Heldur virðist vera að draga úr landrisi undir Svartsengi að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, fagstjóra aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, en fyrstu dagana eftir gosið á Sundhnúkagígaröðinni, sem stóð yfir í um sex klukkustundir þann 1. apríl, var landrisið miklu hraðara en eftir síðustu gos á gígaröðinni.
„Landrisið hefur verið að mælast töluvert meira eftir gosið en fyrir það og hækkunin hefur verið um 70 millimetrar þar sem hún hefur verið mest á þessari rúmri viku,“ segir Benedikt við mbl.is.
Benedikt segir vísbendingar séu um að það sé tekið að hægja á landrisinu en erfitt sé að meta stöðuna fyrr en eftir nokkrar vikur. Hann segir að dregið hafi úr skjálftavirkni á svæðinu en þó séu að mælast einstaka skjálftar.
„Við viljum ekki vera að setja upp neinar sviðsmyndir fyrr en við sjáum hvernig þetta þróast á næstu vikum. Það er óvissuástand þótt ýmsar vísbendingar hafi verið um að það sé farið að síga á seinni hlutann á þessum atburðum. Það þýðir ekki endilega að það komi ekki fleiri gos en við erum kannski ekki að búast við því að þetta haldi áfram eins og þetta er búið að gera síðasta árið,“ segir hann.
Hann segir að eins og hraðinn sé á landrisinu núna taki ekki nema nokkrar vikur fyrir kvikuhólfið að fyllast en ef það hægir á því, eins og vísbendingar eru um, þá taki það lengri tíma.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni í vikunni kom fram að miðað við þau gögn sem liggja fyrir er ljóst að innflæði kviku undir Svartsengi haldi áfram og því sé atburðarásinni á Sundhnúkagígaröðinni ekki lokið.
„Á meðan kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi eru líkur á endurteknum kvikuhlaupum og jafnvel eldgosum,“ sagði enn fremur í tilkynningunni.