Afnám samsköttunar hjóna og sambýlisfólks milli skattþrepa er ekki „dulbúin skattahækkun“ heldur einfaldlega bara skattahækkun að mati endurskoðanda. Skattar á fjölskyldur geta hækkað um allt að 425 þúsund krónur á ári.
Afnám samsköttunar hjóna og sambýlisfólks milli skattþrepa er ekki „dulbúin skattahækkun“ heldur einfaldlega bara skattahækkun að mati endurskoðanda. Skattar á fjölskyldur geta hækkað um allt að 425 þúsund krónur á ári.
Afnám samsköttunar hjóna og sambýlisfólks milli skattþrepa er ekki „dulbúin skattahækkun“ heldur einfaldlega bara skattahækkun að mati endurskoðanda. Skattar á fjölskyldur geta hækkað um allt að 425 þúsund krónur á ári.
Mikið hefur verið rætt og ritað um áform ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um að afnema samsköttun eftir að Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á málinu í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í síðustu viku.
„Þetta er ekki dulbúin skattahækkun, þetta er einfaldlega skattahækkun. Punktur,“ segir Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun & ráðgjöf í samtali við mbl.is.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur haldið því fram að ekki sé hægt að tala um að afnám samsköttunar séu „álögur á almenning.“
Eymundur segir að afnám samsköttunar hefði mismunandi áhrif hjá sambýlisfólki. Í sumum tilfellum, þar sem sambýlisfólk er með jafnhá laun, hefur afnámið engin áhrif. En í mesta lagi gæti þetta þýtt skattahækkun upp á 425 þúsund króna hjá sambýlisfólki á ári.
Slíkt væri tilfellið ef annar makinn er með um 1.900 þúsund krónur eða meira í laun á mánuði fyrir skatt eða hærri og hinn makinn með engin laun.
„Þegar mikill launamunur er á milli sambýlisfólks, þá breytir þetta miklu. Ef tekjur eru jafnar breytir þetta ekki neinu,“ segir Eymundur.
Gísli Már Gíslason hagfræðingur gerði reiknivél ásamt hópi manna sem reiknar út hvernig afnám samsköttunar gæti haft áhrif á fólk. Hann gerði þessa reiknivél ásamt nokkrum félögum og mbl.is bað Eymund um að athuga hvort að reiknivélin stemmdi.
Uppfært klukkan 02.53
Eymundur sagði upphaflega að reiknivélin stemmdi en í leiðréttingu til mbl.is þá segir hann að það vanti í reiknivélina uppá leiðréttingu gagnvart 4.tl. 66.greinar laga um tekjuskatt. Það valdi því að reiknivélin ofmeti áhrif afnáms samsköttunar.
„Sem er þannig að hærri launaði sambúðaraðilinn nýtir aldrei meira en 50% af hátekjufrádrætti hins aðilans,“ segir Eymundur og bætir við að reiknivélin miði við tekjuskattsstofn, sem sagt laun mínus lífeyrissjóður.
Reiknivélin gefur því ekki rétta mynd af því hversu há skattahækkunin gæti verið.
Kristján Ingi Mikaelsson, stjórnarformaður Rafmyntaráðs og meðstjórnandi Visku Digital Assets, er einn af þeim sem eru á bak við reiknivélina og hann segir að ástæðan fyrir því að hún var gerð hafi verið vegna skorts á svörum frá fjármálaráðuneytinu á því hvernig afnám samsköttunar myndi hafa áhrif á fjölskyldur.
„Það voru engin gögn og maður vissi ekkert hvernig maður myndi lenda í þessu. Það var talað þannig að almenningur myndi ekki lenda í þessu en um leið og við fórum að reikna þetta þá kom í ljós að þetta snertir fullt af fólki,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.
mbl.is bað Eymund um að reikna ýmisleg dæmi til þess að sjá hvort og hvernig afnám samsköttunar gæti haft áhrif á sambýlisfólk og hjón.
„Þetta snýst um það þegar annar aðilinn er kominn í hátekjuskattsþrepið eða yfir 1.325 þúsund krónur á mánuði. Þegar svo er komið nýtir hærri launaði aðilinn 50% af „miðjuþrepi“ hins aðilans,“ segir Eymundur.
Sú nýting getur hæst numið um 425 þúsund á ári. Ef báðir aðilar eru undir hátekjumörkum hefur nýting samsköttunar hátekjuþrepsins engin áhrif, að sögn Eymundar.
Skattþrepin eru þrjú. Lægsta þrepið reiknast af launum lægri en 470 þúsund og er 31,5%. Miðjuþrepið er af launum sem eru frá 470 þúsund upp í 1.325 þúsund og er 38%. Af launum yfir 1.325 þúsund og yfir reiknast 46,3% skattur.
„Samsköttunin virkar þannig að ef við gefum okkur að annar aðilinn sé með 600 þúsund króna stofn til útreiknings tekjuskatt og útsvars á mánuði og hinn 1.800 þúsund, þá nýtir „hærri“ aðilinn 50% af ónýttu skattþrep hjá hinum aðilanum frá 600 þúsund upp í 1.325 þúsund. Eða af 362 þúsund á mánuði og það sinnum 8,3%, sem eru um 30 þúsund krónur á mánuði og munar um minna. Þetta er mjög algengt,“ segir Eymundur.
Eymundur segir að lokum að þetta sé ekki endilega skattalegt dæmi í hans huga, heldur sé samsköttun ein af stoðunum í samfélaginu sem hlúi að fjölskyldum í landinu.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Guðrún Hafsteinsdóttir tókust á um samsköttun á þinginu í gær og í síðustu viku um málið. Í gær sagði Daði að breytingin hefði einungis áhrif á efsta hluta tekjudreifingarinnar.
Ekki væri hægt að tala um álögur á almenning.
„Það er varla hægt að halda því fram að hér sé um álögur á almenning að ræða og vil ég síðan rifja upp með háttvirtum þingmanni að fyrir liggur bæði fjármálastefna og fjármálaáætlun sem sýnir að hlutfall tekna ríkisins af vergri landsframleiðslu fellur samfellt allt tímabil fjármálaáætlunar. Það eru ekki skattahækkanir,“ sagði Daði.
Leiðrétt klukkan 02.53
Eymundur segir í leiðréttingu til mbl.is að í fljótfærni hafi hann gert mistök við útreikning á hversu mikil áhrif afnám samsköttunar gæti haft. Það hafi verið vegna þess að ekki var tekið tillit til 4.tl. 66.greinar laga um tekjuskatt. Hann segir að sama gildi um reiknivélina.
„Sé tekjuskattsstofn annars samskattaðs aðila hærri en 11.125.045 kr. skal það sem umfram er skattlagt með [23,05%] skatthlutfalli allt að helmingi þeirrar fjárhæðar sem tekjuskattsstofn þess tekjulægri er undir 11.125.045 kr., þó reiknast [23,05%] 2) skatthlutfall aldrei af hærri fjárhæð en 3.581.173 kr. við þessar aðstæður,“ segir í lögunum.
Gróflega áætlað þá hafi þetta áhrif á þá sem eru í hátekjuþrepinu og að nýting snúist um að hærra launaði aðilinn geti nýtt 50% af ónýttu hátekjuþrepi hins aðilans.
„Þótt að þetta sé ekki eins háar fjárhæðir og ég hélt í fyrstu, er þetta engu að síður veruleg atlaga að „millistéttinni“ í landinu,“ segir Eymundur.