Sjötugi maðurinn sem var handtekinn í Grindavík í dag sakaður um að ógna björgunarfólki með byssu kveðst „blásaklaus“ og íhugar nú réttarstöðu sína.
Sjötugi maðurinn sem var handtekinn í Grindavík í dag sakaður um að ógna björgunarfólki með byssu kveðst „blásaklaus“ og íhugar nú réttarstöðu sína.
Sjötugi maðurinn sem var handtekinn í Grindavík í dag sakaður um að ógna björgunarfólki með byssu kveðst „blásaklaus“ og íhugar nú réttarstöðu sína.
„Þetta var versti dagur í mínu lífi,“ segir sá hinn sami, Hermann Ólafsson, Grindvíkingur og fyrrum forstjóri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Stakkavíkur.
Hann segir björgunarsveitarmann hafa beðið um að fá að taka mynd. Hermann hafi þá í gríni stungið haglabyssu upp í loftið, viðstöddum til mikillar skemmtunar – að því er virtist.
Það hafi þess vegna komið honum í galopna skjöldu þegar hann var stöðvaður skömmu síðar af sérsveitarmönnum sem sem tjáðu honum að hann hafi sýnt „ógnandi hegðun“ með skotvopni og stungu honum í steininn.
Björgunarsveitarmaður fékk áfallahjálp frá fulltrúum Rauða krossins eftir atvikið með byssuna.
Fjallað var um handtökuna í helstu miðlum landsins.
„Þetta er haugalygi,“ segir hann í samtali við blaðamann mbl.is. „Ég skal segja þér nákvæmlega hvernig þetta gerðist,“ bætir hann við og rekur söguna frá sínu sjónarhorni.
Eftir að gos hófst við Grindavík í dag fóru Hermann og tveir starfsmenn hans á Stað suðvestan Grindavíkurbæjar til þess að sækja skotbómulyftara sem hann notar til að gefa kindum sínum hey. Hann er auk þess ættaður af Stað.
Hermann segist hafa fengið leyfi frá björgunarsveitinni til að fara inn í bæinn.
„Það hringir í mig stelpa frá björgunarsveitinni og segir við mig: Ég sendi björgunarsveitarmenn til þín út á Stað,“ útskýrir Hermann og þegar hann kom á Stað var björgunarfókið þegar mætt.
Hermann segir að björgunarsveitarmaður hafi komið að sér og spurt hvort hann mætti taka mynd af honum.
Hermann, gömul refaskytta, hafi þá í gríni tekið upp haglabyssu sem hann geymdi í lyftaranum og spurt:
„Viltu ekki fá eina af bóndanum með haglabyssu?“
Síðan hafi hann stungið byssunni „aðeins upp í loftið“ út um opinn bílgluggann. Svo hafi björgunarsveitarmaðurinn tekið myndina og hópurinn haldið áfram inn.
„Allt í gúddí. Það hafði enginn beðið um áfallahjálp þá,“ segir hann. Þvert á móti hafi allir hlegið að gjörningnum.
En svo þegar hann hafði sótt lyftarana og var á leið úr bænum mætti hann sérsveitarbíl og nokkrum lögreglubílum.
„Og þeir koma vaðandi út úr bílnum,“ segir Hermann um sérsveitarmennina, sem skipuðu Hermanni að fara út úr lyftaranum, sögðu að hann hefði sýni „ógnandi hegðun“ með skotvopn.
Hermann segist hafa útskýrt fyrir þeim að þetta hafi aðeins verið vegna myndatöku. Og þó, áður en hann hafi getað stigið sjálfur úr lyftaranum, hafi laganna verðir gripið í Hermann og ætlað að rífa hann úr bílnum.
Þegar Hermann var komin úr bílnum var honum tjáð að það ætti að handjárna hann. „Er það nú ekki óþarfi?“ kveðst Hermann hafa spurt, en um leið hafi lögreglumennirnir snúið hann niður.
„Þeir skella mér í götuna, hendur fyrir aftan bak, ég var helaumur,“ bætir hann við og tekur fram að hann væri nýlega kominn úr axlaraðgerð.
„Þau voru næstum því búin að drepa mig, þessir fantar“
Hermann var þá látinn bíða í varðhaldsklefa í Keflavík og síminn tekinn af honum.
„Ég gerði ekkert af mér. Ég er alveg blásaklaus. Ég gerði ekki neitt af mér,“ ítrekar Hermann, en honum er enn heitt í hamsi yfir málinu. Svo kom lögmaður Hermanns og fór samferða honum í yfirheyrslu.
Síðan var honum sleppt en þá blasti við annað áfall: Málið var komið á alla helstu fréttamiðla landsins.
„Það er búið að taka mannorð mitt og rífa það niður. Þetta er haugalygi frá a til ö,“ bætir hann við.
Auk þess hefur Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra fordæmt þessa meintu ógn. „Öll þessi lygi og allur þessi þvættingur, maður er bara varnarlaus,“ segir hann spurður út í þessa fordæmingu.
„Ég vil fara lengra með þetta, ég vil fara í skaðabótamál við þetta lið.“
Segir hann málið vera björgunarsveitinni, lögreglunni og sérsveitinni til háborinnar skammar.
„Ég vænti þess að þeir sem eiga hlut að máli sjái sóma sinn í því að koma með opinbera afsökunarbeiðni og hreinsi mig frá þessum viðbjóði.“