Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að reynsluleysi þingmanna Flokks fólksins hafi engin áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið sem hafi gengið vel.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að reynsluleysi þingmanna Flokks fólksins hafi engin áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið sem hafi gengið vel.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að reynsluleysi þingmanna Flokks fólksins hafi engin áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið sem hafi gengið vel.
Inga segir að sú ágjöf sem flokkurinn hafi mátt þola undanfarið, m.a. tengt afsögn barna- og menntamálaráðherra nýverið, hafi þjappað flokksmönnum enn betur saman.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem formenn ríkisstjórnarflokkanna boðuðu til eftir hádegi til að fara yfir fyrstu 100 daga ríkisstjórnarinnar.
„Við höldum bara áfram okkar góðu verkum. Við höfum hins vegar ætlað okkur í dag að ræða um 100 daga afmæli ríkisstjórnarinnar og erum ekki að horfa í baksýnisspegilinn. Við segjum áfram veginn, við skulum láta verkin tala. Í okkar herbúðum þá ríkir bara bjartsýni og bros og við tökum allri ágjöf þannig að hún styrkir okkur,“ sagði Inga.
„En reynsluleysið sem slíkt, við höfum náttúrulega aldrei verið í ríkisstjórn áður; við lærum af þeim mistökum sem við gerum. Ég segi það fyrir okkar hönd í Flokki fólksins þá erum við alveg einstaklega frábær og erum í frábærri ríkisstjórn.“
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra benti í framhaldinu á að „við værum ekki að leggja fram þessa fjármálaáætlun í dag nema af því að við erum í ríkisstjórn með Flokki fólksins. Við skulum bara hafa það alveg á hreinu.“
Hún bætti við að margar af stóru ákvörðununum sem ríkisstjórnin taki nú séu vegna þess að ríkisstjórn sé samsett með þessum hætti.
„Fólk er samstillt í pólitískum skilaboðum. Koma upp mál út af alls konar þáttum sem eru oft ótengd pólitíkinni? Já. Þarf maður að eiga við þau? Já. Er það stundum erfitt? Já. En við fórum í þetta til að vinna í pólitík og þetta er afrakstur þess og ég er þakklát fyrir að vera í ríkisstjórn með Flokki fólksins sem gerir mér og okkur kleift að ná þessum markmiðum okkar,“ sagði Kristrún sem lýsti ánægju með samstarfið.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra sagði að allt tal um reynsluleysi Flokks fólksins væri hroki eða yfirlæti.
„Flokkur fólksins er stofnaður sama ár og Viðreisn, 2016. Hefur alveg jafn mikla reynslu á þingi og við í Viðreisn. Komum við frá ólíkum hópum í samfélaginu? Já, við gerum það. En fyrir vikið höfum við náð að efla samstarf okkar þannig að það er bæði gagnkvæmur skilningur, það er hreinskiptni og fyrir vikið þá dýpkar samstarfið og verður betra að mínu mati,“ sagði Þorgerður Katrín.
„Ég hef verið í öðrum flokki eins og fleiri vita. Það er engin ávísun á gæði ríkisstjórna að hafa eldgömlu flokkana í ríkisstjórn, bara þannig að það sé sagt. Ég held að þetta fari bara einfaldlega eftir því að traustið sé strax frá grunni, frá upphafi. Við vinnum þannig, við erum búin að koma okkur upp ákveðnu verklagi. Fyrir vikið erum við að sjá ákveðna skilvirkni, ákveðna niðurstöðu, pólitíska niðurstöðu úti í samfélagið sem við erum að taka á.“