Carney ómyrkur í máli

Carney ómyrkur í máli

Tími djúpra efnahags-, öryggis- og hernaðarlegra tengsla á milli Kanada og Bandaríkjanna „er lokið“, að sögn Mark Carney forsætisráðherra Kanada.

Carney ómyrkur í máli

Donald Trump Bandaríkjaforseti | 27. mars 2025

Carney segir að Kanada muni ekki semja við Bandaríkin fyrr …
Carney segir að Kanada muni ekki semja við Bandaríkin fyrr en Donald Trump byrji að sýna þjóðinni virðingu. AFP/Dave Chan

Tími djúpra efnahags-, öryggis- og hernaðarlegra tengsla á milli Kanada og Bandaríkjanna „er lokið“, að sögn Mark Carney forsætisráðherra Kanada.

Tími djúpra efnahags-, öryggis- og hernaðarlegra tengsla á milli Kanada og Bandaríkjanna „er lokið“, að sögn Mark Carney forsætisráðherra Kanada.

Þessi ummæli lét hann falla í dag í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti 25% toll á alla innflutta bíla til Bandaríkjanna sem eiga að taka gildi í næstu viku. Er þetta gert til að styðja við inn­lenda bíla­fram­leiðslu.

Um 500 þúsund manns starfa við bílaiðnaðinn í Kanada.

Varanlega breytt samskiptum ríkjanna

Carney kallaði bílatolla Trumps „óréttlætanlega“ og sagði þá brjóta í bága við núverandi viðskiptasamninga milli ríkjanna.

Hann varaði Kanadamenn einnig við því að Trump hefði varanlega breytt samskiptum við Bandaríkin og að óháð framtíðar viðskiptasamningum yrði „engin leið til baka“.

„Gamla sambandið sem við áttum við Bandaríkin, byggt á aukinni samþættingu hagkerfa okkar og náinni öryggis- og hernaðarsamvinnu, er lokið,“ sagði Carney.

Kosningar eru fram undan í lok næsta mánaðar í Kanada og eru samskiptin við Bandaríkin eitt helsta kosningamálið. 

Hótar Bandaríkjamönnum tollum

Carney tók við sem forsætisráðherra 14. mars . Yfirleitt leggur nýr kanadískur leiðtogi áherslu á að hringja í forseta Bandaríkjanna strax eftir að hann tekur við embætti, en Trump og Carney hafa ekki talað saman.

Carney sagði stefnt að símafundi á næstu tveimur sólarhringum.

„Við munum berjast gegn tollum Bandaríkjanna með gagnkvæmum tollaaðgerðum af okkar hálfu sem munu hafa hámarksáhrif í Bandaríkjunum og lágmarksáhrif hér í Kanada,“ sagði Carney.

Enn fremur tók hann fram að Kanada myndi ekki semja við Bandaríkin fyrr en Trump myndi byrja sýna Kanada virðingu og láta af tali um innlimun Kanada.

mbl.is