Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar, segist fylgjandi því að gjald, sambærilegt veiðigjaldinu, verði tekið af notkun annarra náttúruauðlinda.
Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar, segist fylgjandi því að gjald, sambærilegt veiðigjaldinu, verði tekið af notkun annarra náttúruauðlinda.
Grímur Grímsson, þingmaður Viðreisnar, segist fylgjandi því að gjald, sambærilegt veiðigjaldinu, verði tekið af notkun annarra náttúruauðlinda.
Á Alþingi í dag sagði Grímur að veiðigjöld væru ekki aðeins fjárhagsleg tæki, heldur líka „siðferðisleg yfirlýsing“.
Jafnframt talaði hann um að þjóðin standi frammi fyrir einni af mikilvægustu spurningum samtímans: „Hvernig tryggjum við að auðlindir þjóðarinnar séu nýttar á réttlátan og sjálfbæran hátt í þágu alls samfélagsins?“
Spurður hvort þetta þýði að hann sé fylgjandi sambærilegri gjaldtöku af öðrum auðlindum en fiski segir Grímur í samtali við mbl.is:
„Já, ég ætla að svara því játandi. Mér finnst að það eigi að gera upp með sambærilegum og viðeigandi hætti.“
Spurður hvaða atvinnuvegir ættu að sæta gjaldtöku vegna notkunar á auðlindum segir Grímur að það þurfi að skoða.
„Ég held að það sé eitthvað sem leggjast þurfi yfir, hvernig við skilgreinum sameign þjóðarinnar sem ætti að vera undir þeim hatti að tekin sé af henni auðlindagjöld.“
Spurður hvort hann sé fylgjandi því að auðlindagjald sé tekið af ferðaþjónustu í landinu líkt og Samfylkingin hafði meðal annars lagt áherslu á í kosningabaráttu sinni í vetur segir Grímur:
„Ég held að ég fari rétt með það að það sé í stjórnarsáttmálanum að taka einhverskonar gjald af tilteknum ferðamannastöðum og að það sé þá gjald sem væri notað til að byggja upp innviði á þeim stöðum, og ég er fylgjandi því. Þetta er bara í grunninn þannig að sá sem notar greiðir fyrir.“
Að lokum kveðst Grímur nokkuð sáttur með umræðuna um veiðigjöld sem hefur átt sér stað á Alþingi í dag og í gær en hann telur flesta sammála um að það eigi að koma afgjald til þjóðarinnar vegna nýtingu auðlinda, spurningin sé hins vegar hvernig það sé útfært.
„Auðvitað eru þetta töluverðar upphrópanir en mér finnst þetta hinsvegar alveg málefnaleg umræða. Það er bara dálítill ágreiningur um það hvernig þessum málum verður best fyrir komið og það er kannski bara dálítil pólitík hvernig niðurstaðan í því verður.“