„Þetta eru svik við kerfið. Þetta eru svik við samstarfsfólk sem vinnur af heilindum innan kerfisins við að vinna að mikilvægum verkefnum í þágu samfélagsins alls og þetta eru svik við allan almenning,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
„Þetta eru svik við kerfið. Þetta eru svik við samstarfsfólk sem vinnur af heilindum innan kerfisins við að vinna að mikilvægum verkefnum í þágu samfélagsins alls og þetta eru svik við allan almenning,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
„Þetta eru svik við kerfið. Þetta eru svik við samstarfsfólk sem vinnur af heilindum innan kerfisins við að vinna að mikilvægum verkefnum í þágu samfélagsins alls og þetta eru svik við allan almenning,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi þar sem Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði ráðherra út í afstöðu hans til gagnastuldar frá embætti sérstaks ríkissaksóknara.
Ingibjörg sagði að nýlegar fréttir af því hvernig fyrirtækið PPP komst yfir trúnaðargögn og hleranir í tengslum við rannsóknir sérstaks saksóknara og seldi upplýsingar og þjónustu til einkaaðila væru mikið áfall. Það hefði áhrif á traust þjóðarinnar á lögreglu og í raun réttarkerfið allt.
„Sterkar vísbendingar eru um að hér sé um alvarlegt lögbrot að ræða en ég tek þó skýrt fram að eflaust eiga fleiri upplýsingar eftir að koma upp á yfirborðið. En þjóðin gerir eðlilega skýra kröfu um að réttarkerfið sé heiðarlegt og að traust til þess sé varðveitt,“ sagði hún og spurði ráðherra hver afstaða hennar væri til málsins.
„Telur ráðherra að þetta mál sé vísbending um að íslenskt samfélag sé að þróast í þá átt að persónuvernd, réttaröryggi og traust til lögreglu sé í hættu?“
Þorbjörg Sigríður þakkaði Ingibjörgu fyrir fyrirspurnina og sagði að málið hefði verið til umfjöllunar á RÚV í gærkvöldi.
„Ég lít þetta mál mjög alvarlegum augum. Ég lít á þetta sem svik af hálfu þeirra sem að þessum málum stóðu, svik við það fólk sem um ræðir. Þetta eru svik við kerfið, þetta eru svik við samstarfsfólk sem vinnur af heilindum innan kerfisins að vinna að mikilvægum verkefnum í þágu samfélagsins alls og þetta eru svik við allan almenning,“ sagði Þorbjörg Sigríður.
Hún bætti við að heildarmyndin lægi ekki alveg ljós fyrir en nægilega mikið væri vitað til að geta sagt þetta.
„Mitt verkefni sem dómsmálaráðherra er auðvitað fyrst og fremst að vera með hugann við það alla daga að tryggja öryggi fólksins í landinu. Það varðar líka að við tryggjum öryggi upplýsinga um fólk. Og mitt verkefni er að verja og tryggja traust almennings til réttarkerfisins. Það sorglega við svona mál er að þegar eitthvað af þessum toga kemur upp þá er það kerfið allt sem tekur reikninginn, kerfið tekur allt reikninginn,“ sagði hún.
Þá sagði ráðherra það blasa við að þarna væru gögn komin í hendur þar sem ættu ekki að vera og þau virtust hafa verið hagnýtt þessu til viðbótar.
„Ég vil árétta að málið er til skoðunar hjá nefnd um eftirlit með lögreglu og það er til skoðunar hjá embætti ríkissaksóknara. Það eru þær stofnanir sem fara með málið sem stendur en afstaða mín er algjörlega skýr um alvarleika málsins.“
Ingibjörg sagði að það væri gott að heyra þetta því að hér væri ekki aðeins um að ræða alvarlegan trúnaðarbrest hjá opinberum starfsmönnum, núverandi og fyrrverandi lögreglumönnum, heldur einnig einmitt vísbendingar um kerfisbundna misnotkun valds og brot á friðhelgi einkalífs borgaranna.
„Gögnin voru ekki aðeins viðkvæm, þau voru hleranir, ljósmyndir og upptökur sem voru notaðar gegn einstaklingum sem höfðu ekkert gert annað en að nýta lögformleg réttindi sín til að sækja mál eða verja sig fyrir dómstólum. Þannig að viðbrögð yfirvalda hafa verið skref í rétta átt en traust þjóðarinnar er vissulega laskað,“ sagði Ingibjörg.
Hún spurði ráðherra hvort hann teldi nauðsynlegt að Alþingi fengi ítarlegar upplýsingar um stöðu málsins og um þau áform innan framkvæmdarvaldsins sem ráðherra hefði til að tryggja gagnsæi og réttaröryggi svo koma mætti í veg fyrir slíkt endurtæki sig í framtíðinni.
Þorbjörg Sigríður sagði að hún teldi að ráðherrar og ríkisstjórnin öll, Alþingi allt, ættu alltaf að vera með hugann við það að persónuleg gögn og upplýsingar sem opinberar stofnanir væru með undir höndum væru tryggar.
„Þetta kannski undirstrikar líka mikilvægt hlutverk fjölmiðla þegar svona mál kemur upp en mér finnst skipta máli að það hefur mikil vinna átt sér stað innan lögreglu og innan réttarkerfisins síðan þessi mál voru til rannsóknar. Ríkislögreglustjóri lýsti því ágætlega í greinargóðu viðtali í gær. Það hafa verið byggðar upp varnir gagnvart svona. Hins vegar er það auðvitað bara staðreynd í málinu að á meðan fólk vinnur í kerfunum okkar erum við alltaf útsett fyrir ákveðinni hættu. Okkar verkefni er að lágmarka líkurnar á því að nokkuð svona geti hent og að sýna það í verki núna eftir að málið er upp komið að það verði tekið föstum tökum af hálfu þeirra stofnana sem taka þetta mál til skoðunar og meta það svo í kjölfarið hvað við gerum,“ sagði ráðherra.