„Staðan er bara sú að núna veit ég ekkert hvað ég á að gera,“ segir Dagmar Valsdóttir í samtali við mbl.is, kona sem um árabil hefur rekið gistiheimili í Grindavík, en veit nú varla í hvorn fótinn hún á að stíga.
„Staðan er bara sú að núna veit ég ekkert hvað ég á að gera,“ segir Dagmar Valsdóttir í samtali við mbl.is, kona sem um árabil hefur rekið gistiheimili í Grindavík, en veit nú varla í hvorn fótinn hún á að stíga.
„Staðan er bara sú að núna veit ég ekkert hvað ég á að gera,“ segir Dagmar Valsdóttir í samtali við mbl.is, kona sem um árabil hefur rekið gistiheimili í Grindavík, en veit nú varla í hvorn fótinn hún á að stíga.
Kallar Dagmar það ekkert annað en svik stjórnvalda að ganga á bak þeirra loforða, í aðdraganda síðustu kosninga, að ríkið keypti upp lítil og meðalstór fyrirtæki í bænum sem lúta mátti ægivaldi náttúrunnar í hamförum sem enn er ólokið.
„Ég var alltaf að búast við því að þótt ekki yrði um uppkaup að ræða – þótt gripið yrði til einhverrar annarrar áætlunar – yrði að minnsta kosti eitthvað annað gert, en eftir situr áfallið yfir því hvað yfirvöld ljúga að fólki. Öll spjöldin voru græn á þessum fundi fyrir jól og svo eru þau að svíkja það núna,“ segir Dagmar og kveðst heldur hafa viljað heyra beiskan sannleikan strax í upphafi.
„Í staðinn er verið að bjóða okkur upp á einhver lán sem við getum ekki einu sinni tekið. Hvað eigum við að gera við auka lán? Við ráðum ekki einu sinni við lánið sem við erum með núna á fyrirtækinu, við þurfum bara að loka,“ segir Dagmar.
Hún segir einfaldlega búið að afskrifa Grindavík. „Við getum ekki selt húsið. Ef við seljum það þarf einhver að kaupa það og hann þarf að fá lán og vera með tryggingu sem tryggingafélögin gefa ekki út lengur. Við erum bara föst, blýföst,“ segir Dagmar og er spurð nánar út í sinn rekstur.
„Ég er bara með mitt gistihús sem er búið að vera lokað í sjö vikur. Fyrir það náðum við að vera með opið í tíu daga. Við getum ekki haft opið, ef fólk kemur í bæinn fær það skilaboð um að forða sér og ef þú talar við lögreglustjórann á Suðurnesjum segir hann „Ekki gista í bænum.“ Ef þú ferð á Google sérðu ekkert nema neikvætt við að búa eða gista í bænum. Hvernig á ferðaþjónustan þá að reka sig? Það er ekki nóg að brosa bara og vera jákvæð,“ segir Dagmar.
Hún segir það ríkisvaldinu ekki dýrt að aðstoða þau fyrirtæki sem berjast í bökkum í Grindavík. „En það vill enginn gera neitt. Við erum bara skilin eftir eins og við höfum ekki gengið gegnum nóg nú þegar. Ég bið ekki um annað en að stjórnvöld geri það sem þau sögðust ætla að gera.“
Hún segir ekki þurfa meira en 6,4 milljarða króna til að kaupa upp lítil og meðalstór fyrirtæki í bænum. „Eða bjóða þeim sem það vilja einhvers konar styrk. Ég myndi vilja láta á það reyna að hafa gistihúsið opið í sumar og sjá svo til með haustinu hvort ég gæti þetta eða ekki. Ég væri tilbúin í að leigja reksturinn af ríkinu þar til allt væri orðið öruggt og reyna þá að kaupa hann til baka,“ segir gistihússeigandinn og spyr í framhaldinu áleitinnar spurningar:
„Hvaða aðstoð er það að leyfa okkur að taka auka lán? Ef við getum ekki borgað af einu hvernig getum við þá borgað af öðru. Við þurfum bara að loka.“
Og ef þú lokar, hvað tæki þá við í lífinu?
„Maðurinn minn er búinn að vera að sjá um reksturinn, ég gat bara ekki meir. Ég er að vinna með fötluðum og er akkúrat í vinnunni núna. Ég er að vinna í svona íbúðakjarna og reyni að gefa frá mér. Lifa í núinu eins mikið og ég get og fara til sálfræðings á milli, reyna að anda í gegnum þetta allt,“ Svarar Dagmar og líkir lífi sínu við það ástand að hún sé sífellt á leið í mikilvægasta próf lífsins sem sé hins vegar sífellt frestað um einn dag. „Maður spyr sig stanslaust hvert maður stefni og hvað gerist, hvað verði um mann,“ þetta er eilíf spenna segir Dagmar og hlær við þrátt fyrir sálarástandið.
Aðspurð kveðst hún ekki fæddur Grindvíkingur. „Nei, ég er úr Fellunum og Grindavík var fullkomin fyrir körfuboltadrengina mína, ekki of nálægt bænum, við fjölskyldan erum hvert úr sinni áttinni,“ segir Dagmar.
Þolinmæði Breiðhyltingsins er hins vegar á þrotum. „Það er alltaf verið að segja við mann „þegar, þegar, þegar,“ þegar eitthvað gerist mölum við gull. En við höfum bara hvorki orku né pening til að standa í þessu, við þurfum alvöruhjálp eins og okkur var lofað,“ segir Dagmar Valsdóttir að lokum, Gistihússeigandi í Grindavík sem hefur fyrir löngu séð sína sæng upp reidda.