Forseti Alþingis: „Það er alvanalegt“

Alþingi | 9. maí 2025

Forseti Alþingis: „Það er alvanalegt“

„Það er alvanalegt að fulltrúar meirihluta nefndar fundi sérstaklega um þau mál sem eru á dagskrá í nefndinni og minni hlutans líka þegar þeir ákveða að gera það.“

Forseti Alþingis: „Það er alvanalegt“

Alþingi | 9. maí 2025

Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, baðst forláts á því að hafa …
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, baðst forláts á því að hafa byggt orð sín á þingfundi á ónákvæmum upplýsingum. Skjáskot/althingi.is

„Það er al­vana­legt að full­trú­ar meiri­hluta nefnd­ar fundi sér­stak­lega um þau mál sem eru á dag­skrá í nefnd­inni og minni hlut­ans líka þegar þeir ákveða að gera það.“

„Það er al­vana­legt að full­trú­ar meiri­hluta nefnd­ar fundi sér­stak­lega um þau mál sem eru á dag­skrá í nefnd­inni og minni hlut­ans líka þegar þeir ákveða að gera það.“

Þetta seg­ir Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir, for­seti Alþing­is, í sam­tali við mbl.is en til­efnið er umræða á Alþingi í gær sem sneri að því hvort eða með hvaða hætti hið svo­kallaða PPP-mál hafi komið til kasta stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar Alþing­is.

Þór­unn sagði á þing­fundi í gær að hún hefði upp­lýs­ing­ar um að stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd hafi nú þegar rætt málið á sín­um fund­um.

Byggði orð sín á óná­kvæm­um upp­lýs­ing­um

Bryn­dís Har­alds­dótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks og stjórn­ar­maður í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd, sagðist ekki kann­ast við að málið hafi komið til kasta nefnd­ar­inn­ar.

Ása Berg­lind Hjálm­ars­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og stjórn­ar­maður í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd, upp­lýsti um að óform­leg sam­töl um málið hafi átt sér stað á milli nefnd­ar­manna.

Í kjöl­farið hafi meiri­hlut­inn í nefnd­inni ákveðið að funda um málið óform­lega og ræði í kjöl­farið við formann nefnd­ar­inn­ar um það hvernig nefnd­in hygg­ist beita sér.

Þór­unn kvað sér þá hljóðs á ný og upp­lýsti um að hún hefði byggt orð sín á óná­kvæm­um upp­lýs­ing­um og baðst for­láts á því.

Sagðist hún full­viss að stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd muni setja málið á dag­skrá.

Oftúlkaði umræðuna

Seg­ir hún það jafn­framt í hönd­um for­manns stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar að boða til fund­ar og ef það sé vilji til þess að fjalla um mál í nefnd sé það í hönd­um nefnd­ar­inn­ar.

„Það eru stans­laus sam­töl í gangi milli þing­manna, þing­menn að tala sam­an á skrif­stof­um sín­um eða á göng­un­um og ég hafði hrein­lega oftúlkað hvað var í gangi. Þetta voru ein­fald­lega sam­töl á milli þing­manna.“

Spurð hvort hluti stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar hafi verið að ræða málið sín á milli fram hjá öðrum nefnd­ar­mönn­um seg­ist Þór­unn ekki vita til þess en seg­ir þing­menn­ina sjálfa þurfa að svara fyr­ir það hvað hafi verið sagt og gert.

Það sé þó al­vana­legt að full­trú­ar meiri­hluta eða minni­hluta nefnd­ar fundi sér­stak­lega um þau mál sem á dag­skrá séu í nefnd­inni.

mbl.is