„Það er nú bara þannig að þau hjá Janusi ákváðu sjálf að þau vildu frekar veita heilbrigðisþjónustu heldur en atvinnutengda starfsendurhæfingu. Þar með eru þau að færast frá okkur. Þau tóku þessa ákvörðun sjálf,“ segir Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK, í samtali við mbl.is.
„Það er nú bara þannig að þau hjá Janusi ákváðu sjálf að þau vildu frekar veita heilbrigðisþjónustu heldur en atvinnutengda starfsendurhæfingu. Þar með eru þau að færast frá okkur. Þau tóku þessa ákvörðun sjálf,“ segir Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK, í samtali við mbl.is.
„Það er nú bara þannig að þau hjá Janusi ákváðu sjálf að þau vildu frekar veita heilbrigðisþjónustu heldur en atvinnutengda starfsendurhæfingu. Þar með eru þau að færast frá okkur. Þau tóku þessa ákvörðun sjálf,“ segir Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK, í samtali við mbl.is.
Vísar hún þar til þess að samningslok milli úrræðanna um næstu mánaðamót hafi komið til vegna krafna forsvarsmanna Janusar.
Þá segir hún umfjöllun um lokun Janusar hafa verið heldur einhliða en þjónustuþegar, aðstandendur þeirra og annað fagfólk hafa lýst Janusi sem einstöku úrræði fyrir ungt fólk með taugaþroskaraskanir og lýst yfir miklum áhyggjum af afleiðingum lokunar úrræðisins og að ekkert sambærilegt standi hópnum til boða.
„Það eru ýmis sjónarhorn í þessu. Það er mikill vilji til að mæta þessum hópi annarsstaðar í heilbrigðiskerfinu. Heilbrigðisráðuneytið reyndi t.d. að bjóða Janusi ákveðna yfirtöku, það hafa allir verið að leggja sig fram.“
Vigdís segir rauða þráðinn í umræðu um málið hafa verið að talað sé um úrræði VIRK eins og það sé ekki fært um að veita einhverfum einstaklingum þjónustu. Það sé langt frá því að vera raunin.
„16% af þjónustuþegum Virk eru einhverfir, og við erum með 2.940 einstaklinga núna í þjónustu. Við höfum mjög mikla reynslu af því að þjónusta einhverft fólk og höfum skilning á þörfum þessa hóps. Ég er með faghóp og sérhæfða sálfræðinga sem sjá um að þróa þjónustuna þannig að hún henti þessum hópi,“ segir hún.
VIRK hafi verið með samninga við níu starfsendurhæfingarstöðvar um allt land og Janus sé ein af þeim.
„Þannig að það er ekki eins og það sé eitthvað ofboðslega mikið að fara frá okkur. Við erum með fullt af öðrum aðilum sem veita líka mög góða og heildstæða þjónustu. Dæmi um það á höfuðborgarsvæðinu eru Hringsjá og Starfsendurhæfing Hafnarfjarðar en svo erum við líka með stöðvar um allt land.“
Hvaðan telur þú viðbrögð þjónustuþega, aðstandenda og fagfólks koma, ef það eru fleiri, jafn góðir möguleikar fyrir hópinn?
„Janus hefur verið með samning við okkur en hefur líka verið að taka fleiri inn, ekki í gegnum okkur. Þetta er auðvitað mjög viðkvæmur hópur þannig að það er kannski ekkert skrítið að hann bregðist svona við. Allar breytingar geta verið erfiðar fyrir þennan hóp.
Það er þó ekki þannig að aðeins einn þjónustuaðili geti þjónustað þennan hóp. Það eru til fleiri úrræði. Við hjá VIRK munum leggja okkur fram við að gegna okkar hlutverki í þessu og ég veit að heilbrigðisráðuneytið hefur líka mikið verið að vinna í þessu öllu saman.“
Fram hefur komið að meirihluti þeirra sem notið hafa þjónustu Janusar muni fá þjónustu á vegum VIRK eftir lokun úrræðisins þann 1. júní. Spurð hvernig haldið verði utan um hópinn í kjölfar lokunar Janusar segir Vigdís að hverjum og einum verði boðin einstaklingsbundin þjónusta.
Sumir fari inn á aðrar starfsendurhæfingarstöðvar sem VIRK er með samninga við, eins og Hringsjá og Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar og aðrir fari til ráðgjafa VIRK og fái ýmis önnur úrræði við hæfi.
„Það er allur gangur eftir stöðu hvers og eins og þetta er alltaf gert í samráði við einstaklingana. Það er búið að bjóða öllum þeim sem hafa verið hjá Janusi í viðtal til okkar og mjög margir hafa mætt en einhverjir eiga eftir að koma.“
Nú hefur rík áhersla verið lögð á að hjá Janusi er allt sem hópurinn þarf undir einu þaki, það sé mikilvægt vegna þess að flestir þjónustuþegar séu að koma úr algjörri einangrun og vanvirkni og hafi ekki getu til að koma sér á milli staða til að sækja þjónustu. Telurðu VIRK geta mætt þeirri þörf?
„Þeim einstaklingum sem þurfa meira utanumhald erum við gjarnan að vísa inn í Hringsjá. Þar er dagleg þjónusta og þar koma margir fagaðilar að málunum. Það eina sem Hringsjá hefur ekki sem að Janus hefur haft er geðlæknir.“
Janusi hefur verið lýst sem geðendurhæfingu og VIRK sem atvinnutengdri starfsendurhæfingu. Telurðu VIRK geta veitt þá geðendurhæfingu sem hópurinn kallar eftir?
„Við erum að bjóða upp á sálfræðiþjónustu, iðjuþjálfun, sjálfsstyrkingu, félagsráðgjöf og margt fleira fyrir fólk með heilsubrest.
Við erum líka í samstarfi við geðdeildir Landspítalans og geðheilsuteymin, upp á það að þau taki á móti þeim einstaklingum sem hafa kannski ekki getu í atvinnutengda starfsendurhæfingu og þurfa meiri heilbrigðisþjónustu. Geðdeildir Landspítalans munu bjóða einhverjum einstaklingum upp á þjónustu, ef talið er að Virk sé ekki viðeigandi úrræði fyrir þá. En það eru miklu færri einstaklingar.“
Verður þá aukið samtal á milli úrræðanna, svo að einstaklingar týnist ekki í kerfinu?
„Já við viljum gjarnan gera það. Taka stöðuna okkar á milli. Fólk getur líka alveg verið í þjónustu hjá öðrum úrræðum og okkur á sama tíma. Þetta er allt svolítið á forsendum einstaklingana, fólk nýtur auðvitað persónuverndar og við gerum ekkert nema í samtali við það.
Ég skil það alveg að fólki finnist erfitt að fara frá Janusi. Einstaklingarnir voru kannski búnir að ná einhverju öryggi þar og breytingar geta verið erfiðar, en við leggjum okkur fram við að reyna að bjóða upp á þjónustu við hæfi út frá okkar hlutverki.“
Í svari Ölmu Möller heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ingibjargar Isaksen, þingmanns Framsóknarflokksins, um endurhæfingu ungs fólks kemur fram að þríhliða tilraunasamningur milli VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Janusar endurhæfingar hafi verið gerður árið 2023 og að í kjölfar þess að VIRK hafi óskað eftir því að nýta breytingarákvæði um fjölda plássa í samningnum hafi forsvarsmenn Janusar neitað að skrifa undir framlengingu á breyttum samningi.
Sumarið 2024 hafi þá orðið ljóst að VIRK myndi ekki endurnýja samninginn af ýmsum ástæðum, en það hafi einnig verið mat sérfræðinga ráðuneytisins og endurhæfingarráðs að Janus endurhæfing væri fyrst og fremst virkniúrræði og ekki nema að litlum hluta heilbrigðisþjónusta.
Kemur einnig fram að þjónusta Janusar endurhæfingar hafi verið samningsbundin VIRK frá árinu 2011 og heilbrigðisráðherra sé ekki heimilt að fela SÍ að semja um þjónustu sem fellur utan málefnasviðs ráðherra, þ.m.t. starfsendurhæfingu og félagsþjónustu, en SÍ annist samningsgerð um veitingu heilbrigðisþjónustu og félags- og húsnæðismálaráðuneytið annist atvinnutengda starfsendurhæfingu og þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Spurð hvernig hún hyggst tryggja að ungt fólk í viðkvæmri stöðu hafi áfram aðgang að sambærilegri geðendurhæfingu og þeirri sem veitt hefur verið af Janusi endurhæfingu svaraði Alma að framundan væri vinna við að móta heildstæða stefnu í geðheilbrigðismálum í samvinnu við félags- og húsnæðismálaráðuneytið. Liður í því sé að setja á stofn þjónustu og þekkingarmiðstöð vegna taugaþroskaraskana.
Heilbrigðisráðuneytið og VIRK hafi einnig hug á áframhaldandi samstarfi. Öllum sem njóta þjónustu hjá Janusi hafi nú verið boðin önnur viðeigandi þjónusta í samræmi við þjónustuþarfir hvers og eins.
Spurð hvort aðgerðir séu fyrirhugaðar til að bregðast við stöðu þessa hóps svo að ekki verði rof á þjónustu við einstaklinga sem nú njóta endurhæfingar svaraði Alma að forsvarsmenn Janusar hafi óskað eftir því að starfsemi félagsins yrði komið fyrir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, flutningur til heilbrigðiskerfisins myndi gera þjónustuna skilvirkari og hagkvæmari með betri nýtingu fjármuna.
Forstjóri Heilsugæslunnar hafi ekki talið fagleg rök fyrir því að færa starfsemina í heild sinni yfir til stofnunarinnar en lagði til að hluti starfseminnar sem teldist til heilbrigðisþjónustu myndi færast yfir. Stjórn Janusar hafi afþakkað boðið og talið yfirfærsluna fela í sér alvarlega afturför innan geðendurhæfingar og sagt ljóst að aðferðafræði Janusar henti ekki heilsugæslunni.
Frá því að ákvörðun um að endurnýja ekki samninginn við Janus var tekin haustið 2024 hafi forsvarsmenn Janusar, með stuðningi ráðuneytisins, hafið viðræður við Landspítala og Reykjalund um að taka yfir starfsemi Janusar. Það hafi ekki borið árangur vegna margs konar skilyrða forsvarsmanna Janusar, t.d. um óbreytta starfsemi, jafnt skipulag, stjórnun og starfsmannahald og kjör starfsmanna. Þá hafi ekki komið til greina af hálfu forsvarsmanna Janusar að sá sem tæki yfir þjónustuna nyti samlegðaráhrifa með því að samþætta þjónustuna sinni starfsemi.
Segir hún það hafa verið kröfu forsvarsmanna Janusar að heilbrigðisráðuneytið/SÍ myndi fjármagna þau 75% samningsins sem VIRK hafði fjármagnað áður í stað 25% fjármagns frá SÍ vegna læknisfræðilegrar endurhæfingar. Sú krafa hafi verið byggð á einhliða mati Janusar um að endurhæfing hjá Janusi væri einungis læknisfræðileg og ekki starfsendurhæfing, þar með ætti VIRK ekki að eiga aðkomu að samningnum.
Eftir að ljóst var að ekki tækist að koma starfsemi Janusar yfir til annarra aðila hafi heilbrigðisráðuneytið í samstarfi við VIRK, meðferðareiningu lyndisraskana á Landspítala og geðheilsuteymi heilsugæslunnar unnið að því að tryggja framhald þjónustu við þjónustuþegar Janusar. Öllum einstaklingum hafi verið boðið viðtal við ráðgjafa hjá VIRK til að greina þjónustuþarfir og skipuleggja næstu skref í endurhæfingunni í samvinnu.
Þessa vinnu segir hún hafa gengið vel og nú hafi öllum verið boðin önnur viðeigandi þjónusta.
„Því verður ekki rof á þjónustu við þá einstaklinga sem nú njóta endurhæfingar hjá Janusi.“