Hópur barna sem glímir við alvarlegan fíkni- og hegðunarvanda hefur stækkað meira en hann hefði þurft að gera og vandi barnanna hefur þyngst, vegna skorts á viðeigandi meðferðarúrræðum á vegum Barna- og fjölskyldustofu síðustu ár. Eitthvað sem hefði ekki þurft að gerast ef börnin hefðu verið gripin fyrr og unnið marvisst í vanda þeirra.
Hópur barna sem glímir við alvarlegan fíkni- og hegðunarvanda hefur stækkað meira en hann hefði þurft að gera og vandi barnanna hefur þyngst, vegna skorts á viðeigandi meðferðarúrræðum á vegum Barna- og fjölskyldustofu síðustu ár. Eitthvað sem hefði ekki þurft að gerast ef börnin hefðu verið gripin fyrr og unnið marvisst í vanda þeirra.
Hópur barna sem glímir við alvarlegan fíkni- og hegðunarvanda hefur stækkað meira en hann hefði þurft að gera og vandi barnanna hefur þyngst, vegna skorts á viðeigandi meðferðarúrræðum á vegum Barna- og fjölskyldustofu síðustu ár. Eitthvað sem hefði ekki þurft að gerast ef börnin hefðu verið gripin fyrr og unnið marvisst í vanda þeirra.
Tilkynningum til barnaverndar vegna afbrota, sjálfsskaða og neyslu barna og ungmenna hefur fjölgað til muna vegna þessa.
Þetta segir Elísa Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, í samtali við mbl.is.
Ástandið nú er verra en árið 2023 þegar starfsfólk barnaverndar taldi að botninum væri náð í þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Síðan hefur úrræðum bara fækkað.
Elísa segir ástandið algjörlega óásættanlegt. Börn með svo alvarlegan vanda geti ekki beðið. Þá séu foreldrar margir hverjir að þrotum komnir, sem og félagsráðgjafar barnaverndar.
„Við sem vinnum í kerfinu erum auðvitað orðin langþreytt á bíða. Það er erfitt fyrir þá sem leggja hjarta og sál í það að leita allra leiða með börnum og ungmennum og fjölskyldunum þeirra, að vera sífellt að leita bara að einhverju til gera af því úrræðin sem börnin þurfa eru ekki til eða ekki opin. Það er svolítið það sem við stöndum frammi fyrir,“ segir Elísa.
„Þetta þýðir auðvitað það, ef við tölum um barn sem þyrfti að vera á meðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu, en kemst ekki að, vandi þess er auðvitað bara að vaxa og dafna á meðan við erum að bíða. Og erum að beita kannski í millitíðinni einhverjum vægari úrræðum sem við vitum að skila ekki langtímaárangri.“
Elísa bendir á að fjölmörgum meðferðarúrræðum hafi verið lokað á síðustu árum, meðal annars vegna aukinnar áherslu á MST-fjölkerfameðferð sem fer fram inni á heimilum barnanna, með aðkomu ýmissa fagaðila. Slík meðferð henti hins vegar ekki nema ákveðnum hópi barna. Og alls ekki þeim sem glíma við þyngsta vandann.
„Það var áhersluatriði að innleiða hana og gera það vel. Það úrræði er vissulega frábært og hentar mörgum og við náum oft utan um málin með því úrræði. En eftir standa ungmenni með það mikinn vanda, það getur verið þroskalegs eðlis, fíknivandi eða sambland af mörgu, þá þurfa þau þyngra inngrip inn í sitt líf,“ útskýrir hún.
Síðasta árið hafa Stuðlar verið eina úrræðið í boði fyrir þennan hóp barna, eða þar til í febrúar þegar meðferðarheimilið Blönduhlíð, sem stóð til að opna í Mosfellsbæ, var loks opnað tímabundið á Vogi.
Á Stuðlum fór fram meðferðar- og greiningarvistun en Elísa segir ástandið þar þó hafa verið erfitt lengi. Ekki hefur verið boðið upp á slíka meðferð á Stuðlum síðan í haust, eða frá því eftir brunann í október þar sem 17 ára piltur lést. Þar eru nú aðeins fjögur meðferðarpláss ætluð allra þyngstu tilfellunum; aðallega börnum í gæsluvarðhaldi og afplánum. Og hefur þeim börnum fjölgað.
Í Blönduhlíð er nú boðið upp á meðferðar- og greiningarvistun og á Bjargey í Eyjafirði er boðið upp á langtímameðferð fyrir stúlkur. Ekkert langtímaúrræði hefur hins vegar verið í boði fyrir drengi í tæpt ár, eða frá því Lækjarbakka var lokað vegna myglu í apríl í fyrra. Það verður í fyrsta lagi í haust sem hægt verður að opna úrræðið aftur í Gunnarsholti.
Frá því farið var að loka úrræðum hafa barnaverndarþjónustur á landinu kallað eftir því að önnur komi í staðinn. Því kalli hefur ekki verið svarað, nema síður sé.
Þegar út kom skýrsla stýrihóps um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda árið 2023, þá gætti mikillar bjartsýni hjá starfsfólki barnaverndarþjónustunnar. Vonir voru bundar við að loksins færi að sjá til sólar í málaflokknum.
Samhliða var einnig verið að vinna að því að innleiða breytt verklag með farsældarlöggjöfinni, sem átti að tryggja að kerfin gætu unnið betur saman.
Lagði stýrihópurinn til fjórtán tillögur að úrræðum og var meðal annars talað um að ráðast þyrfti í bráðaaðgerð við að koma á fót vistunarúrrði fyrir börn með alvarlegan hegðunarvanda sem glíma ekki við fíknivanda. Þar sem skaðlegt væri að vista þau börn með börnum í neyslu, líkt og hefur verið gert.
„Við vorum rosalega spennt þá, og þá var loforð frá þáverandi ráðherra og yfirvöldum, að þrátt fyrir að áherslan væri að styrkja fyrsta og annars stigs þjónustu, þá verði að koma til úrræði fyrir þyngstu málin, hratt og vel. Af því við getum ekki skilið þau börn eftir,“ segir Elísa. Það var hins vegar ekki raunin.
„Síðan þá erum við í verri stöðu, af því Lækjarbakka er lokað og svo er ástandið eins og við vitum á Stuðlum. Þannig við erum með enn færri úrræði núna, vorið 2025, en þegar okkur fannst við vera í algjörlega lægsta punkti í kringum 2023.“
Ekkert úrræðanna sem stýrihópurinn lagði til hefur enn orðið að veruleika, tæpum tveimur árum eftir að þáverandi mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, tók við skýrslunni.
Elísa segir opnun Blönduhlíðar á Vogi í febrúar hafa haft einhver jákvæð áhrif. Hópurinn sem bíði sé hins vegar orðinn svo stór og vandi barnanna svo þungur að jákvæðu áhrifanna gæti minna fyrir vikið.
„Jú auðvitað er eitthvað farið af stað þar og við vitum að þau hjá Barna- og fjölskyldustofu eru á sömu vegferð og við og vilja bæta úr og breyta, en biðin er orðin svo löng og hópurinn orðinn óþarflega stór, sem þarf þessi úrræði, af því við höfum þurft að bíða svo lengi eftir þeim.“
Einhver hluti þá sem þyrfti að komast í langtímaúrræði, sem er ekki í augnsýn alveg á næstunni?
„Já, og svo auðvitað um leið og eitthvað opnar, eins og Blönduhlíð, þá eru þau bara strax að vinna á löngum biðlista og biðin heldur áfram, af því það eru ekki nógu mörg pláss sem eru opnuð.“
Sveitarfélögin hafa í einhverjum tilfellum getað leitað til einkaaðila varðandi úrræði, sem mörg hver eru mjög góð, að sögn Elísu. Nefnir hún sem dæmi Klettabæ og Heilindi, sem eru búsetuúrræði fyrir börn og ungmenni með fjölþættan vanda þar sem stuðningur er mikill. Slík úrræði eru hins vegar kostnaðarsöm.
„Eftir stendur að það er í raun og veru ekki okkar hlutverk að vera að greiða fyrir þessi einkaúrræði. Þau eiga að vera á höndum ríkisins og síðustu ríkisstjórnir hafa lagt áherslu á að þær vildu taka þetta til sín, en þetta virðist taka óratíma,“ segir Elísa.
En í dag var loks skrifað undir samkomulag þess efnis að ríkið muni taka við framkvæmd og ábyrgð á fjármögnun sérhæfðrar þjónustu við börn með fjölþættan vanda sem búsett eru utan heimilis.
Elísa segir erfitt að horfa upp á ástandið bara versna og versna.
„Þetta er algjörlega óásættanlegt og ótækt í alla staði. Foreldrar, oft í hræðilegu ástandi, eru að reyna að halda börnunum sínum frá alvarlegri áhættuhegðun eins og neyslu eða sjálfskaða, afbrotum og öðru. Ástandið er þannig hjá þessum hópi að hann getur ekki beðið,“ segir hún og heldur áfram:
„Það sama gildir um félagsráðgjafana sem starfa hjá barnavernd og þurfa að sitja undir svörum af hverju kemst barnið mitt hvergi inn. Það er ofsalega erfitt og þungt.“
Flækjustigið við að finna húsnæði undir meðferðarúrræði er óþarflega mikið, að mati Elísu, þó hún geri sér fyllilega grein fyrir því að öll öryggisatriði þurfi að vera í lagi.
„Það tekur svo ótrúlega langan tíma að fá niðurstöðu í þessi mál. Þá erum við ekki einu sinni komin þangað hvernig á að manna úrræði eða ákveða hvaða hugmyndafræði á að nota og hvernig hlutirnir eiga að vinnast. Við erum alltaf að spóla í einhverjum grunnatriðum sem ætti að vera hægt að leysa.“
Þetta á til að mynda við um nýtt meðferðarheimili sem rísa átti á Garðabæ sem ítarlega hefur verið fjallað um á mbl.is. Tæpum sjö árum eftir undirritun viljayfirlýsingar um verkefnið, bólar ekkert á heimilinu. Tölvupóstar sem mbl.is fékk afhenta frá fjármálaráðuneytinu hafa varpað ljósi á það hvernig málið hefur velst um í kerfinu, á milli ráðuneyta og stofnana, árum saman. Og strandað á deilum um byggingarréttargjöld.
„Við reynum að nýta okkur allt sem við getum á þessum biðtíma. Við erum að skaffa sálfræðiviðtöl, fjölskyldumeðferð og reynum að finna eitthvað uppbyggilegt fyrir börnin að gera. Við virkilega reynum að vanda okkur við að gera biðtímann eins uppbyggilegan og hægt er, en þegar málefni barns eru komin á það stig að það þarf þessi þyngstu úrræði, þá dugar ekkert annað. Þá erum við bara að plástra beinbrot sem grær þá kolvitlaust saman.“
Elísa segir hóp og barna og ungmenna með þyngsta vandann, sem komast ekki í úrræði, jafnvel stækka meira en hann þyrfti að gera vegna smitáhrifa til annarra barna.
„Hópurinn er að stækka og við erum líka að sjá aukna afbrota- og áhættuhegðun af því það er ekki viðeigandi úrræði til staðar, hjá þeim börnum sem þegar eru til vinnslu. Það er hluti af því að tilkynningum til okkar er að fjölga, af því það er opið mál í vinnslu og við erum bíða eftir úrræði, en barnið heldur áfram sinni áhættuhegðun á meðan það bíður.“
Hvað þarf að gerast núna til að koma í veg fyrir að vandinn aukist enn frekar?
„Það þyrfti að fjölga plássunum þar sem er gerð meðferðar- og greiningarvistun eins og var á Stuðlum, þar sem börn eru skoðuð og í hverju þeirra vandi felst, þverfaglega. Svo þarf líka fleiri tegundir af úrræðum sem taka við í kjölfarið. Þar sem þau fara og eru í einhverja mánuði í uppbyggilegum meðferðum og unnið er virkilega með þeirra vanda,“ segir Elísa.
Það dugi því ekki til að opna eitt langtímameðferðarheimili í Gunnarsholti, líkt og stendur til að gera næsta haust.
Elísa tekur sem dæmi meðferðarúrræði sem talað er um í skýrslunni frá árinu 2023 og kallast meðferðarfóstur, þar sem barn fer til sérhæfðrar fjölskyldu sem hefur fagaðila á sínum snærum. Barnið væri þannig í meðferð í heimilislegu umhverfi.
„Það er eitthvað sem við myndum gjarnan vilja sjá koma sterkt inn. Og öll þessi úrræði sem þar eru nefnd, það er þörf á þeim öllum,“ segir Elísa og vísar þar til skýrslunnar.