Foreldrar í Breiðholti taka málin í sínar hendur

Skólakerfið í vanda | 20. mars 2025

Foreldrar í Breiðholti taka málin í sínar hendur

„Við ætlum ekkert að hanga utan í krökkunum eins og við séum öryggisgæsla, heldur ætlum við frekar að reyna að nálgast þau og spjalla við þau og hafa gaman. Reyna að beina þeim í þá átt að eiga í eðlilegum samskiptum,“ segir Atli Ástgeir Arnarsson, forsprakki foreldrarölthóps í Neðra-Breiðholti.

Foreldrar í Breiðholti taka málin í sínar hendur

Skólakerfið í vanda | 20. mars 2025

Hátt í 20 foreldrar mættu í röltið í gær, sem …
Hátt í 20 foreldrar mættu í röltið í gær, sem gekk vel að sögn Atla. mbl.is/Eyþór Árnason

„Við ætlum ekkert að hanga utan í krökkunum eins og við séum öryggisgæsla, heldur ætlum við frekar að reyna að nálgast þau og spjalla við þau og hafa gaman. Reyna að beina þeim í þá átt að eiga í eðlilegum samskiptum,“ segir Atli Ástgeir Arnarsson, forsprakki foreldrarölthóps í Neðra-Breiðholti.

„Við ætlum ekkert að hanga utan í krökkunum eins og við séum öryggisgæsla, heldur ætlum við frekar að reyna að nálgast þau og spjalla við þau og hafa gaman. Reyna að beina þeim í þá átt að eiga í eðlilegum samskiptum,“ segir Atli Ástgeir Arnarsson, forsprakki foreldrarölthóps í Neðra-Breiðholti.

Hópurinn rölti sinn fyrsta hring um hverfið í gær, en upphafsdagurinn var enginn tilviljun því ball var í Breiðholtsskóla í gærkvöldi og mikið um að vera.

Markmiðið með röltinu er að foreldrar séu sýnilegir í hverfinu og börn geti leitað í öryggi ef þeim finnst þeim ógnað. Hann vonar að þannig megi að einhverju leyti sporna gegn ofbeldishegðun barna og unglinga í Bakkahverfinu.

Markmið er að fullorðnir séu sýnilegir í hverfinu.
Markmið er að fullorðnir séu sýnilegir í hverfinu. mbl.is/Eyþór Árnason

Ástandið alvarlegra upp á síðkastið

Líkt og Morgunblaðið og mbl.is hefur fjallað um hefur ofbeldisvandi þrifist í árgangi á miðstigi í Breiðholtsskóla og hefur ofbeldið einnig teygt sig út fyrir skólann. Hefur ástandið verið svo slæmt að börn hafa ekki þorað í skólann og jafnvel ekki út að leika sér. Þá hafa einhver börn skipt um skóla og fjölskyldur flutt úr hverfinu.

Atli segir ástandið augljóslega alvarlegra upp á síðkastið en oft áður og því hafi hann ákveðið að hafa frumkvæði að því að stofna hóp foreldra sem vilja rölta um hverfið. Mikill áhugi hafi verið á því og margir viljað taka þátt. 

Hátt í tuttugu foreldrar mættu í fyrsta röltið í gær og skiptu þeir sér niður í þrjá hópa. Atli segir allt hafa gengið vel og þeim hafi verið vel tekið.

mbl.is/Eyþór Árnason

Orkan nýtist best inni í hverfinu

Sjálfur á hann dóttur í þriðja bekk í Breiðholtsskóla sem betur fer hefur hvorki orðið fyrir ofbeldi né áreiti í skólanum eða utan hans.

„En ef það er ekki reynt að gera eitthvað róttækt núna, til að hafa hemil á þessu eða hafa einhver áhrif á að það verði eitthvað gert í þessu, þá munu yngri árgangar fyrr en síðar lenda í einhverju svipuðu.“

Atli segir það mikinn misskilning að ekkert sé verið að gera til að reyna að sporna við ofbeldi. Starfsfólk frá félagsmiðstöðinni Bakkanum í Breiðholtsskóla sé til dæmis oft niðri í Mjódd, þar sem krakkarnir safnast gjarnan saman, sem og Flotinn, flakkandi félagsmiðstöð. Þá sé líka verið að vinna í málum innan skólans.

„Okkar orka nýtist því best inni í hverfinu, í kringum Breiðholtsskóla og því svæði. Bakkarnir eru frekar þétt svæði þannig það er frekar auðvelt að rölta þar um,“ útskýrir hann.

Ball var í Breiðholtsskóla í gærkvöldi og mikið um að …
Ball var í Breiðholtsskóla í gærkvöldi og mikið um að vera. mbl.is/Eyþór Árnason

„Fullt af fleiri vitleysingum“

Hann segir tilganginn með foreldraröltinu ekki vera að vakta einhvern ákveðinn hóp, heldur snúist þetta um að fullorðnir séu sýnilegir í hverfinu og að börnin geti gengið að þeim vísum. Athyglin mun því ekki beinast sérstaklega að þeim hópi barna á miðstigi í Breiðholtsskóla sem fjallað hefur verið um að hafi beitt samnemendur sína ofbeldi árum saman.

„Það er fullt af fleiri vitleysingum að gera einhverja vitleysu niðri í Bökkum,“ segir Atli.

Hann hefur verið í sambandi við samfélagslögregluna og er lögreglan meðvituð um áform foreldranna, einnig formaður foreldrafélags Breiðholtsskóla og félagsmiðstöðin Bakkinn.

„Við ætlum að reyna okkar besta í að vera sýnileg. Það er líka gott að þeir krakkar sem eru líklegri til verða fyrir barðinu á einhverjum, viti sirka hvenær og hvar við erum, þá hafa þau öruggan stað að fara á,“ segir Atli.

„Ef eitthvað alvarlegt er að gerast þá, sem við getum ekki með orðum róað niður, þá hringjum við í lögregluna. En það verður ekki gert fyrir framan þau eins og við séum að hóta þeim,“ bætir hann við.

mbl.is