SFS fari offari í dómsdagsspám

Veiðigjöld | 25. mars 2025

SFS fari offari í dómsdagsspám

„Ég held þau séu að fara offari í sínum dómsdagsspám varðandi þetta mál. Ég er hins vegar meðvituð um það að þetta er mikil breyting og það er meðal annars þess vegna sem ég hef verið mjög ákveðin í því að setja línuna hér og ekki fara að tala um einhverjar tölur aftur í tímann,“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra innt álits á fullyrðingum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um að fyrirhuguð hækkun veiðigjalds ógni rekstrargrundvelli vinnslu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

SFS fari offari í dómsdagsspám

Veiðigjöld | 25. mars 2025

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra telur SFS fara offari í málflutningi …
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra telur SFS fara offari í málflutningi sínum um fyrirhugaða hækkun veiðigjalds. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

„Ég held þau séu að fara offari í sínum dómsdagsspám varðandi þetta mál. Ég er hins vegar meðvituð um það að þetta er mikil breyting og það er meðal annars þess vegna sem ég hef verið mjög ákveðin í því að setja línuna hér og ekki fara að tala um einhverjar tölur aftur í tímann,“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra innt álits á fullyrðingum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um að fyrirhuguð hækkun veiðigjalds ógni rekstrargrundvelli vinnslu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

„Ég held þau séu að fara offari í sínum dómsdagsspám varðandi þetta mál. Ég er hins vegar meðvituð um það að þetta er mikil breyting og það er meðal annars þess vegna sem ég hef verið mjög ákveðin í því að setja línuna hér og ekki fara að tala um einhverjar tölur aftur í tímann,“ segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra innt álits á fullyrðingum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um að fyrirhuguð hækkun veiðigjalds ógni rekstrargrundvelli vinnslu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Á blaðamannafundi í dag kynnti Hanna Katrín ásamt Daða Má Kristóferssyni fjármálaráðherra frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á veiðigjaldi. Áætlað er að nýtt gjald hefði á síðasta ári skilað 10 milljörðum krónum meira en raunin varð, en það er um tvöfalt hærri upphæð en fékkst innheimt.

„Það hefur verið misbrestur í því að miða við raunverulegt markaðsverðmæti í töluverðan tíma en nú erum við að snúa blaðinu við,“ segir Hanna Katrín og vísar til þess að útgerðir sem einnig reka vinnslu hafa greitt gjald á grundvelli innra uppgjörs sem hefur verið byggt á svokölluðu verðlagsstofuverði en ekki verði á fiskmörkuðum.

Þá telur ríkisstjórnin rétt að miða við verð uppsjávartegunda á fiskmörkuðum í Noregi þar sem ekki er virkur markaður með þær tegundir á Íslandi. Vert er að geta þess að í Noregi er ekki heimilt að reka bæði útgerð og vinnslu. Þar eru jafnframt ekki innheimt veiðigjöld.

Veiðigjöld samkvæmt gildandi fyrirkomulagi hér á landi taka mið af afkomu veiða og sveiflast því reglulega milli ára. Hækkuðu því veiðigjöld rækilega fyrir fleiri stofna síðastliðin áramót, mest fyrir makríl.

Ekki áhyggjur af innlendri vinnslu

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem þau mótmæltu áformum ríkisstjórnarinnar og sögðu þau ógna innlendri fiskvinnslu.

„Tekjur veiða þurfa þá að aukast í takt við viðmið veiðigjaldsins, með þeim áhrifum að fiskvinnslur verða ósamkeppnishæfar. Eins og reyndin er í Noregi, mun fiskur þá í verulegum mæli flytjast óunninn úr landi til ríkisstyrktra fiskvinnsla í láglaunalöndum á borð við Pólland og Kína,“ sagði í yfirlýsingunni.

Hanna Katrín segist hafa litlar áhyggjur af því að tvöföldun veiðigjalds dragi úr innlendri vinnslu. „Ég hef ekki séð nein haldbær rök fyrir því að svo ætti að vera. Fyrirkomulagið sem er hér er verðmætt, það er mikilvægt og býr til mikil verðmæti og þessi tiltekna breyting nær aðeins til aflaverðmætisins.“

„Ég ætla ekki að gefa lítið fyrir þau varnarorð, ég skil hvaðan þau koma. Þau eru að halda hagsmunum sinna umbjóðanda á lofti. Við höfum heyrt þetta áður, við höfum átt í samtölum við þau í þessari vinnu. Við höfum tekið tillit til þeirra sjónarmiða í ákveðnum atriðum og í öðrum erum við ekki sammála. Samráð er einmitt til þess fallið að geta farið ennþá frekar ofan í það og síðan í gegnum þá þinglegu meðferð sem málið fær.“

Frumvarpið var birt í samráðsgátt í dag.

Ekki áhyggjur af kjarasamningum

Mikil hækkun veiðigjalds hefur áhrif á afkomu veiða. Hefurðu áhyggjur af því að þetta geti haft áhrif á forsendur kjarasamninga?

„Nei ég hef það í sjálfu sér ekki. Það er kannski ekki okkar að hafa skoðanir á því hvernig þeir kjarasamningar séu unnir. Það getur vel verið að þetta kalli á einhverjar aðgerðir af hálfu beggja samningsaðila þar, en ég býst við að þeir leysi það.“

Hanna Katrín segir ríkisstjórnina koma til móts við þarfir smærri útgerða með því að hækka frítekjumark veiðigjalds, en það var 40% af fyrstu rúmu átta milljónum króna á síðasta ári en upphæðin er vísitölutengd. Frumvarpið gerir ráð fyrir 50% af fyrstu 10 milljónum króna álagningar og 30% álagningar hvers árs hjá hverjum gjaldskyldum aðila upp að hámarki 20 milljónum króna.

„Þegar við skoðuðum tölur yfir hverjir hefðu nýtt sér frítekjumarkið áður til fulls kom í ljós svigrúm til að ganga enn lengra. Ég held að það séu einmitt stór hluti af þessum smærri útgerðum sem munu njóta góðs af því og að hærra frítekjumark muni draga verulega úr hamlandi áhrfium á þeirra rekstur.“

Ef þetta er réttlætismál að greitt sé gjald fyrir afnot af nýtingu sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, hvers vegna eiga sumir að vera undanskildir slíku gjaldi?

„Þessi spurning á fyllilega rétt á sér, en þarna erum við að koma til móts við það að það sé gríðarlegt ójafnvægi í fjárhagslegum styrk útgerðanna eftir stærð. Vegna þess að þessar minni eru flestar á landsbyggðinni var það talið samfélagslega hagkvæmt og mikilvægt að gera þetta svona.“

mbl.is