Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins segir engar líkur á því að sérfræðingar í fjölmenningarsamfélögum geti leyst stöðuna sem upp er komin á Keflavíkurflugvelli.
Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins segir engar líkur á því að sérfræðingar í fjölmenningarsamfélögum geti leyst stöðuna sem upp er komin á Keflavíkurflugvelli.
Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins segir engar líkur á því að sérfræðingar í fjölmenningarsamfélögum geti leyst stöðuna sem upp er komin á Keflavíkurflugvelli.
Hópur erlendra leigubílstjóra tók yfir kaffiskúr leigubílstjóra í eigu Isavia og hefur hann verið notaður undir trúariðkun múslima. Forsvarsmenn Isavia sögðu í samtali við Morgunblaðið að þeir myndu ráðfæra sig við sérfræðinga í fjölmenningarsamfélögum vegna málsins.
„Mig grunar að það sé hluti af rót vandans frekar en líkleg lausn á þeirri stöðu sem uppi er,“ segir Bergþór sem er gestur í nýjasta þætti Dagmála ásamt Diljá Mist Einarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, þar sem farið er yfir útlendingamálin í víðum skilningi.
Varðandi málið á Keflavíkurflugvelli segir Bergþór að þetta sé „partur af stærri mynd sem hefur verið að teiknast upp frá 2022 þegar lögum um leigubílaakstur var breytt“.
Hann segir engan vera ánægðan með þær breytingar, hvorki þeir sem vilja meira frelsi á markaðnum né þeir sem vilja fara aftur í fyrra horf.
Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, sagði í samtali við Morgunblaðið í síðustu viku að Isavia myndi bregðast við kaffiskúrsmálinu, meðal annars með því að ræða við sérfræðinga í fjölmenningarsamfélögum.
„Við erum að skoða það að ræða við aðila sem eru sérfróðir í fjölmenningarsamfélögum til að fá leiðsögn um hvað rétt er. Vegna þess að við viljum auðvitað að öllum líði vel sem eru að stunda atvinnustarfsemi á svæðinu okkar, óháð trú eða uppruna,“ sagði Guðmundur.
Spurður hvort að þetta muni leysa ástandið segir Bergþór:
„Ég tel engar líkur á því.“
Bergþór segir fréttir af kaffiskúrnum, sem hann lýsir sem „sjálftöku bænhúsi“, vera ótrúlegar þó þær komi ekki endilega á óvart miðað við þróun leigubílamála á Keflavíkurflugvelli.
„Það gengur ekki það ástand sem hefur verið viðvarandi þarna. Maður hefur fylgst með því úr fjarska þar sem menn hafa veigrað sér við því að taka á málum á leigubílasvæðinu, sem því miður verður ekki lýst með neinum öðrum hætti en þarna hafi verið hálfgert stríðsástand um nokkra hríð. Það er bæði slæmt fyrir ásýnd Íslands, slæmt fyrir leigubílstjórana sem sinntu þessari þjónustu áður, leigubílstjórana sem eru með allt sitt á hreinu sem eru af erlendu bergi brotnir sem eru þarna sömuleiðis. Þeir fá á sig slæma ímynd og umtal vegna þessa,“ segir Bergþór.
Hann segir að á svæðinu séu svartir sauðir sem Isavia hafi ekki þorað að taka á.
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að nálgast viðtalið við Bergþór og Diljá í heild sinni.