Varaþingmaður Samfylkingarinnar skutlaðist með heimilissorp í útvarpshúsið í Efstaleiti í dag til að mótmæla umfjöllun Ríkisútvarpsins um Ásthildi Lóu Þórsdóttur, sem vék nýlega úr embætti barnamálaráðherra.
Varaþingmaður Samfylkingarinnar skutlaðist með heimilissorp í útvarpshúsið í Efstaleiti í dag til að mótmæla umfjöllun Ríkisútvarpsins um Ásthildi Lóu Þórsdóttur, sem vék nýlega úr embætti barnamálaráðherra.
Varaþingmaður Samfylkingarinnar skutlaðist með heimilissorp í útvarpshúsið í Efstaleiti í dag til að mótmæla umfjöllun Ríkisútvarpsins um Ásthildi Lóu Þórsdóttur, sem vék nýlega úr embætti barnamálaráðherra.
Ráðherra fjölmiðla segir hegðun varaþingmannsins ósæmandi.
Tónlistarmaðurinn Birgir Þórarinsson, eða Biggi Veira, birti myndskeið á Facebook í dag þar sem hann skilur rusl eftir á þjónustuborði Ríkisútvarpsins í Efstaleiti.
„Nennirðu að skutla þessu niður á fréttastofu. Þeir eru að bíða eftir þessu,“ heyrist í Bigga segja við starfsmann á þjónustuborðinu. Birgir er einnig þriðji varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.
„Þetta er óflokkað rusl,“ bætir Birgir við.
Hann skrifar síðan í Facebook-færslunni að starfsfólkið á Rúv vilji „ólmt fá meira“ og tekur fram að grófari úrgangur fari upp á Morgunblað.
Biggi hefur farið mikinn á Facebook frá því að Rúv greindi frá gömlu ástarsambandi Ásthildar Lóu við 16 ára dreng og barni þeirra sem fæddist 1990.
Hann hefur kallað eftir afsögnum „yfirmannakeðju fréttastofu Rúv í þessu máli, alveg uppí útvarpsstjóran sjálfann [sic]“.
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og jafnframt samflokksmaður Bigga, segir slíka hegðun ekki sæmandi. Hann segir það aftur á móti ekki í sínum verkahring að ræða við varaþingmanninn.
„Mér finnst þetta ekki boðlegt háttarlag,“ segir Logi í samtali við mbl.is en hann er jafnframt ráðherra fjölmiðlamála.
„Fjölmiðlar leika mikilvægt lýðræðishlutverk og aðhaldshlutverk í samfélaginu og við verðum að trúa að þeir vinni á hlutlægan hátt og það er ekki sæmandi að stjórnmálafólk sé að hamast á þeim,“ bætir ráðherrann við.
Spurður hvort hann vísi þar einnig til ummæla frá fulltrúum úr röðum Flokks fólksins svarar hann: „Ég hef gagnrýnt ummæli ráðherra og þingmanna um fjölmiðla, já, nú og áður.“
Vísar hann þar til ummæla Sigurjóns Þórðarsonar, formanns atvinnuveganefndar Alþingis og þingmanns Flokks fólksins, sem sagðist vilja endurskoða ríkisstyrki til Morgunblaðsins í kjölfar umfjöllunar blaðsins um ranga skráningu Flokks fólksins og framgöngu formannsins.
Að öðru leyti vildi Logi ekki tjá sig um einstök ummæli þingmanna eða annarra kjörinna fulltrúa um fjölmiðla þegar mbl.is ræddi við hann í dag. Þegar Ásthildur Lóa sagði af sér benti hún á að erfitt „fjölmiðlaumhverfi“ væri ein ástæða afsagnarinnar.
Biggi er varaþingmaður á hjá ykkur í Reykjavíkurkjördæmi Suður. Kemur eitthvað til greina að þið hjá Samfylkingunni ræðið við hann um þetta, þar sem það gæti verið að þessi maður sitji á þingi fyrir ykkar hönd?
„Það er bara ekki í mínum verkahring,“ svarar ráðherrann. „Ég get bara talað fyrir mig og mér finnst þetta bara ekki vera í lagi.“
Ekki náðist í Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóra Rúv, við gerð fréttar.