Enn eru merki um að kvika streymi úr Svartsengi inn í nýja kvikuganginn á Reykjanesskaga sem teygir sig um 20 kílómetra frá bæjarmörkum Grindavíkur og í átt að Reykjanesbrautinni og höfuðborgarsvæðinu.
Enn eru merki um að kvika streymi úr Svartsengi inn í nýja kvikuganginn á Reykjanesskaga sem teygir sig um 20 kílómetra frá bæjarmörkum Grindavíkur og í átt að Reykjanesbrautinni og höfuðborgarsvæðinu.
Enn eru merki um að kvika streymi úr Svartsengi inn í nýja kvikuganginn á Reykjanesskaga sem teygir sig um 20 kílómetra frá bæjarmörkum Grindavíkur og í átt að Reykjanesbrautinni og höfuðborgarsvæðinu.
Ekki er útilokað að önnur gossprunga opnist á kvikuganginum. Það verður þó sífellt ólíklegra eftir því sem skjálftavirknin dvínar og aflögun minnkar.
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.
Aðeins hluti kvikunnar sem hljóp úr geymsluhólfinu undir Svartsengi í gær fann sér leið upp á yfirborð í gegnum gossprunguna sem opnaðist norðan Grindavíkur og á Sundhnúkagígaröðinni.
Kvikan leitaði í meiri mæli undir yfirborðinu til norðurs og ruddi kvikugang sem talinn er telja 20 kílómetra að lengd. Kom það vísindamönnum á óvart hve norðarlega hún fór, að sögn Benedikts.
Skjálftahrina sem hefur staðið yfir frá því í gær er talin sýna legu kvikugangsins en samkvæmt því eru aðeins þrír kílómetrar sem skilja að enda kvikugangsins og Reykjanesbrautina. Þá eru jafnframt tæpir ellefu kílómetrar frá enda kvikugangsins og að Hafnarfirði. Enn styttra er svo vegalengdin á milli Voga og kvikugangsins, eða rúmir sex kílómetrar.
Benedikt Gunnar segir nokkra kílómetra liggja niður á kvikuganginn og ólíklegt að kvikan nái til yfirborðs. Flæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi fari minnkandi og þar með líkurnar á eldgosi.
Jarðvísindamenn bíða nú frekari gagna, m.a. InSar-mynda úr gervitunglum, til að geta greint betur hvernig kvikugangurinn liggur og á hve miklu dýpi hann sé.
Við myndun kvikugangsins í gær og í dag gliðnaði landið og sitt hvorum megin við gliðnunina mældist landris, þar á meðal við Voga.
Benedikt segir mun á því landrisi og landrisi sem mælist vegna kvikusöfnunar, eins og í Svartsengi. Aflögunin vegna gliðnunarinnar fari nú minnkandi.
Hann segir atburðinn í gær ekkert í líkingu við þann sem varð 10. nóvember þegar 10 kílómetra langur kvikugangur er talinn hafa myndast. Þó svo að kvikugangurinn sem myndaðist síðasta sólarhring hafi verið lengri, þá hafi magn kvikunnar verið minna.
Síðast hafi aflögun í Grindavík og nágrenni verið mæld í metrum en nú séu sprungurnar sem mynduðust í Grindavík til að mynda aðeins nokkrir sentimetrar.