Segir ákvörðun um veiðigjöld illa undirbúna

Alþingi | 27. mars 2025

Segir ákvörðun um veiðigjöld illa undirbúna

Ákvörðunin að hækka veiðigjöld frá og með janúar á næsta ári er ekki bara umdeild, heldur einnig illa undirbúin og í andstöðu við þau viðmið og lög sem Alþingi hefur sjálft sett um opinber fjármál og vandaða stjórnsýslu.

Segir ákvörðun um veiðigjöld illa undirbúna

Alþingi | 27. mars 2025

Samsett mynd/mbl.is/Karítas/mbl.is/Eyþór

Ákvörðunin að hækka veiðigjöld frá og með janú­ar á næsta ári er ekki bara um­deild, held­ur einnig illa und­ir­bú­in og í and­stöðu við þau viðmið og lög sem Alþingi hef­ur sjálft sett um op­in­ber fjár­mál og vandaða stjórn­sýslu.

Ákvörðunin að hækka veiðigjöld frá og með janú­ar á næsta ári er ekki bara um­deild, held­ur einnig illa und­ir­bú­in og í and­stöðu við þau viðmið og lög sem Alþingi hef­ur sjálft sett um op­in­ber fjár­mál og vandaða stjórn­sýslu.

Þetta sagði Ingi­björg Isak­sen, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins í óund­ir­bún­um fyr­ir­spurn­ar­tíma á Alþingi í dag og beindi fyr­ir­spurn sinni að Daða Má Kristó­fers­syni, fjár­málaráðherra.

„Hvaða grein­ing­ar liggja að baki þess­ari tvö­föld­un veiðigjalda sem sýna að ákvörðunin sé í sam­ræmi við lög um op­in­ber fjár­mál eins og 1. og 6. gr. kveða á um? Og í öðru lagi, fell­ur ákvörðunin að heild­stæðri stefnu stjórn­valda um skatt­lagn­ingu auðlinda eða er hér ein­fald­lega verið að bregðast við skamm­tíma­tekjuþörf vegna fjár­laga næsta árs?“ spurði Ingi­björg fjár­málaráðherr­ann.

Hissa á fyr­ir­spurn­inni

Í svari sínu við fyr­ir­spurn Ingi­bjarg­ar sagðist Daði hissa á fyr­ir­spurn­inni.

„Þing­heimi hlýt­ur að vera ljóst að lög­in sem hér er verið að breyta eru í eðlinu óbreytt, það er að segja að skipt­ing þessa hagnaðar sem Alþingi sjálft ákvað að væri sann­gjörn, 33% þjóðar­inn­ar, 67% til út­gerðar­inn­ar, er óbreytt,“ sagði Daði.

„Það er með hrein­um ólík­ind­um að halda því fram að hér sé um að ræða ein­hverja grund­vall­ar­breyt­ingu á stefnu stjórn­valda í því hvernig þessi arður skipt­ist. Það er ein­ung­is verið að leiðrétta fyr­ir aug­ljós­um galla, sem að meira að segja lá fyr­ir, vegna þess að ég veit ekki bet­ur en að þetta þing eða fyrra þing hafi samþykkt það að ýkja tekj­ur í upp­sjáv­ar­veiðum um 10%. Hvaðan komu þau 10%? Af þeirri vitn­eskju að þetta væri ekki rétt skráð.“

Skatta­breyt­ing heill­ar at­vinnu­grein­ar illa und­ir­bú­in

Í seinni fyr­ir­spurn sinni sagði Ingi­björg eng­an fyr­ir­sjá­an­leika og lít­inn sem eng­an tíma gef­inn til sam­ráðs í ákvörðun­ar­tök­unni. Málið snú­ist ekki um af­stöðu til veiðigjalda sem slíkra held­ur um stjórn­sýslu­lega ábyrgð, laga­lega skyldu og traust á stefnu­mörk­un stjórn­valda í op­in­ber­um fjár­mál­um.

„Það er ekki hægt að sætta sig við breyt­ingu á skattaum­hverfi heill­ar at­vinnu­grein­ar sem er svona illa und­ir­bú­in. Við höf­um lagt áherslu á það að lög um op­in­ber fjár­mál séu ekki forms­atriði held­ur skil­yrði fyr­ir ábyrgri stefnu­mót­un og að ráðast í tekju­hækk­un með þess­um hætti án full­nægj­andi áhrifamats er brot á þeirri ábyrgð.

Við höf­um áður rætt mik­il­vægi laga um op­in­ber fjár­mál sem festu og fyr­ir­sjá­an­leika en nú blas­ir við að þau eru virt að vett­ugi. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra og vona að hann svari spurn­ingu minni, mun ráðherra hæstv. skuld­binda sig til að leggja fram ít­ar­legt mat á áhrif­um breyt­ing­ar­inn­ar á ólík byggðarlög og fyr­ir­tæki, svo sem litl­ar út­gerðir og þær stærri, sjó­menn og aðra hagaðila, og tryggja að Alþingi fái slíkt mat í hend­ur áður en ákvörðunin tek­ur gildi?“

„Hvers kon­ar eig­in­lega fyr­ir­komu­lag er það?“

Í seinna svari sínu sagði Daði að eðli­legra væri ef Ingi­björg hefði stillt upp spurn­ingu sinni á eft­ir­far­andi hátt: „Hvernig í ósköp­un­um datt Alþingi á sín­um tíma til hug­ar að leggja til grund­vall­ar við mat á tekj­um töl­ur sem verða til í innri viðskipt­um inn­an fyr­ir­tækja?“

„Það er að segja skatt­stofn, sá sem á að greiða skatt­inn fær að velja sjálf­ur hvað er stór. Hvers kon­ar eig­in­lega fyr­ir­komu­lag er það? Ég bara skil ekk­ert í þess­ari umræðu um ábyrgð hér þegar þetta er sag­an,“ bætti Daði við.

„Varðandi það að leggja mat á áhrif­in, þá er það þannig að slíkt mat fór fram. Það hef­ur verið metið hver áhrif­in eru á at­vinnu­grein­ina og ég vil minna á að í grein­um eins og sjáv­ar­út­vegi, þar sem aðgengi er að tak­mörkuðum auðlind­um, verður til um­fram­hagnaður, að skatt­leggja hann er skil­virk leið til að afla tekna.“

mbl.is