„Landrisið byrjaði hraðar núna en eftir síðustu gos en mér sýnist vera að hægja á því eins og er sem betur fer.“
„Landrisið byrjaði hraðar núna en eftir síðustu gos en mér sýnist vera að hægja á því eins og er sem betur fer.“
„Landrisið byrjaði hraðar núna en eftir síðustu gos en mér sýnist vera að hægja á því eins og er sem betur fer.“
Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í samtali við mbl.is en skýr merki eru um að landris haldi áfram undir Svartsengi eftir gosið á Sundhnúkagígaröðinni þann 1. apríl sem stóð yfir í um sex klukkustundir. Það var áttunda eldgosið frá því goshrinan þar hófst í desember 2023.
Þorvaldur segir erfitt að meta landrisið á þessum tímapunkti en svo virðist vera að það sé að draga úr því.
„Kannski var þetta bara einhver mjög hröð byrjun og svo jafnar þetta sig og heldur sama dampinum eða það hægist enn frekar á því,“ segir hann.
Spurður hvort vænta sé fleiri atburða á Sundhnúkagígaröðinni segir hann:
„Ef landris heldur áfram, og ég tala nú ekki um að það verði hraðara en hefur verið, þá myndi ég telja að það endaði með einum eða fleiri atburðum í viðbót.“
Þorvaldur segir að þótt eldgosið 1. apríl hafi verið lítið og aðeins staðið yfir í nokkrar klukkustundir þá hafi atburðurinn verið mjög stór en kvikugangurinn sem myndaðist var sá stærsti síðan í nóvember 2023. Samkvæmt líkanreikningum fóru um 30 milljón rúmmetrar af kviku úr kvikuhólfinu undir Svartsengi og yfir í kvikuganginn.
„Skjálftavirknin var mikil sem og spennulosun og það getur vel verið að þetta hafi sett kerfið úr jafnvægi. Ef við horfum yfir árið þá hefur landrisið verið að hægja á sér jafnt og þétt á milli atburða. Ef það heldur áfram þá fer þessu að ljúka,“ segir hann.
Þorvaldur segir að það verði að bíða og sjá hvernig landrisið þróist á næstu dögum og eftir það sé hægt að meta hver atburðarásin verði í næstu framtíð.
„Þessi mikla spennulosun sem varð getur opnað leiðir fyrir kviku til að komast upp á yfirborðið en það þarf tvennt til. Kvikan þarf að vera í þannig stöðu að hún sé tilbúin að komast upp til yfirborðs og síðan þurfa að vera leiðir fyrir kvikuna að komast upp,“ segir Þorvaldur og heldur áfram:
„Það er ákveðin óvissa í kerfinu hvað framhaldið varðar og við verðum að horfa á þróunina til að átta okkur á því. Þetta gæti verið búið á Sundhnúkareininni og að virknin færi sig yfir á næstu gosreinar eins og Trölladyngju, Krýsuvík eða út á Reykjanesið. En hvert hún fer eða hvenær er ekki hægt spá fyrir um í augnablikinu. Við gætum alveg fengið góða pásu ef þetta stoppar sem væri óskandi.“