Matargyðjan og frumkvöðullinn í matargerð Áslaug Snorradóttir gerði sér lítið fyrir og töfraði fram ítalska sælkeraveislu fyrir fermingardrenginn Sigurð Breka Kárason árið 2023.
Matargyðjan og frumkvöðullinn í matargerð Áslaug Snorradóttir gerði sér lítið fyrir og töfraði fram ítalska sælkeraveislu fyrir fermingardrenginn Sigurð Breka Kárason árið 2023.
Matargyðjan og frumkvöðullinn í matargerð Áslaug Snorradóttir gerði sér lítið fyrir og töfraði fram ítalska sælkeraveislu fyrir fermingardrenginn Sigurð Breka Kárason árið 2023.
Sigurður Breki er KR-ingur og fermdist 1. apríl árið 2023 í Neskirkju og fagnaði tímamótunum með ættingjum og vinum á heimili sínu í Vesturbænum í Reykjavík. Foreldrar hans, Hjördís Sóley Sigurðardóttir og Kári Gunnarsson, fengu Áslaugu með sér í lið til að setja saman sælkeramatseðil eftir óskum fermingardrengsins en Áslaug er einstaklega fær á sínu sviði bæði sem ljósmyndari og veislusérfræðingur.
Hún sameinar margs konar listform í störfum sínum og er þekkt fyrir einstaka sköpunar- og litagleði sem sjá má þegar hún setur saman veislu. Hvert smáatriði er tekið fyrir og það er ævintýralegt að sjá hvernig henni tekst að laða fram fallegar og litríkar kræsingar sem fanga augað.
Hvernig berðu þig að þegar þú undirbýrð og setur saman fermingarveislu eins og þú gerðir fyrir Sigurð Breka?
„Mér finnst mikilvægt að skapa ógleymanlega stund og að fermingin snúist aðallega um fermingarbarnið og fjölskyldu þess. Alltaf þegar ég hanna veislur hitti ég fólkið á heimavelli og þá kemur ósjálfrátt rétta flæðið í veisluna. Mér finnst mjög mikilvægt að hitta fermingarbarnið og spjalla við það því að krakkar eru sniðugir og frjóir í hugsun. Gott er að byrja á því að velja staðsetninguna og skipuleggja svo veisluna út frá því með fegurð, flæði og gleði. Mikilvægast er að þetta verði ógleymanleg stund fyrir fermingarbarnið.“
Þegar kom að því að velja þema fyrir þessa veislu, hvar fékkstu innblásturinn?
„Stemningin fyrir ferminguna kom strax í léttu spjalli heima hjá fjölskyldunni sem býr við Hagamel í Vesturbænum. Heimilið er bjart og einstaklega fallegt með þeirra stíl sem sagði mér strax að fólkið væri mjög skapandi.
Fjölskylda fermingarbarnsins hefur ferðast mikið um Ítalíu gegnum árin og kann því vel að meta ítalska matargerð og þá var þemað fyrir veisluna komið. Úr varð litríkt vor-„buffet“ með grillið úti á svölum og Melabúðina á næsta horni. Fermingardrengurinn er KR-ingur og kransakakan heiðraði félagið með svart-hvítu þema. Eins stungum við KR-spjótum í melónur en á þeim voru sykurpúðar og lakkrís,“ segir Áslaug með bros á vör.
„Það var margt sem fangaði mín augu og veitti mér innblástur á heimili þeirra. Til að mynda var Campbell’s-súpa Andys Warhol á vegg á heimilinu sem varð að hugmynd um zuppa di pomodoro í bolluskál, sem er köld súpa úr ferskum tómötum, basilíku og hvítlauk í drykkjarformi.
Fjölskyldumeðlimirnir eru miklir matgæðingar og bjuggu til eitt og annað heima fyrir veisluborðið. Við bökuðum súper góðar og fallegar grissini-stangir, þær voru bakaðar extra langar og fóru því vel í glærum vösum, og með þeim var boðið upp á rautt og grænt pestó.
Í sameiningu ákváðum við að vera með nokkrar stöðvar, ef svo má kalla, með ítölskum kræsingum sem hægt var að leika sér með og raða saman. Við vorum með helling af regnbogatómötum og basilíku frá Sólheimum, pitsur frá Olifa, salsiccia-pylsur sem við grilluðum frá Tariello í Þykkvabænum ásamt salami og boðið var upp á túnfisk frá Sikiley sem hann flytur inn,“ segir Áslaug og bætir við að þessi upptalning sé aðeins brot af því sem í boði var.