Lídía Masnitsénkó er ein af þeim milljónum Úkraínumanna sem neyddust til að yfirgefa heimili sín á flótta undan her Rússa, þegar þeir réðust inn fyrir landamærin og hugðust taka landið yfir fyrir rúmum þremur árum.
Lídía Masnitsénkó er ein af þeim milljónum Úkraínumanna sem neyddust til að yfirgefa heimili sín á flótta undan her Rússa, þegar þeir réðust inn fyrir landamærin og hugðust taka landið yfir fyrir rúmum þremur árum.
Lídía Masnitsénkó er ein af þeim milljónum Úkraínumanna sem neyddust til að yfirgefa heimili sín á flótta undan her Rússa, þegar þeir réðust inn fyrir landamærin og hugðust taka landið yfir fyrir rúmum þremur árum.
Þeir eru miklum mun færri sem átt hafa afturkvæmt í eigin híbýli. Lídía er þó einnig ein þeirra og þakkar fyrir það í dag.
Hús hennar stendur í þorpinu Horenka, skammt utan Kænugarðs.
Þetta nafn, Horenka, hefur nær aldrei ratað í fréttir á Íslandi. Þeim mun oftar hafa þó birst fréttir af fjöldamorðum Rússa í Bútsja og Irpín, og harðvítuga bardaganum um Hostomel-herflugvöllinn.
Hér liggur þetta allt upp að hvert öðru, eins og Hafnarfjörður, Kópavogur og Garðabær.
Það varð Lídíu aðeins til láns að Horenka liggur handan brúarinnar yfir Irpín-ána, nær sjálfum Kænugarði.
Hinum megin árinnar, í Bútsja og Irpín, fundust fjöldagrafir óbreyttra borgara rúmum mánuði eftir innrás Rússa. Fleiri lík lágu eins og hráviði á götum úti.
Mörg báru þau merki um pyntingar á meðan viðkomandi hafði enn verið lífs.
Í Hostomel réðust svo örlög Kænugarðs, eins og frægt varð.
Á fyrsta degi innrásarinnar flaug þangað fjöldi rússneskra árásarþyrlna. Um borð voru fallhlífaliðshermenn Rússa, svonefndar VDV-sveitir, sem skipað hafði verið að hertaka flugvöllinn svo að þar mætti lenda hersveitum til að sækja að höfuðborginni.
Sveitirnar náðu að leggja flugvöllinn undir sig en var stökkt á flótta sama dag.
Degi síðar, þegar Rússar endurheimtu flugvöllinn, höfðu Úkraínumenn náð að vinna nógu mikinn skaða á flugbrautum hans til að tryggja að ekki væri hægt að senda þangað liðsauka úr lofti.
Fljótt varð ljóst að áform um snögga innrás og yfirtöku myndu ekki ganga eftir. Rússum hafði mistekist.
Horenka hefur þó vissulega áður verið getið á mbl.is.
Það var fyrir nær réttum þremur árum, þann 15. mars 2022, þegar greint var frá því að myndatökumaður Fox-fréttastöðvarinnar hefði látið lífið í þorpinu.
Maðurinn, Pierre Zakrzewski, var þar að störfum ásamt fréttamanninum Benjamin Hall, sem sjálfur missti neðan af báðum fótleggjum eftir árásina.
Síðan eru liðin þrjú ár. Og þegar keyrt er í gegnum Horenka má enn sjá kúlnaför og sprengjubrot í veggjum, húsarústir og bílhræ. Eitt þeirra var áður bíll í eigu Lídíu.
En Rússarnir eru á bak og burt, að minnsta kosti héðan, og það er það sem máli skiptir.
Lídía, sem nálgast sjötugt og gengur við staf, tekur á móti okkur fyrir framan húsið sitt.
Hér hefur hún búið frá því á tímum Sovétríkjanna, eða frá árinu 1978, þegar hún giftist manninum sínum og flutti frá borginni Vinnitsíu sem liggur suðvestur af Kænugarði.
Í dag hýsir húsið einnig son hennar, Júrí, sem er 43 ára, og dóttur hans Sófíu, sautján ára.
Lídía býður okkur sæti í lítilli stofu og tekur til við að dekka stofuborð með bollum svo allir geti fengið sér te.
Það er þröng á þingi þegar hópur íslenskra blaðamanna, tökumanna og ljósmyndara, auk fulltrúa utanríkisráðuneytisins sem hefur boðið okkur í ferðina, reynir að koma sér fyrir í stofunni.
Sjálf fær Lídía sér ekki sæti. Hana hrjáir verkur í öðru hnénu.
Hún segir okkur sögu sína. Fyrsti dagur innrásarinnar líður henni ekki úr minni og ljóst að návistin við Hostomel-flugvöllinn setti mark þar á.
„Þyrlurnar voru svo margar. Þær komu eins og flugnager,“ segir Lídía, sem var skelfingu lostin og leitaði skjóls í kjallara hússins ásamt Júrí, Sófíu og fleirum í fjölskyldunni sem þangað höfðu leitað.
Þaðan fóru þau ekki í sex daga. Á meðan breyttist heimurinn.
Úti féllu sprengjur, hver á eftir annarri, og einn daginn féllu þrjár í garði hússins. Mikill eldur braust út og varð fjöldi bíla honum að bráð, en Júrí hafði fengist við að kaupa og gera upp bíla.
Loks náðu þau að flýja. Fékk fjölskyldan skjól í kofa í litlu þorpi um hundrað kílómetra frá Kænugarði. Þar fékkst hvorki rennandi vatn né rafmagn, en þau voru að minnsta kosti örugg.
„Þá náðum við að sofa,“ segir Lídía, sem tók sér fljótt það hlutverk að elda fyrir alla í þorpinu, yfir opnum eldi.
„Þarna voru næstum bara karlar. Konur og börn höfðu verið send lengra í burtu, þangað sem öruggara þótti að vera.“
Þetta voru erfiðir tímar en hún minnist þeirra samt með nokkurri hlýju. Nágrannar hafi staðið saman.
„Það var engan pening að fá. En Júrí gat gert við bíla og fengið í staðinn fernu af mjólk, til dæmis.“
Eftir að sókn Rússa að Kænugarði hafði verið hrundið aftur sneri fjölskyldan til baka. Lídíu þótti mikilvægt að komast aftur heim til sín fyrir páska, en hátíðin er mörgum Úkraínumönnum afar dýrmæt og fékk stóraukið vægi í hjörtum þeirra þetta ár.
„Okkur dreymdi um að taka á móti páskunum í húsinu okkar,“ segir hún.
Á þeim tíma var hún spurð hvort hún hræddist ekki að fara þangað sem Rússar hefðu verið og jafnvel skilið eftir sig sprengjur.
„Nei, ég vil bara fara heim,“ svaraði hún.
Þegar heim var komið varð þó ljóst að húsið hafði skemmst mikið í árásum innrásarliðsins. Hófst fjölskyldan handa við lagfæringar en hafði hvorki tök né efni á að gera allt það sem til þurfti.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, kom svo til aðstoðar rúmu ári síðar. Skiptu starfsmenn hennar um þak á húsinu og hjálpuðu til við að setja í það nýja glugga.
Húsið er því eitt nærri 37 þúsund híbýla sem lagfærð hafa verið með stuðningi UNHCR, og fjölskyldum þannig verið gert kleift að búa áfram eða snúa aftur til síns heima.
Lídía lýsir miklu þakklæti í garð þeirra sem hafa lagt henni lið með þessum hætti og tekur fram að hún skilji að enginn sé neyddur til að hjálpa henni.
Ísland á þar hlut að máli, þótt lítill sé, með fjárframlögum ríkisins til mannúðaraðstoðar í þessu stríðshrjáða Evrópuríki.
Þú hefur búið hér frá árinu 1978, frá tímum Sovétríkjanna. Finnst þér ekki skrýtið að sæta árásum ríkis sem var áður með ykkur í bandalagi?
„Ég á fjölskyldu í Múrmansk, Sankti Pétursborg og víðar. En ég get ekki talað almennilega við þau,“ svarar hún.
„Því þau liggja undir svo miklum áróðri. Þau halda að við séum þau sem hófu stríðið. Að við séum þau sem byrjuðu á undan. Jú, það er skrýtið.“
Spurð hvað hún vilji að heimurinn viti, um hvernig það er að búa við innrás og stríð, á Lídía erfitt með svar.
Hún klökknar. Röddin brestur.
„Ég vil að heimurinn haldi friðinn. Ég vil að ríki Evrópu standi sameinuð, því það er nauðsynlegt. Ég vil ekki að nokkur þurfi að upplifa stríð eins og ég hef gert.
Ég man eftir því, þegar ég var lítil telpa, hvað það var sem amma mín sagði oft við matarborðið: Það mikilvægasta af öllu er að stríðið komi aldrei aftur.“
Þetta hafi verið leiðarljós kynslóðarinnar sem lifði heimsstyrjöldina síðari.
„Núna skil ég hvað þau áttu við.“