Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að Flokkur fólksins hafi ekki skipt um skoðun hvað varðar afstöðu flokksins til sölunnar á Íslandsbanka. Þá vísar Inga því á bug að flokkurinn hefði ákveðið að standa ekki í vegi fyrir sölu á Íslandsbanka gegn því að Landsbankinn yrði gerður að samfélagsbanka.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að Flokkur fólksins hafi ekki skipt um skoðun hvað varðar afstöðu flokksins til sölunnar á Íslandsbanka. Þá vísar Inga því á bug að flokkurinn hefði ákveðið að standa ekki í vegi fyrir sölu á Íslandsbanka gegn því að Landsbankinn yrði gerður að samfélagsbanka.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að Flokkur fólksins hafi ekki skipt um skoðun hvað varðar afstöðu flokksins til sölunnar á Íslandsbanka. Þá vísar Inga því á bug að flokkurinn hefði ákveðið að standa ekki í vegi fyrir sölu á Íslandsbanka gegn því að Landsbankinn yrði gerður að samfélagsbanka.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þar gerði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, afstöðu Flokks fólksins til sölu Íslandsbanka að umtalsefni.
„Til stendur að klára sölu á bankanum, söluferli sem Sjálfstæðisflokkurinn setti af stað. Ég fagna því að sjálfsögðu. Það sem vakti samt hvað mesta athygli var skörp U-beygja Flokks fólksins í málinu. Flokkurinn hefur áður vaðið á súðum í umræðunni um fyrri söluferli og sjaldan sparað stóru orðin í því samhengi. Hæstvirtur félags- og húsnæðismálaráðherra hefur farið þar fremst í flokki eins og oft áður,“ sagði Guðrún.
„Fór hún fyrir nefndaráliti hér í þessum sal um að vísa ætti frumvarpi um sölu á bankanum frá. Þá voru orð á borð við þessi látin falla: Nú á að höggva höfuðið af gullgæsinni og setja hana á grillið. Loks var það meðal kosningaloforða flokksins í nóvember síðastliðnum að flokkurinn væri alfarið andsnúinn sölu á Íslandsbanka. En nú hefur allt breyst. Háttvirtur þingmaður er orðinn hæstvirtur ráðherra. Kosningaloforðið og fyrri sannfæring virðast jafnframt farin fyrir bí. Batnandi mönnum er þó best að lifa, frú forseti, og það vakna því spurningar um hvað búi hér nákvæmlega að baki.“
Inga sagði að Flokkur fólksins hefði ekki skipt um skoðun.
„Við töldum að ekki væri ástæða til þess, á meðan bankarnir okkar mala gull og hafa verið að skila miklum arði inn í samfélagið, eins og háttvirtur þingmaður bendir á, að höggva höfuðið af gullgæsinni og skella henni á grillið. Við fengum hins vegar ágætisarf, ekki bara þennan kaleik heldur ýmislegt annað, í fangið frá fráfarandi ríkisstjórn. Sumt af því er gott og við höfum gert það að okkar og við ætlum að halda áfram að fylgja eftir þeim góðu málum sem fráfarandi ríkisstjórn skilur eftir sig og viðurkenna það sem vel er gert,“ sagði Inga.
Hún bætti við að það hefði aldrei komið til tals í núverandi ríkisstjórn að ýfa upp fjárlögin eða eitt eða neitt slíkt til að gjörbreyta öllum forsendum. „Hins vegar eru gleðifréttirnar þær að þessi sala mun verða til fyrirmyndar eins og hægt er, allt opið, allt uppi á borðum, engin mistök og það þarf enginn að segja af sér eftir hana,“ sagði Inga.
Guðrún gerði síðan stöðu Landsbankans að umræðuefni þegar hún benti á að Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, hefði staðið vaktina í umræðunni um sölu á Íslandsbanka fyrir hönd flokksins í vikunni.
„Hann mætti þó reyndar ekki til leiks fyrr en háttvirtur þingmaður Bryndís Haraldsdóttir kallaði eftir þátttöku Flokks fólksins í umræðunni og þau hafa hingað til ekki talið eftir sér að ræða sölu á Íslandsbanka. En af orðum talsmanns Flokks fólksins mátti þó greina að Landsbankinn ætti svo að verða samfélagsbanki, eitthvað sem hefur verið í stefnuyfirlýsingu Flokks fólksins varðandi Landsbanka Íslands og flokkurinn hefur lengi talað fyrir. Það er því ekki hægt annað en að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort þetta sé einmitt það sem Flokkur fólksins fékk í gegn í stjórnarsamstarfinu, þ.e. að standa ekki í vegi fyrir sölu á Íslandsbanka gegn því að Landsbankinn yrði gerður að samfélagsbanka,“ sagði Guðrún.
„Ég vildi að satt væri. Ég vildi að við hefðum verið að gera einhver slík hrossakaup, að með því að segja já við þessu fengjum við líka já við þeirri hugsjón Flokks fólksins að Landsbankinn yrði gerður að samfélagsbanka. Ég get hins vegar glatt háttvirtan þingmann með því, sem ég veit að gleður hana alls ekki, að það er algerlega skýrt á borðinu, og var ákveðið af þessari ríkisstjórn, að ekki verður ráðist í neitt söluferli á Landsbankanum á þessu kjörtímabili. Já, Flokkur fólksins á stóran þátt og heiður af því að ekki verður ráðist í sölu á Landsbankanum á þessu kjörtímabili. En hvort okkur auðnast sú gifta að gera hann að samfélagsbanka verður tíminn bara að leiða í ljós. En ég vona svo sannarlega að svo geti orðið, háttvirtur þingmaður Guðrún Hafsteinsdóttir,“ sagði ráðherra að lokum.