Frans páfi færði kaþólsku kirkjuna meira inn í nútímann, þó hann hefði mátt ganga lengra. Hann var kjarkmikill og horfði á heiminn með augum þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu.
Frans páfi færði kaþólsku kirkjuna meira inn í nútímann, þó hann hefði mátt ganga lengra. Hann var kjarkmikill og horfði á heiminn með augum þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu.
Frans páfi færði kaþólsku kirkjuna meira inn í nútímann, þó hann hefði mátt ganga lengra. Hann var kjarkmikill og horfði á heiminn með augum þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu.
Þetta segir Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, í samtali við mbl.is.
Frans páfi lést í morgun 88 ára að aldri. Guðrún segir að Frans hafi verið einlægur, sannur og þjónandi leiðtogi.
„Ég held að hann hafi skipt ákaflega miklu máli fyrir kaþólsku kirkjuna og innan kaþólsku kirkjunnar vegna þess að hann lifði fábrotnu lífi, hann barst ekki á og honum tókst að horfa á heiminn með augum okkar minnstu systkina. Þeim sem minnst mega sín í samfélaginu,“ segir Guðrún.
Frans páfi var sýnilegur og hafði kjark til að ávarpa erfið málefni, þrátt fyrir að ef til vill væru ekki allir innan kaþólsku kirkjunnar sammála honum, að sögn Guðrúnar.
Frans páfi talaði til dæmis fyrir því að samkynhneigð pör ættu rétt á því að vera í staðfestri samvist.
„Þetta eru börn Guðs, þau eiga rétt á fjölskyldu,“ sagði hann árið 2020 en auk þess lagði hann áherslu á að veita konum fleiri ábyrgðarhlutverk innan kaþólsku kirkjunnar.
„Ég hef tekið eftir því að í hvert sinn sem kona fær ábyrgðarstöðu í Vatíkaninu þá batna hlutirnir,“ sagði hann árið 2022.
Finnst þér hann hafa að einhverju leyti fært kaþólsku kirkjuna meira í nútímann?
„Já, ég held að það sé ekki spurning. Að mínu mati lyfti hann konum ekki nægilega upp innan kaþólsku kirkjunnar því þær geta ekki enn orðið prestar, en hann gerði þó heilmikið þegar kom að konum og hann fékk konur í mörg mikilvæg embætti undanfarin ár. Það má alveg gefa honum það,“ segir Guðrún og bætir við:
„Það er líka stórt að páfinn skuli lyfta upp hinsegin fólki.“
Hún segir eitt af því sem hafi verið einkennandi fyrir páfann hafi verið það að hann lagði sitt af mörkum í samtali lútersku og kaþólsku kirkjunnar, sem hafi kristallast á fundum kirkjuleiðtoganna í Svíþjóð á 500 ára afmæli siðbótarinnar.
„Hann var leiðtogi samtals,“ segir Guðrún og útskýrir að á fundinum hafi verið undirritað samkomulag á milli Lúterska heimssambandsins og Caritas, hjálparsamtaka kaþólsku kirkjunnar. Kirkjurnar hafa í kjölfarið verið í samstarfi í hjálparstarfi og þróunaraðstoð.
„Ég vona innilega að kaþólsku kirkjunni beri gæfa til að velja leiðtoga sem er verðugur að feta í hans fótspor,“ segir Guðrún.