Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa verið ánægðan með að heyra frá leiðtogum ríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF) í gær.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa verið ánægðan með að heyra frá leiðtogum ríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF) í gær.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa verið ánægðan með að heyra frá leiðtogum ríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (JEF) í gær.
Í samtali við Trump hafi leiðtogarnir lagt áherslu á að draga þyrfti skýra línu í sandinn gagnvart Rússum og þrýsta á 30 daga vopnahlé.
Aðspurð segist hún ekki geta fullyrt að Trump muni framfylgja yfirlýsingu sinni um þvinganir, en að skilaboð forsetans um að Bandaríkin séu reiðubúin að beita viðskiptaþvingunum í slagtogi við aðra, séu ný.
Kristrún tók í dag þátt í leiðtogafundi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF – Joint Expeditionary Force) í Ósló. Í JEF-samstarfinu eru Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin, Bretland og Holland.
Umræður leiðtoganna á fundinum beindust meðal annars að stöðu öryggis- og varnarmála í Evrópu í tengslum við stríðið í Úkraínu. Þá var lögð sérstök áhersla á öryggis- og varnarmál í Norður-Atlantshafi og á Norðurskautssvæðinu.
Í færslu á Facebook í gær greindi Kristrún frá því að leiðtogarnir hefðu rætt símleiðis við bæði forseta Bandaríkjanna og Úkraínu.
Spurð nánar út í samtalið við Bandaríkjaforseta segir Kristrún:
„Við vorum þarna í sameiningu sem hópur að þrýsta á að hann [Donald Trump Bandaríkjaforseti] myndi tala fyrir 30 daga vopnahléi og líka leggja fram skýrar kröfur um að hann, í samhengi við fleiri lönd, myndi leggja á viðskiptaþvinganir ef Rússar myndu ekki gefa eftir.“
Hvernig tók hann í þetta?
„Hann var bara mjög jákvæður gagnvart því að eiga góð samskipti við þennan hóp ríkja og taldi auðvitað mikilvægt að við stæðum saman í þessum kröfum og var auðvitað ánægður að heyra frá okkur. Ég held að það hafi líka skipt máli að þarna kemur þrýstingur frá þessum ríkjum sem hann virðir í samtali við hann um að það þurfi að fara að draga mjög skýra línu í sandinn gagnvart Rússlandi. Allt svona hjálpar. Það er komin einhver hreyfing á þessa hluti miðað við skilaboð sem hafa birst frá Bandaríkjaforseta. Síðan verðum við auðvitað að sjá hvað Rússar gera.“
Á samfélagsmiðlinum Truth Social kallaði Trump í gær eftir óskilorðsbundnu 30 daga vopnahléi. „Ef vopnahléið verður ekki virt munu Bandaríkin og bandalagsríki beita frekari þvingunum,“ sagði Trump.
Trump hefur undanfarið ekki verið mjög stöðugur í málflutningi sínum þegar kemur að Úkraínu og Rússlandi, og hver afstaða hans er í því máli. Getum við treyst því að hann muni þrýsta á Rússa?
„Ég ætla nú ekki að gefa mér hver framtíðin verður í þessu samhengi en það liggur alveg fyrir að þetta eru ný skilaboð frá Bandaríkjaforseta varðandi viðskiptaþvinganir í samstarfi við bandalagsríki, þetta hefur ekki áður heyrst með þessu móti, það er að segja eins og hann kallaði það „partnership“ með öðrum bandalagsríkjum. Þetta er ákveðið skref sem er verið að stíga. Við þurfum að vona að það sé kominn aukinn þungi í þessar viðræður.“