Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur vel mögulegt að atburðirnir á Sundhnúkagígaröðinni séu að fjara út.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur vel mögulegt að atburðirnir á Sundhnúkagígaröðinni séu að fjara út.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur vel mögulegt að atburðirnir á Sundhnúkagígaröðinni séu að fjara út.
Áttunda eldgosið frá því goshrinan hófst við Sundhnúkagígaröðina í desember 2023 hófst 1. apríl síðastliðinn en því lauk aðeins um sex klukkustundum síðar.
Þorvaldur segir að landrisið sé á svipuðu róli og fyrir síðasta gos og segir áhugavert að sjá skjálftavirknina sem er enn í gangi. Hann telur að um spennulosun sé að ræða.
„Miðað við þær tölur sem við höfum þá hefur verið að draga úr innflæðinu frá dýpra geymsluhólfinu í það grynnra jafnt og þétt, þótt það hafi ekki verið jafnhratt og áður, og við erum komin að þeim mörkum að það gæti alveg slokknað á þessu og að kerfið nái ekki að viðhalda sér,“ segir Þorvaldur við mbl.is.
Hann segir að ekki sé hægt að útiloka að það komi annað gos með svipuðum hætti og var 1. apríl.
„Það gæti þá orðið það síðasta en mér finnst þetta vera í rólegheitunum að fjara út. Það kæmi mér ekkert á óvart ef það hægði enn frekar á landrisinu og að þetta lognist út af. Það þarf litlar breytingar til að slökkva alveg á þessu,“ segir hann.
Þorvaldur segir að komi annað gos þá sé það ekkert að fara að koma alveg strax.
„Miðað við þetta innflæði þá myndi ég reikna með því á miðju sumri, einhvern tímann í júlí eða í byrjun ágúst en ég tel meiri líkur á að þessu sé að ljúka,“ segir hann.