Íshaf í haust munum við vera þar til að mæta þeim,“ segir hann við japanska miðilinn.
Í desember gaf Bjarni Benediktsson, þá fráfarandi forsætisráðherra og starfandi matvælaráðherra, út leyfi til veiða á 201 langreyði til Hvals hf. auk leyfis til veiða á 217 hrefnum til tog- og hrefnuveiðibátsins Halldórs Sigurðssonar ÍS 14 sem er í eigu Tjaldtanga ehf.
Leyfið er í gildi til fimm ára en endurnýjast sjálfkrafa.
Ákvörðun Bjarna var umdeild, 51% landsmanna sögðust ósáttir með ákvörðunina samkvæmt könnun Maskínu. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra Íslands, hefur einnig sagt að lög um hvalveiðar á Íslandi séu úrelt og krefjist endurskoðunar.