Sjónvarpsþáttaröðin Bless bless Blesi (e. Death of a horse), sem framleidd er af íslenska framleiðslufyrirtækinu ACT4, er fyrsta leikna þáttaröð RÚV í samstarfinu New8.
Sjónvarpsþáttaröðin Bless bless Blesi (e. Death of a horse), sem framleidd er af íslenska framleiðslufyrirtækinu ACT4, er fyrsta leikna þáttaröð RÚV í samstarfinu New8.
Sjónvarpsþáttaröðin Bless bless Blesi (e. Death of a horse), sem framleidd er af íslenska framleiðslufyrirtækinu ACT4, er fyrsta leikna þáttaröð RÚV í samstarfinu New8.
Frá þessu var greint á sjónvarpshátíðinni Series Mania í Lille nú á dögunum þar sem New8-verkefni ársins 2026 voru kynnt.
New8 er samstarf allra norrænu sjónvarpsstöðvanna, DR, SVT, NRK, YLE, RÚV auk ZDF í Þýskalandi, NPO í Hollandi og VRT í Belgíu. New8-samstarfið, sem hófst formlega árið 2024, er byggt á samvinnu sjónvarpsstöðvanna, trausti og vilja til þess að vinna saman og þar með deila menningu og sögum sem talið er að eigi erindi til áhorfenda allra stöðva. Á hverju ári eru það því átta evrópskar sjónvarpsþáttaraðir sem sameiginlega eru keyptar og sýndar á öllum stöðvum. Búið er að framleiða fyrstu þáttaraðirnar og eru þær að koma í hús hjá sjónvarpsstöðvunum ein af annarri.
RÚV tekur þátt í framleiðslu á einni íslenskri þáttaröð, annað hvert ár.
„Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi og okkur fannst mikilvægt að fyrsta verkefnið okkar uppfyllti þær kröfur sem New8 byggir á, þ.e. spennandi saga sem er með alþjóðlegum blæ, með sterkar rætur í íslenskum veruleika. Þessi saga lýtur glæpasagnaforminu, þó að vissulega telji menn sig geta deilt um hvort framið hafi verið morð eða ekki. Sagan er svo einstök að við teljum hana eiga eftir að fara vel í alþjóðlega áhorfendur og svo er íslenski hesturinn og eiginleikar hans dáðir um heim allan. Teymið á bak við ACT 4 er mjög sterkt og við hlökkum til að deila Blesa með NEW8-stöðvunum og öðrum sem slegist hafa í hópinn við að framleiða þessa frábæru þáttaröð.“ segir Margrét Jónasdóttir, dagskrárstjóri RÚV.
Þáttaröðin er hugarfóstur handritateymisins Birkis Blæs Ingólfssonar og Jónasar Margeirs Ingólfssonar. Á síðastliðnum árum hafa þeir komið að skrifum og þróun á mörgum vinsælustu sjónvarpsþáttaröðum Íslands, t.a.m. Ráðherranum 1 og 2, Ísalögum (e. Thin Ice), Stellu Blómkvist 2 og Svo lengi sem við lifum. Nú síðast komu þeir að þróun, skrifum og framleiðslu á Reykjavík Fusion fyrir félagið ACT4 ásamt Herði Rúnarssyni og Ólafi Darra Ólafssyni, en þáttaröðin var frumsýnd á Cannes Series í síðustu viku.
„Við í ACT4 erum í skýjunum með að verkefnið sé valið inn í New8-samstarfið. Það er mikill gæðastimpill fyrir okkur. Eins og allir vita sem til þekkja er íslenski hestaheimurinn fullur af mögnuðum sögum og þó að þetta sé skálduð þáttaröð þá er hún innblásin af alls konar sönnum sögum,“ segir Birkir Blær Ingólfsson, höfundur og þróunarstjóri ACT4. „Við hefjum tökur í sumar og stefnum á að gera út frá Hólum í Hjaltadal og hlökkum mikið til að koma íslenskri hestamennsku og íslenska hestinum upp á skjáinn.“
Bless bless Blesi fjallar um keppnisknapann Auð sem mætir á Landsmót hestamanna með stóðhestinn Blesa. Þeir sýna snilldartakta og Blesi er sigurstranglegasta hrossið í A-flokki gæðinga fyrir lokaumferðina. En að morgni keppnisdagsins finnst Blesi dauður í hesthúsinu. Lögreglan í sveitinni neitar að rannsaka málið enda ekki um morð að ræða þegar hestur er drepinn. Auður ákveður upp á eigin spýtur að rannsaka samfélag íslenskra keppnishestamanna í leit að hrossamorðingjanum.