Samkomulagið, sem var undirritað í Washington í fyrrakvöld, felur í sér að Bandaríkin og Úkraína setji á fót sérstakan fjárfestingarsjóð, sem nýta á til að þróa og tryggja nýtingu ýmissa auðlinda sem liggja í jörð í Úkraínu, þar á meðal eru ýmsir sjaldgæfir jarðmálmar sem skipta nú sífellt meira máli við framleiðslu á ýmsum hátæknivörum. Verður sjóðurinn í helmingseigu hvors ríkis, en fyrri drög gáfu Bandaríkjamönnum úrslitavald í meðferð sjóðsins.
Selenskí tók fram að samkomulagið hefði tekið miklum breytingum í viðræðum ríkjanna tveggja, en í fyrstu samningsdrögum sem Bandaríkjamenn lögðu fram var m.a. kveðið á um að meginhluti alls ágóða af auðlindunum ætti að renna til Bandaríkjanna og væri það hugsað sem endurgreiðsla fyrir þá hernaðaraðstoð sem Bandaríkjamenn hefðu þegar veitt Úkraínu.
Engin slík tenging er í samkomulaginu sem undirritað var og ekki er minnst á að Úkraínumenn skuldi Bandaríkjunum fyrir veitta aðstoð. Leiðtogar Úkraínumanna sögðu samkomulagið í raun frekar greiða leiðina fyrir frekari hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum, þar sem mögulegt væri að nýta ágóðann af auðlindunum til þess að greiða fyrir þau hergögn sem send yrðu í framtíðinni.
Denís Smíhal forsætisráðherra Úkraínu sagði að ríkin tvö væru ásátt um að allur hagnaður af auðlindunum fyrstu tíu árin yrði nýttur til uppbyggingar í Úkraínu. Ekki var það þó nefnt í samkomulaginu sjálfu, en enn á eftir að semja um ýmsa viðauka við samkomulagið.
Trump Bandaríkjaforseti sagði í fyrrakvöld að samkomulagið gæfi Bandaríkjunum færi á að fá til baka mun meira en andvirði þeirra hergagna sem ríkisstjórn Bidens fyrirrennara hans hefði sent.
Harðari tónn í garð Rússa
Það vakti einnig sérstaka athygli að í tilkynningu Bandaríkjastjórnar um samkomulagið var sleginn harðari tónn í garð Rússlands en hún hefur gert undanfarna mánuði. Í samkomulaginu er talað um allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu, en bandarískir embættismenn hafa síðustu vikur forðast að lýsa innrásinni með þeim hætti, þar sem óttast var að það myndi styggja Rússa sem myndu hverfa frá friðarviðræðunum.
Þá var sérstaklega tekið fram í tilkynningu bandaríska fjármálaráðuneytisins að samkomulag ríkjanna útilokaði að nokkurt ríki eða einstaklingur sem komið hefði að innrásinni gæti hagnast á endurreisn Úkraínu.
Þó að samkomulagið sé einkum og aðallega kennt við hina sjaldgæfu jarðmálma í Úkraínu nær það einnig til olíu- og jarðgasframleiðslu landsins. Hins vegar er tekið sérstaklega fram að auðlindirnar séu áfram í eigu úkraínsku þjóðarinnar. Úkraínumenn höfðu áður hafnað því að olíu- og jarðgasiðnaður þeirra myndi falla undir samkomulagið.
Þá er í samkomulaginu sérstaklega tekið fram að Bandaríkin taki tillit til vilja Úkraínumanna til að ganga í Evrópusambandið og að samkomulagið komi ekki í veg fyrir að þær óskir verði að veruleika, en áhyggjuraddir höfðu heyrst í Úkraínu um að samkomulag sem gæfi Bandaríkjamönnum forgang að auðlindum landsins gæti tálmað Evrópusambandsdrauma Úkraínumanna.
Þannig er sérstakt ákvæði um að hægt verði að endursemja um viss ákvæði þess, kalli aðild Úkraínumanna að ESB á endurskoðun samkomulagsins. Þá munu Bandaríkjamenn styðja við aukna fjárfestingu í Úkraínu, þar á meðal frá ríkjum Evrópu.
Jákvætt skref fyrir Úkraínu
Robert Murrett, aðstoðarforstjóri öryggisstefnu- og lagastofnunar Syracuse-háskólans, sagði við AFP-fréttastofuna í gær að of snemmt væri að fullyrða hversu vel samkomulagið gæti tryggt öryggi Úkraínu, þar sem því fylgdi ekki sérstök varnarskylda af hálfu Bandaríkjamanna.
Það yrði þó að líta á það sem jákvætt að Bandaríkin hefðu nú efnahagslega hagsmuni af velsæld Úkraínu, en Murrett sagði það einnig segja ákveðna sögu að Kremlverjar væru „mjög, mjög óánægðir með samkomulagið“.
Gracelin Baskaran, yfirmaður auðlindaverkefnis varnarmálahugveitunnar CSIS, benti sömuleiðis á að hið harða orðfæri samkomulagsins gagnvart Rússum kæmi mjög á óvart, sér í lagi í ljósi þess að fyrri tilraun ríkjanna til undirritunar á því fór út um þúfur á frægum fundi Selenskís í Hvíta húsinu í lok febrúar. Sagði Baskaran samkomulagið gefa vonir um endurreisn Úkraínu eftir stríð til lengri tíma litið, og að til skemmri tíma veitti það Trump-stjórninni leið til þess að styðja Úkraínu. „Þetta er mjög mikil breyting frá stöðunni fyrir 60 dögum,“ sagði Baskaran.