Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að aukið líf hafi færst í bæinn eftir að síðasta eldgosi lauk á Sundhnúkagígaröðinni þann 1. apríl en það var áttunda gosið frá því goshrinan hófst þar í desember 2023.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að aukið líf hafi færst í bæinn eftir að síðasta eldgosi lauk á Sundhnúkagígaröðinni þann 1. apríl en það var áttunda gosið frá því goshrinan hófst þar í desember 2023.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir að aukið líf hafi færst í bæinn eftir að síðasta eldgosi lauk á Sundhnúkagígaröðinni þann 1. apríl en það var áttunda gosið frá því goshrinan hófst þar í desember 2023.
Fannar segir að hljóðið í fólki sé mismunandi eftir aðstæðum þess og beðið sé eftir því að veitt verði heimild til þess að gista með formlegum hætti í þeim húsum þar sem gerðir hafa verið svokallaðir hollvinasamningar.
„Það hefur verið þrýst á að það verði heimilt fyrir þetta fólk að fá að gista á eigin ábyrgð enda eru þetta Grindvíkingar sem þekkja vel til staðhátta og rýminga en hingað til hefur ekki verið tekið af skarið með það,“ segir Fannar við mbl.is.
Fannar segir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum banni það ekki að fólk sem á húsnæði gisti í bænum en þegar um sé að ræða hollvinasamninga sem fólk hafi gert við fasteignafélagið Þórkötlu þá sé það tekið fram að gisting sé óheimil.
Hann segir að að jafnaði sé gist í 40 til 50 húsum og hafi sú tala lítið breyst síðustu mánuðina.
„Eftir að síðasta gosi lauk hefur verið töluverð umferð í bænum. Það hafa margir komið á golfvöllinn og nú er verið að undirbúa fótboltavöllinn. Þá er búið að taka íþróttahúsið út og það er komið aftur í notkun,“ segir Fannar.
Fannar segir að það sé hugur í ferðaþjónustuaðilum að undirbúa frekari ferðamannastraum inn í bæinn og þá sé heilmikil atvinnustarfsemi í bænum.
„En svo vitum við ekki með framhaldið á þessum atburðum. Það er landris í gangi sem kann að enda með eldgosi eins og við þekkjum svo vel. Ef það væri búið að lýsa yfir goshléi, og ég tala nú ekki um goslok, þá væri staðan allt önnur og það myndi lifna mjög fljótt yfir bænum,“ segir hann.