„Tollarnir sem settir voru á að hálfu stjórnvalda Bandaríkjanna er enginn heimsendir fyrir okkur, þó að þetta muni hafa einhver áhrif á fyrirtækin og hagkerfið okkar,“ segir Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í greiningu Íslandsbanka, spurð álits á tollastefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
„Auðvitað hefur þetta áhrif á alheimshagkerfið og við erum hluti af því, en sem betur fer erum við ekki í meiri viðskiptum við Bandaríkin en þetta, varðandi útflutning á vörum.“
Það er mat Bergþóru að mesta áhyggjuefnið fyrir Ísland til lengri tíma varði ferðaþjónustu, sem er ein af helstu útflutningsgreinum okkar. Ef áhrifin á bandarískt hagkerfi verða mikil segir hún líklegt að Bandaríkjamenn haldi að sér höndum og minnki ferðalög.
Íslenski hlutabréfamarkaðurinn tók mikla dýfu
Bergþóra segist telja Ísland koma vel út miðað við stöðuna í dag – 10% tollur á útflutningsvörur til Bandaríkjanna – og við séum í talsvert skárri stöðu en mörg önnur lönd, Noregur sé t.d. með 15% tolla og Evrópusambandið með 20% tolla.
„Mögulega tekst öðrum löndum að lækka sína tolla eftir að þau fengu 90 daga frest, en miðað við þetta erum við í rauninni í frekar góðri stöðu, þó að íslenski hlutabréfamarkaðurinn hafi tekið mikla dýfu við fréttirnar og að okkar mati meiri dýfu en tilefni var til.“
Hvað meinarðu með því?
„Þetta hafði svolítið mikil áhrif á hlutabréfamarkaðinn hér á landi en líklega er það óvissan og ógnin um óbein áhrif tollana sem hafði sitt að segja á markaðinum, sem sveiflaðist jafnvel meira en í löndum sem fengu hærri tolla.“
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur í greiningu Íslandsbanka, segir ferðaþjónustu mesta áhyggjuefnið til lengri tíma hvað varðar tollastefnu Bandaríkjanna.
Ljósmynd/Aðsend
Einn af hverjum fjórum ferðamönnum eru Ameríkanar
Bergþóra segir mesta áhyggjuefni Íslendinga til lengri tíma vera ferðaþjónustu landsins – „sem hefur óbein áhrif út um allt hagkerfið“.
„Einn af hverjum fjórum ferðamönnum sem koma til Íslands er Bandaríkjamaður. Hvernig þetta fer með bandarískt hagkerfi er það sem við höfum áhyggjur af til lengri tíma. Á óvissutímum á fólk það til að halda að sér höndum, og sleppa þá utanlandsferðum.
Ef Bandaríkjamenn sleppa því að fara til útlanda, sleppa því að koma til Íslands, hefur það óbein áhrif á hagkerfið okkar. Ferðaþjónustan er þegar að fá smá skell, hún er í það minnsta ekki að vaxa eins hratt og verið hefur.“
Nú hefur ferðaþjónustan vaxið töluvert síðustu 15 árin. Heldurðu að hagkerfið megi við því að hún fái smá skell?
„Hún er í dag orðin ein af helstu útflutningsgreinum okkar en ég held að hún geti alveg fengið þennan skell á sig, hún sannaði það svolítið í covid, en þetta er mjög stór hluti af ferðamönnum okkar.
Sem betur fer koma þeir margir frá hærri stéttum Bandaríkjanna, það er auðvitað rosalega dýrt að ferðast og dvelja á Íslandi, og þessar breytingar í Bandaríkjunum hafa minni áhrif á tekjumeira fólk – það finnur minna fyrir þeim en hinn almenni borgari, sem er jákvætt fyrir íslenska ferðaþjónustu.“
Þannig segir hún ólíklegt að Bandaríkjamenn hætti að koma til Íslands en þeim muni örugglega fækka, miðað við stöðuna í dag.
Tollar settir á lyf og lækningavörur
Miðað við tölur frá 2024 fara um 12% af vöruútflutningi Íslands til Bandaríkjanna. Í því samhengi segir Bergþóra tollastefnu Trumps ekki munu hafa stór áhrif á íslenskt hagkerfi.
„Þetta er ekki meira en 12% af vöruútflutningi okkar. Auðvitað er þetta 10% tollur en önnur lönd eru með hærri tolla, við erum í samkeppni við Noreg um fiskinn t.d. Þannig að eins og við horfum á þetta komum við bara ágætlega út úr þessu eins og staðan er í dag.“
Hún tekur þó fram að talist geti áhyggjuefni að lyf og lækningavörur hafi til að byrja með ekki verið teknar með í tolla Trumps en hann hafi skipt um skoðun og muni nú setja tolla á þær vörur.
„Við flytjum mest af fiski til Bandaríkjanna en næst á eftir honum eru lyf og lækningavörur. Alvotech, Oculus, Kerecis og fleiri fyrirtæki gætu lent í einhverju veseni en þau bera sig samt sem áður þokkalega og við verðum bara að bíða og sjá hvað verður. Ef staðan verður óbreytt þegar tollar koma á mun þetta auðvitað hafa einhver áhrif á íslenskt hagkerfi en áhrifin verða sérstaklega á þessi fyrirtæki sem reiða sig mikið á bandarískan markað.“
„Lítil eyja sem þurfi enga aukatolla“
„Í stóra samhenginu mun þetta ekki hafa nein svakaleg áhrif – 10% tollur á útflutningsvörur. Versta útkoman yrði ef við lentum í tollastríði á milli einhverra landa.“
Heldurðu að við séum að horfa fram á það?
„Nei, ég held ekki. Ríkisstjórnin hefur verið í samskiptum við önnur lönd sem við eigum í viðskiptum við, einmitt um að lenda ekki í einhverju tollastríði og að alþjóðaviðskipti milli annarra landa séu hrein.“
Þá segir hún ekkert útlit vera fyrir að Ísland sé á leiðinni í tollastríð við Bandaríkin með því að hækka tolla á móti.
„Mér heyrist það ekki vera inni í myndinni, sem betur fer, ég held að það yrði aldrei jákvætt fyrir íslenskt hagkerfi.
Það væri aðallega ef Evrópusambandið setur á einhverja tolla og við lendum í þeim tollum. En ég veit að það er alltaf verið að minna á okkur, þó að við séum ekki í Evrópusambandinu, að við séum bara lítil eyja sem þurfi enga auka tolla.“