Í bréfi sem Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar hf. hefur sent hluthöfum segir fullyrðingar Hönnu Katrínar Friðrikssonar atvinnuvegaráðherra um fjárfestingar sjávarútvegsins í óskyldum rekstri eiga enga stoð í raunveruleikanum.
Í bréfi sem Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar hf. hefur sent hluthöfum segir fullyrðingar Hönnu Katrínar Friðrikssonar atvinnuvegaráðherra um fjárfestingar sjávarútvegsins í óskyldum rekstri eiga enga stoð í raunveruleikanum.
Í bréfi sem Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar hf. hefur sent hluthöfum segir fullyrðingar Hönnu Katrínar Friðrikssonar atvinnuvegaráðherra um fjárfestingar sjávarútvegsins í óskyldum rekstri eiga enga stoð í raunveruleikanum.
Kallar hann eftir málefnalegri umræðu um sjávarútveg. „Gífuryrði, brigslyrði og fúkyrðaflaumur skilar engu og er engum til framdráttar,“ segir hann í bréfinu sem birt hefur verið á vef Síldarvinnslunnar.
„Einhverra hluta vegna kjósa ráðamenn að fara fram með vanhugsaðar og illa útfærðar tillögur um skattahækkanir sem ekki þola skoðun, í stað rökstuðnings og gagna. Farið er fram með rangar staðhæfingar um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og fjárfestingar þeirra gerðar tortryggilegar. Má til dæmis nefna fullyrðingu atvinnuvegaráðherra nýverið um 100 milljarða fjárfestingar sjávarútvegs í óskyldum atvinnurekstri.“
„Það væri því gott ef þeir sem hæst hafa um sjávarútveg gætu nefnt dæmi máli sínu til stuðnings og bent á hvar þessar fjárfestingar í óskyldum rekstri upp á hundruð milljarða eru.“
Gunnþór rekur fjárfestingar Síldarvinnslunnar í bréfinu og segir frá því að félagið hafi á undanförnum ellefu árum fjárfest fyrir 79,8 milljarða króna í nýjum skipum, verksmiðjum, eldi og búnaði og tækjum vegna veiða og vinnslu. Fjárfestingar sem ekki tengjast starfsemi félagsins á sama tíma voru 200 milljónir króna og runnu til verkefna í nærsamfélaginu í Fjarðabyggð.
Umræddar 200 milljónir fóru að mestu í verkefni sem hafa þurft fjármagn til að komast á laggirnar og eru eignarhlutir Síldarvinnslunnar í fjárfestingafélaginu Vör sem félagið á 60% á móti 40% Byggðastofnunar.
„Í gegnum þetta félag á Síldarvinnslan um 50% í fasteignafélaginu Miðás sem byggði húsnæði netaverkstæðis í Neskaupstað í samstarfi við Hampiðjuna en það er jafnframt stærsta fjárfestingin af þessum 200 milljónum króna. Þá má nefna fjárfestingu í Hótel Hildibrand í Neskaupstað. Þegar sá eignarhlutur var seldur keypti Síldarvinnslan jörðina Fannardal með það að markmiði að kolefnisjafna rekstur félagsins með trjárækt,“ segir í bréfinu.
„Fullyrðingar um stórfelldar fjárfestingar í ótengdum rekstri eiga sér því enga stoð í raunveruleikanum. Góð ár hafa verið nýtt til fjárfestinga í innviðum, öðrum félögum í sambærilegum rekstri og aflaheimildum. Þegar Síldarvinnslan hefur fjárfest í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum hefur það gerst í einhverjum tilvikum að með í kaupunum hafa fylgt kennitölur og félög en í langflestum tilvikum tengist starfsemi þeirra uppbyggingu í nærsamfélagi viðkomandi sjávarútvegsfyrirtækis með einum eða öðrum hætti,“ segir Gunnþór.
Rifjar Gunnþór upp að á þeim um tveimur áratugum sem hann hafi leitt félagið hafi aðeins ein fjárfesting átt sér stað í ótengdum rekstri. Var það árið 2011 eftir að óskað var eftir því að Síldarvinnslan tæki þátt í kaupum á hlut Seðlabanka Íslands í Sjóvá.
„Fjárfest var fyrir 1,4 milljarða króna og síðan fyrir 84 milljónir króna þremur árum síðar. Áður en Síldarvinnslan var skráð á almennan hlutabréfamarkað vorið 2021 voru hlutabréf félagsins í Sjóvá afhent hluthöfum enda var ekki talið rétt að Síldarvinnslan ætti við þær aðstæður eignarhluti í félögum í óskyldum rekstri. En í millitíðinni höfðu kaupin fengist til baka í formi arðgreiðslna.“
Þá bendir Gunnþór á að Síldarvinnslan hafi hagnast um 70 milljarða króna frá árinu 2014 og fjárfest fyrir 80 milljarða.
„Umræddar fjárfestingar hafa verið fjármagnaðar með hagnaði félagsins, 70 milljörðum króna, auknu hlutafé upp á 13,8 milljarða króna og með lántökum upp á 11,8 milljarða króna. Á sama tímabili nemur greiddur arður um 22 milljörðum króna en beinar tekjur hins opinbera af starfseminni, svokallað samfélagsspor, nemur 65 milljörðum króna. Samfélagssporið er því tæplega þreföld fjárhæð greidds arðs á tímabilinu.“
Á undanförnum ellefu árum hefur Síldarvinnslan fjárfest fyrir um 19 milljarða króna í skipunum Beiti, Barða og Börk. Verðmæti Barkar á núvirði er um 8,6 milljarðar króna.
„Þessi skip hafa stuðlað að aukinni verðmætasköpun, bæði hvað varðar meðferð afla og getu til að nýta heimildir, auk þess sem kolefnisspor þeirra er mun lægra en eldri skipa. Ávinningur af fjárfestingum hefur því bæði skilað sér í arðbærari og umhverfisvænni rekstri,“ segir Gunnþór.
Þá endurnýjaði dótturfélagið Bergur-Huginn ehf. togara sína í Vestmannaeyjum, Vestmannaey og Berg VE. Frystitogarinn Blængur var keyptur af Ögurvík og umtalsverðir fjármunir settir í að uppfæra hann.
Þá hefur frá árinu 2014 verið fjárfest fyrir 14,6 milljarða í fasteignum og tækjum.
„Hér vegur þyngst fjárfesting í aukinni afkastagetu og endurnýjun fiskmjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað. Þar var meðal annars sett upp lítil próteinverksmiðja sem hugsuð er til manneldisvinnslu, aukinnar verðmætasköpunar og orkusparnaðar. Þá var eldri verksmiðjan einnig endurnýjuð að stærstu leyti. Uppsjávarvinnslan var stækkuð og afkastageta hennar aukin með fjárfestingu í hrognavinnslu, flökunarvélum og pökkunarlínu. Allar þessar fjárfestingar eru þess eðlis að þær auka verðmæti og framleiðni Síldarvinnslunnar og spara orku.“
Fram kemur að Síldarvinnslan hafi mest fjárfest í aflaheimildum, fyrir um 31,8 milljarða króna. Hefur félagið keypt uppistöðuna af sínum aflaheimildum „en ekki fengið þær gefins eins og oft er gefið til kynna í umræðunni.“
Félögin sem Síldarvinnslan hefur fjárfest í eru Bergur-Huginn ehf. og Bergur ehf. í Vestmannaeyjum en unnið er að samruna þeirra. Eitt skip félaganna var selt en gera þau samanlagt út tvö skip.
„Þegar öndvegishjónin Guðrún og Ágúst í Stálskipum ákváðu að hætta rekstri voru hluti veiðiheimilda Stálskipa í íslenskri lögsögu keyptar af félaginu. Þess má geta að Stálskip hafði sjálft keypt stærstan hluta sinna veiðiheimilda á sínum tíma,“ segir í bréfi Gunnþórs.
Þá var Gullberg ehf. á Seyðisfirði keypt ásamt Brimbergi sem rak frystihús, en félögin runnu inn í Síldarvinnsluna. Frystihúsinu var lokað í fyrra „enda vinnslan ekki samkeppnisfær. Umtalsverða fjárfestingu hefði þurft til að reka vinnsluna áfram og þar sem hún er staðsett á hættusvæði var slík fjárfesting ekki talin forsvaranleg.“
Þá var keyptur meirihluti í Runólfi Hallfreðssyni ehf. á Akranesi og nú síðast fest kaup á öllu hlutafé í Vísi hf. í Grindavík, en hluti kaupverðs var greiddur með útgáfu nýs hlutafjár í Síldarvinnslunni.
Þá var sumarið 2022 fest kaup á 34% hluti í laxeldisfélaginu Arctic Fish á Vestfjörðum fyrir 14,4 milljarða króna.
„Okkur þótti þetta áhugaverð fjárfesting enda var það spennandi tækifæri að koma að uppbyggingu og verðmætasköpun í fiskeldi sem er vaxandi atvinnugrein hér á landi og mun verða leiðandi í auknum útflutningstekjum, verðmætasköpun og lífskjarasókn á komandi árum, ef vel tekst til.“
Gunnþór kveðst vona að upplýsingarnar um fjárfestingar Síldarvinnslunnar sýni svart á hvítu að rekstur félagsins hafi fyrst og fremst snúist um að efla það sem sjávarútvegsfyrirtæki.
„Það væri því gott ef þeir sem hæst hafa um sjávarútveg gætu nefnt dæmi máli sínu til stuðnings og bent á hvar þessar fjárfestingar í óskyldum rekstri upp á hundruð milljarða eru. Að þessu sögðu er hins vegar mikilvægt að árétta að það er jákvætt að arðgreiðslur til hluthafa Síldarvinnslunnar hafi leitað til fjárfestinga víða í íslensku atvinnulífi. Sú staðreynd er bara ótengd því máli sem hér er til umfjöllunar.“