Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur á fundum erlendis upplifað óformlegan þrýsting á að Íslendingar leggi meira af mörkum til öryggis- og varnarmála en nú er gert.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur á fundum erlendis upplifað óformlegan þrýsting á að Íslendingar leggi meira af mörkum til öryggis- og varnarmála en nú er gert.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur á fundum erlendis upplifað óformlegan þrýsting á að Íslendingar leggi meira af mörkum til öryggis- og varnarmála en nú er gert.
Nú síðast á fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins (NATO) Í Brussel sem lauk í dag.
„Þetta er bara kurteisi, þetta kemur fram í óformlegum samtölum, en þetta verður snúnara fyrir okkur á næstu misserum,“ segir Þorgerður í samtali við mbl.is.
„En ég er búin að benda þeim á að við erum að auka núna á næstu misserum til varnar- og öryggismála, það er mesta aukningin hlutfallslega á þessu kjörtímabili. Við erum að gera meira og ætlum að finna út úr því að gera enn meira,“ segir hún jafnframt.
Íslendingar verja nú um 0,14 prósent af vergri landsframleiðslu til varnarmála, en viðmiðið fyrir NATO-ríki hefur hingað til verið um 2 prósent. Flest ríki innan NATO hafa þó verið að auka hlutfallið.
„Við þurfum skoða mjög vel hvað við getum gert til að við verðum þessi verðugi og áreiðanlegi bandamaður, sem er reiðubúinn með landið okkar eins og á öryggissvæðinu í Keflavík. Við erum að bæta og efla allar aðstæður og aðbúnað fyrir flugsveitir,“ segir Þorgerður.
Hún vísar til þess að við séum að fá Tékka, Belga og Spánverja til að sinna loftrýmisgæslu hér á landi. Það kosti þau lönd mikla fjármuni að koma hingað með flugflota, en á móti leggjum við í þessa uppbyggingu og þjónustu.
„Við erum að gera ýmislegt fleira, við erum að taka í ríkara mæli á móti kjarnorkuknúnum kafbátum frá Bandaríkjunum og ætlum að sjá hvernig hægt er að sinna þeim enn betur. Allt svona telur,“ segir Þorgerður.
„En við vitum það í stóra samhenginu þá eru öll önnur ríki, líka ríki sem eru lítil eins og Lúxemborg, þau eru að nálgast tvö prósenta markið. Á meðan aðrar þjóðir eru hættar að tala um tvö prósent, þær eru í kringum þrjú, fjögur og fimm prósent.“
Þá leggja Bandaríkin um 3,3 prósent af vergri landsframleiðslu til varnarmála en Þorgerður segir ljóst að flestir ætli að gera meira.
„Ekki bara út af þrýstingi frá Bandaríkjunum heldur líka út af raunsæju hættumati vegna Rússa og annarra ógna, hvort sem þær stafa frá Íran, Norður-Kóreu eða öðrum löndum. Og þessum fjölþátta ógnum sem Evrópa eins og aðrar heimsálfur standa frammi fyrir.“
Þorgerður vill ekki fara mikið út í það hvernig þrýstingurinn á Ísland birtist, enda komi hann oft fram í persónulegum samtölum.
„Það er ekki síst dýnamíkin í svona fundum. Það sem maður sér og skiptir máli er snertingarnar, kaffipásurnar, samtölin sem maður á á milli funda, sem gefa okkur hvað mest.“
Hún segir að það sé svo mikilvægt þegar heim sé komið að hafa símanúmer og geta hringt í fólk og leitað ráða eða aðstoðar eða boðið fram aðstoð.
„Mér finnst ekki síst krafturinn í svona fundum felast í óformlegum samtölum,“ segir Þorgerður. En þrýstingurinn er þarna, þó hann sé kurteislegur og óformlegur.
„Maður finnur þetta. Þetta er ekki fyrsti fundurinn sem ég fæ að heyra þetta,“ segir hún og heldur áfram:
„En burtséð frá okkur Íslendingum þá sýnir þetta þungan og alvöruna í því að Evrópa er að taka til hjá sér sjálfri og gera sjálfa sig þannig úr garði að hún geti staðið gegn þeim ógnum sem að okkur steðja, hvort sem það er frá Rússlandi eða óvinveittum ríkjum sem vilja grafa undan lýðræði og frelsi og þeim þjóðum sem tala fyrir mannréttindum.
Það er eitt og annað að verða fyrir þessari kerskni, en hún undirstrikar alvöruna í heimsmálunum í dag.“
Spurð hvort hún hafi upplifað þrýsting frá Norðurlöndunum í þessum efnum vill hún ekki endilega meina það.
„Það sem er að koma inn í þetta, sem breytist ekki, er að landfræðileg lega landsins okkar er gríðarlega mikilvæg og áhrifamikil fyrir Norður-Ameríku og Evrópu. Það er okkar stærsta spil, hvar við erum og hvernig við höfum byggt upp okkar innviði og þekkingu.“
Þá segir Þorgerður gríðarlega jákvætt hvað allir flokkar á Alþingi hafi tekið vel í að vinna hratt varnar- og öryggisstefnu, og það skipti máli á erlendum fundum að geta grein frá því að verið sé að móta slíka stefnu.
„Það er mikilvægt merki fyrir landið okkar og sýnir að við erum að taka þessu alvarlega.“