Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kveðst ögn ósáttur við gagnrýni stjórnarandstöðunnar fyrir að gegna ekki boði forseta Alþingis um að koma til aukaþingfundar á laugardag.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kveðst ögn ósáttur við gagnrýni stjórnarandstöðunnar fyrir að gegna ekki boði forseta Alþingis um að koma til aukaþingfundar á laugardag.
Hann telur að fáir ráðherrar séu duglegri að sækja fundi þingsins og taka þátt í umræðum. Það hafi staðið til á laugardag.
„Umræðan styttist skyndilega og ég náði því ekki á fundinn áður en honum lauk. Ég hafði öðrum hnöppum að hneppa,“ segir ráðherra.
Óvissa um ferðir ráðherra
Þingfundur hófst kl. 10 á laugardagsmorgun og óskaði stjórnarandstaðan skjótlega eftir að ráðherra yrði viðstaddur umræðuna.
Klukkan 10.13 sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti að boð hefðu verið send ráðherranum, en kl. 11.08 tilkynnti hún að ráðherra væri „væntanlegur í hús“, hann hefði verið að sinna „skyldustörfum“.
Aldrei kom Daði þó á þingfundinn, en hátt í þrjár klukkustundir liðu frá því að þingforseti sagði ráðherrann á leiðinni þangað til fundi var loks slitið kl. 13.46.
En hvað hafði forseti fyrir sér?
„Ég geri ráð fyrir því að þingforseti, verandi ákaflega heiðvirð kona, hafi sagt það sem hún best vissi. Hvaðan hún fékk þær upplýsingar veit ég ekki, forseti talaði aldrei við mig,“ segir Daði. Hann segir að Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar hafi komið skilaboðum forseta til sín, en vill ekkert fullyrða um hver hafi svarað forseta því að ráðherra væri á leiðinni.
Meðan á öllu þessu stóð var fjármálaráðherra á vinnufundi á vegum Viðreisnar „Við erum í ríkisstjórn – hvað nú?“, sem var haldinn í þinghúsinu.
Engin tilætluð óvirðing
Daði svarar því ekki hvort vinnustofan teljist til skyldustarfa ráðherra, en segir hana mikilvægan fund. Spurður hvort hann telji einhverja skyldu æðri en að svara þingi segist ráðherra hafa ætlað sér að sinna þeirri skyldu, eins og jafnan.
Margir stjórnarandstöðuþingmenn virtust upplifa fjarveru þína sem vanvirðingu við þingið.
„Ég get ekki stjórnað sálarlífi stjórnarandstöðunnar, þrátt fyrir að ég vildi að það væri mér mögulegt,“ svarar ráðherra.
Voruð þið ekki að hafa stjórnarandstöðuna, sem beið klukkustundum saman, að fífli?
„Nei, það myndi ég aldrei gera. Ég vona að þið getið tekið undir að framkoma mín í þinginu gagnvart stjórnarandstöðunni einkennist af virðingu.“
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.