Hæstiréttur Bandaríkjanna ætlar að leyfa Trump-stjórninni að reiða sig á stríðslög frá 18. öld til að vísa Venesúelamönnum úr landi – eða að minnsta kosti í bili.
Hæstiréttur Bandaríkjanna ætlar að leyfa Trump-stjórninni að reiða sig á stríðslög frá 18. öld til að vísa Venesúelamönnum úr landi – eða að minnsta kosti í bili.
Hæstiréttur Bandaríkjanna ætlar að leyfa Trump-stjórninni að reiða sig á stríðslög frá 18. öld til að vísa Venesúelamönnum úr landi – eða að minnsta kosti í bili.
Hæstiréttur Bandaríkjanna hindraði einnig í dag tímabundið dómaraskipun sem hefði gert stjórnvöldum að senda hinn salvadorska Kilmar Abrego Garcia aftur til Bandaríkjanna. Dómsmálaráðuneytið hefur viðurkennt að honum hafi verið ranglega vísað úr landi.
Hinn 29 ára Abrego Garcia bjó í Maryland-ríki og var giftur bandarískum ríkisborgara. Hann var ásamt 200 öðrum sendur í alræmt fangelsi í El Salvador í mars án málsmeðferðar, með vísan til laga sem hafa sjaldan verið notuð.
Í mars studdist Donald Trump Bandaríkjaforseti við stríðslög frá árinu 1798 til að ráðast í umfangsmikla aðgerð til að vísa óskrásettum innflytjendum úr landi. Lögin hafa aðeins verið notuð þrisvar áður, síðast í annarri heimstyrjöld.
Lögin kveða á um að þegar Bandaríkin eru í stríði eða að verja af sér innrás sé yfirvöldum heimilt að handsama og/eða senda úr landi „alla íbúa, borgara eða þegna óvinaþjóðarinnar sem eru 14 ára og eldri“ án málsmeðferðar.
Þegar upp komst um áform Trumps lagði alríkisdómari í Washington fljótt fram tímabundna skipun sem bannaði ríkisstjórninni að notast við löggjöfina. Trump-stjórnin óhlýðnaðist þeirri skipun en hefur nú áfrýjað málinu til Hæstaréttar, sem er að megni skipaður íhaldsmönnum og hefur nú fallist á beiðni Trumps.
Og því fær Trump leyfi frá Hæstarétti til að halda þessum brottvísunum áfram, en Hæstiréttur ítrekar þó að innflytjendurnir eigi rétt á málsmeðferð.
Paula Xinis héraðsdómari í Maryland gaf einnig skipun á föstudag um að Abrego Garcia ætti að vera sendur aftur til Bandaríkjanna fyrir miðnætti aðfaranótt sunnudags, eftir að lögmenn dómsmálaráðuneytisins viðurkenndu að honum hefði verið brottvísað vegna „villu“.
Áfrýjunardómur tók einróma undir ákvörðun Xinis. Harvie Wilkinson, dómari sem var skipaður af repúblikananum Ronald Reagen, skrifaði jafnvel: „Það er ekki spurning að ríkisstjórnin klúðraði hérna.“
Trump-stjórnin bað þó um að fá að áfrýja því til hæstaréttar, þar sem íhaldsmenn eru í meirihluta. John G. Roberts yngri, forseti hæstaréttar, lagði þar fram skipun um að setja málið á ís til þess að gefa hæstaréttardómurum rými til að taka ákvörðun.
Auk þess bað Roberts lögmann Salvadorans um að leggja fram rökstuðning fyrir sínu máli fyrir klukkan fimm að staðartíma á morgun, þriðjudag.
John Sauer varadómsmálaráðherra skrifaði í áfrýjunarbeiðnina að héraðsdómarinn hafi farið út fyrir valdasvið sitt.
Lögmenn Abrego Garcia voru á öðru máli og segja í bréfi skjólstæðing sinn „sitja í erlendu fangelsi einvörðungu að beiðni bandarískra stjórnvalda, sem er afleiðing kafkaískra mistaka,“ segir hann og vísar þar til tékkneska rithöfundarins Franz Kafka.
Lögmennirnir segja enn fremur:
„Skipun héraðsdómsins sem gerir ríkisstjórninni að greiða veg fyrir endurkomu Abrego Garcia er alvanaleg. Hún vísar ekki til nokkurrar utanríkisstefnu eða jafnvel innflytjandastefnu að neinu leyti.“
Fréttin hefur verið uppfærð með nýjum upplýsingum eftir að niðurstaða Hæstaréttar í máli dómarans úr Washington lá fyrir.