Yfir tuttugu börn bíða eftir að komast að

Skólakerfið í vanda | 17. mars 2025

Yfir tuttugu börn bíða eftir að komast að

Fleiri en tuttugu börn eru á biðlista eftir skólavist í Brúarskóla í Reykjavík. Er það svipaður fjöldi barna og er þegar með pláss í stærstu starfsstöð skólans við Vesturhlíð.

Yfir tuttugu börn bíða eftir að komast að

Skólakerfið í vanda | 17. mars 2025

Brúarskóli var stofnaður árið 2003 og er skóli fyrir börn …
Brúarskóli var stofnaður árið 2003 og er skóli fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum, hegðunar- eða félagslegum erfiðleikum. mbl.is/Hari

Fleiri en tuttugu börn eru á biðlista eftir skólavist í Brúarskóla í Reykjavík. Er það svipaður fjöldi barna og er þegar með pláss í stærstu starfsstöð skólans við Vesturhlíð.

Fleiri en tuttugu börn eru á biðlista eftir skólavist í Brúarskóla í Reykjavík. Er það svipaður fjöldi barna og er þegar með pláss í stærstu starfsstöð skólans við Vesturhlíð.

Brúarskóli er eini skólinn á höfuðborgarsvæðinu sem ætlaður er börnum með alvarleg geðræn, hegðunar- eða félagsleg vandamál. Skólinn tekur einnig á móti nemendum sem eru í vanda vegna fíkniefnaneyslu og/eða afbrota.

Aðeins einn annar sérskóli sem gegnir svipuðu hlutverk er starfræktur á landinu. Sá er á Akureyri.

„Ég held að það sé klárlega þörf á fleiri og betri úrræðum, eins og hefur komið fram í öllum fjölmiðlum. Ég held að það séu allir sammála um það. Og ég held að það séu klárlega sóknarfæri fyrir Brúarskóla,“ segir skólastjórinn Ólafur Björnsson.

Betur í stakk búin að bregðast við

Brúarskóli er sérskóli í Reykjavík stofnaður árið 2003. Skólinn er tímabundið úrræði fyrir börn með hegðunarvanda frá 3. og upp í 10. bekk. Ólafur hefur starfað við skólann í sextán ár og skrifaði meistararitgerð sína um lífssögur fyrrverandi nemenda skólans.

„Markmið okkar er fyrst og fremst að skilja hegðun barnsins í samhengi við aðstæður. Þann bakpoka sem hvert barn er með, áfallasögu, aldur og þroska. Aðstæður okkar eru gjörólíkar því sem tíðkast í kerfinu. Við erum miklu betur í stakk búin að mæta þörfum þessara nemenda.“

Hvað eruð þið að gefa nemendum sem aðrir skólar eiga erfiðara með að gera?

„Ég held að kennarar í almenna kerfinu séu að gera sitt besta, og þetta er alveg frábært starfsfólk. Aðstæður hér eru bara allt öðruvísi af því að við erum með miklu færri nemendur. Svo erum við auðvitað búin að sérhæfa okkur í áfallamiðaðri nálgun, markmið okkar er alltaf að reyna að skilja þessa hegðun nemandans og aðgreina hegðunina frá einstaklingnum. Það er alltaf eitthvað á bak við þegar barn beitir ofbeldi. Það er enginn sem leikur sér að því að beita ofbeldi,“ segir Ólafur og heldur áfram:

„Umhverfið hér er mjög skýrt. Ramminn er fastur. Nemendur eru með skýrt skipulag, þeir vita nákvæmlega hvers ætlast er til af þeim. Þeir eru líka með sjónrænt skipulag, sem skiptir máli fyrir þessa krakka. Það er ekkert sem kemur þeim í opna skjöldu. Við getum veitt þeim tækifæri til að vera meira í verkgreinum. Við erum aðallega með stráka og þeim gengur betur þar. Þegar þeir finna styrkleika sinn eflast þessir krakkar.“

Ríkari áhersla á verkgreinar

Ólíkt heimaskólunum fá nemendur í Brúarskóla ekki eiginlegar frímínútur, þar sem nemendur eru einir með öðrum nemendum.

Starfsfólk er með nemendum öllum stundum, sama hvort það er í tímum eða á milli tíma. 

„Nemendur fá kannski ekki þetta frjálsræði og rými sem sum börn ráða ekki við, þar sem hegðunin brýst stundum út. Við erum með þeim úti þar sem við kennum þeim þessa félagsfærni, hvernig þau eiga að hegða sér í leik. Við erum með þeim þegar þau eru að borða. Þetta eru mjög litlir hópar og við erum mjög vel mönnuð. Börnunum líður betur í þannig umhverfi.“

Meiri tíma er varið í kennslu verkgreina og fá börnin jafnframt fleiri tækifæri til þess að vinna út frá sínu áhugasviði, að sögn Ólafs.

„Þegar nemendur koma hingað er markmiðið fyrst og fremst að þeim líði vel. Af því að þegar þau koma hingað líður þeim ekki vel. Það er ýmislegt búið að ganga á,“ segir Ólafur.

„Þegar nemendur koma fylgir þeim mjög oft einhver saga, oft ofbeldi en ekki alltaf. En oft og tíðum sjáum við þessa hegðun ekki hér því þau komast í aðstæður þar sem þeim líður betur.“

Brúarskóli í Vesturhlíð.
Brúarskóli í Vesturhlíð. mbl.is/Brynjar Gauti

Markmiðið að nemendum líði vel

Fjöldi nemenda í Brúarskóla er breytilegur milli ára og yfir skólaárið, en í kringum 50 nemendur stunda nám við skólann. Svipaður fjöldi starfsmanna starfar við skólann og eru það stjórnendur, kennarar, sálfræðingur, félagsráðgjafar og þroskaþjálfar.

Skólinn er með fjórar starfsstöðvar en sú stærsta er í Vesturhlíð, þar sem pláss er fyrir 24 nemendur. 

Til þess að barn fái inni í Brúarskóla þurfa foreldrar að skrifa undir umsókn og heimaskólinn líka. 

„Síðan erum við með upplýsingafundi um hverja umsókn þar sem við fáum alla sem vinna með barninu hingað til okkar og förum yfir sögu barnsins, aðstæður og annað slíkt. Síðan erum við með inntökufund, þar eru aðilar frá skóla- og frístundasviði og við hér innanhúss. Þar förum við yfir umsóknirnar,“ segir Ólafur.

„Það er nokkuð algengt að það komi hingað nemendur og standi sig vel frá fyrsta degi. Stundum koma þau strax og sýna krefjandi hegðun en svo smám saman slaka þau á. Markmiðið er að þeim líði vel. Annars komast þau ekkert áfram.“

Um tuttugu börn bíða nú eftir því að komast að í Brúarskóla.

Hefur komið til tals að stækka skólann?

„Það er klárlega nokkuð sem þarf að skoða af alvöru.“

Starfsmaður fylgir barni í heimaskólann 

Nemendur eru að meðaltali eitt og hálft til tvö ár í Brúarskóla áður en þeir snúa aftur í sinn heimaskóla.

Hvernig hefur það gengið þegar nemendur koma aftur í sinn heimaskóla?

„Það er auðvitað bara allur gangur á því. Oft gengur það vel, sem betur fer, en það gengur ekki alltaf vel,“ segir Ólafur.

„Við sleppum ekkert nemendum strax í burtu þegar þeir útskrifast hér. Við aðlögum þau og hjálpum heimaskólanum að stýra sínu umhverfi eins og þau geta eftir fremsta megni eins og við erum búin að gera. Þannig að við byrjum kannski á að fara í eina stutta heimsókn með nemandanum, svo förum við aðeins lengur og lengur og í raun bara eins langan tíma og nemandinn þarf. Starfsmaður hér er alltaf með þeim til að byrja með. Oft er þetta mánaðarferli þar sem við erum að aðlaga nemandann í heimaskólann. Ef við finnum að það er eitthvað erfitt reynum við að bregðast við því.“

mbl.is