Suður-kóreski leikarinn Kim Soo-hyun hefur gefið út opinbera yfirlýsingu þar sem hann neitar ásökunum fjölskyldu leikkonunnar Kim Sae-ron, sem framdi sjálfsvíg í febrúar.
Suður-kóreski leikarinn Kim Soo-hyun hefur gefið út opinbera yfirlýsingu þar sem hann neitar ásökunum fjölskyldu leikkonunnar Kim Sae-ron, sem framdi sjálfsvíg í febrúar.
Suður-kóreski leikarinn Kim Soo-hyun hefur gefið út opinbera yfirlýsingu þar sem hann neitar ásökunum fjölskyldu leikkonunnar Kim Sae-ron, sem framdi sjálfsvíg í febrúar.
„Ég get ekki gengist við því sem ég gerði ekki,“ sagði hinn 37 ára Soo-hyun á blaðamannafundi í Seoul í gær.
Miðpunktur deilna í kringum andlát Sae-ron eru tvær ásakanir; að Soo-hyun hafi átt í sambandi við Sae-ron þegar hún var fimmtán ára og að umboðsskrifstofa hans hafi þrýst á hana að endurgreiða lán sem hún skuldaði skrifstofunni.
Andlát Sae-ron var mikið áfall og hafði áhrif víðs vegar í Suður-Kóreu og í skemmtanaiðnaðinum, enda mikið bakslag fyrir Soo-hyun sem hefur gert það gott í fjölda þáttasería og kvikmyndum og er hvað þekktasti leikarinn þar í landi.
Í yfirlýsingu sinni sagði Soo-hyun að þótt þau hefðu átt í árssambandi á fullorðinsárum hafi hann aldrei átt í sambandi við hana þegar hún var undir aldri.
Blaðamannafundurinn í gær kom í kjölfarið á margra vikna ásökunum á báða bóga, á milli fjölskyldu Sae-ron og Soo-hyun sjálfs. Leikarinn hafði þagað um ásakanirnar þar til í gær. Á blaðamannafundinum brast hann í grát og staðfesti að þau hefðu einungis hist á fullorðinsárum.
Sjálf var Sae-ron undir árásum í netheimum á tímabili eftir að hún var sektuð um 14.000 dollara fyrir að keyra undir áhrifum 2022. Fyrir þann tíma hafði hún verið talin ein efnilegasta leikkona Suður-Kóreu.
Hún var hjá sömu umboðsskrifstofu, GoldMedalist, og Soo-hyun, sem var stofnuð af ættingja hans. Hún yfirgaf umboðsskrifstofuna í desember 2022.
Fjölskylda leikkonunnar hélt því fram að GoldMedalist hefði greitt sektina vegna ölvunaraksturs Sae-ron. Umboðsskrifstofan höfðaði svo mál gagnvart Sae-ron þar sem hún var krafin um endurgreiðslu. Hún á að hafa beðið um meiri frest en þeirri beiðni var ekki svarað.
Á blaðamannafundinum neitaði Soo-hyun því að Sae-ron hefði tekið þessa örlagaríku ákvörðun um líf sitt vegna skuldarinnar.
Hann hefur verið notaður í ófáar auglýsingar fyrir hin ýmsu fyrirtæki sem mörg hver hafa nú fjarlægt allt efni tengt honum og slitið samstarfi við hann, þ.á.m hátískuvörumerkið Prada.
Þá var þáttaröð á Disney+ þar sem Soo-hyun fer með aðalhlutverk einnig tekin úr sýningu. Lögmaður Soo-hyun sagðist í gær hafa lagt fram kæru á hendur fjölskyldu Sae-ron en fjölskyldan hefur ekki tjáð sig eftir blaðamannafundinn.