„Þetta leggst frekar illa í mig“

Veiðigjöld | 25. mars 2025

„Þetta leggst frekar illa í mig“

„Við munum mæta þessu með skynsemisrökum,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, um breytingar á lögum um veiðigjöld.

„Þetta leggst frekar illa í mig“

Veiðigjöld | 25. mars 2025

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eyþór

„Við munum mæta þessu með skynsemisrökum,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, um breytingar á lögum um veiðigjöld.

„Við munum mæta þessu með skynsemisrökum,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, um breytingar á lögum um veiðigjöld.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kynntu breytingarnar í dag. 

Hefur áhyggjur af skilaboðum ríkisstjórnarinnar

„Ég hef nú ekki náð að kynna mér þetta nógu ítarlega en þetta leggst frekar illa í mig og ég tel að þetta muni draga verulega úr samkeppnishæfni greinarinnar,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.

Segist hún hafa áhyggjur af skilaboðum sem ríkisstjórnin virðist vera að senda, þá sérstaklega á landsbyggðina.

„Þar sem talað er um að skattleggja ferðaþjónustuna, það er talað um að skattleggja núna sjávarútveginn og svo á að setja kílómetragjald. Þetta eru allt mjög íþyngjandi skattar á landsbyggðina sem mun draga úr verðmætasköpun og þróttinum í atvinnulífinu.“

„Við þurfum að hlúa að þeim fyrirtækjum sem hér starfa“

Hanna Katrín sagði í dag að með breytingunni ættu að skapast auknar tekjur sem myndu nýtast í innviðauppbyggingu á landsbyggðinni.

„Já, en þú mátt heldur ekki kæfa fyrirtækin þannig að þau fari með starfsemi úr landi eða fari með einhver verkefni frá landinu. Þá verður sú verðmætasköpun ekki til hér á landi,“ segir Guðrún og nefnir að hún sjálf hafi talað mikið fyrir því að það þurfi að stækka kökuna.

„Það eru líka bara viðsjárverðir tímar í heiminum og við þurfum að hlúa að þeim fyrirtækjum sem hér starfa. Ég held að ríkisstjórnin ætti að horfa til þess hvernig hún geti einmitt styrkt atvinnulífið í landinu til þess að skapa hér tekjur og tryggja að störfin séu hér á landi.“

mbl.is