Samfylkingin á að þjóna þjóðinni allri, ekki aðeins því sem flokknum hentar best, hún á að horfa til hagsmuna þjóðarinnar í heild frekar en sérhagsmuna.
Samfylkingin á að þjóna þjóðinni allri, ekki aðeins því sem flokknum hentar best, hún á að horfa til hagsmuna þjóðarinnar í heild frekar en sérhagsmuna.
Þetta má heita kjarninn í stefnuræðu Kristrúnar Frostadóttir, nýendurkjörins formanns Samfylkingarinnar, á landsfundi flokksins á laugardag.
„Við berum rauða rós og fána Íslands til áminningar um það hverjum við þjónum – ekki sjálfum okkur heldur Íslandi og öllum þeim sem hér búa, vinnandi fólki, hvar sem það skipar sér í flokk í leik og starfi,“ sagði forsætisráðherra þegar hún ávarpaði flokksfélaga sína.
„Við erum ekki klúbbur um einkahagsmuni eða einkaáhugamál flokksfélaga. Við erum og verðum alltaf að vera Samfylking í þjónustu þjóðar.“
Hrist upp í kerfinu
Kristrún sagði fyrstu hundrað daga nýrrar ríkisstjórnar hafa markað tímamót, en að brýnasta verkefnið væri að „hrista upp í kerfinu“ með afgerandi aðgerðum og ábyrgri forgangsröðun.
Hún gaf til kynna að helstu velferðarverkefni ríkisstjórnarinnar væru þegar komin í framkvæmd, þó að vísu ætti eftir að afgreiða þau á Alþingi. Þar á meðal er lögfesting þess að lífeyrir eldri borgara og öryrkja fylgi launaþróun, nýtt örorkukerfi með auknum hvötum til virkni og fjármögnuð þjónusta fyrir fjölskyldur barna með flókinn vanda, óháð búsetu.
Stöðugleiki og athafnir
Í efnahagsmálum kvaðst Kristrún leggja áherslu á stöðugleika og ábyrgð. Hún sagði verðbólgu og vexti lækka og vísaði til þess að stöðugleikaregla yrði lögfest og tekjur ríkisins auknar. Þá boðaði hún skýra stefnu í auðlindamálum, þar sem ný lög um sjókvíaeldi og orkugjafa tryggðu tímabundinn nýtingarrétt og sanngjörn gjöld til ríkisins og nærsamfélaga.
„Við ætlum að byrja aftur að bora,“ sagði Kristrún við nokkurn fögnuð, þótt það væri ekki alveg slagorð á pari við „Drill baby, drill“ hjá Trump Bandaríkjaforseta. Hann átti enda við olíuleit, en Kristrún vísaði hins vegar til áforma um stórfellt átak í jarðgangagreftri og vegagerð. Þá nefndi hún að dreifingarkostnaður raforku yrði jafnaður til að bæta stöðu dreifbýlis.
Óbreytt Evrópuafstaða
Í málflutningi Kristrúnar kom fram skýr afstaða til Evrópumála: fyrir lok árs 2027 verði þjóðinni gefinn kostur á að kjósa um hvort hefja skuli aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB). Í pallborðsumræðu eftir stefnuræðuna vék hún raunar nánar að því og varaði við því að þeirri umræðu væri blandað saman við varnarmálaumræðuna. Aðild að ESB ætti ekki að vinna fylgi með ótta.
Hún ítrekaði mikilvægi trausts og samstöðu og hrósaði samstarfsflokkunum í ríkisstjórn, sem snerist um framtíðarsýn ekki síður en viðbrögð.
Loks hvatti hún flokksmenn til þess að halda áfram að vinna markvisst og af auðmýkt. „Við verðum dæmd af verkum okkar,“ sagði hún og varaði við að ef stjórnmálin misstu tengslin við fólkið gæti ysta hægrið nærst á vantrausti og vaxandi óánægju.
„Við erum sterkari saman,“ sagði Kristrún í lok ræðu sinnar og endurómaði kjörorð landsfundarins.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.